17.03.1986
Sameinað þing: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3171 í B-deild Alþingistíðinda. (2765)

290. mál, verðbætur á innlán og útlán banka

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að rifja það upp í tilefni af þessari umræðu að meiri hluti Alþingis samþykkti á síðasta ári að gefa vaxtaákvarðanir frjálsar eins og það er kallað. Þar á meðal man ég ekki betur en Bandalag jafnaðarmanna stæði að þeirri ákvörðun. Í þeirri ákvörðun fólst það að bankarnir geta stundað svona æfingar eins og þær sem hv. 3. þm. Reykn. var að skýra hér áðan. Þessi vinnubrögð eiga því rætur að rekja til þeirrar óskynsamlegu ákvörðunar meiri hluta Alþingis á síðasta þingi að gefa vaxtaákvörðun frjálsa.

Svarið hins vegar við fsp. hv. 8. þm. Reykv. finnst mér að gæti verið einfalt. Ég held að svarið sé ósköp einfaldlega það að vaxtamuninn á einum lánaflokki taka bankarnir á öðrum lánaflokkum. Svarið er sem sagt það: Þetta leysa bankarnir vegna þess að það eru margir útlánaflokkar í bönkunum. Þannig er málið gert upp og þannig gengur þetta dæmi upp.

Ég kom aðallega upp til þess að benda á að þessi vaxtavitleysa, sem viðgengst og hér er verið að lýsa af 3. þm. Reykn. og 8. þm. Reykv., er afleiðing af ákvörðun sem þeir tóku sjálfir á síðasta þingi.