17.03.1986
Sameinað þing: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3172 í B-deild Alþingistíðinda. (2767)

318. mál, endurskoðun laga um fasteignarsölu

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e. hefur borið fram fsp. um endurskoðun laga um fasteignasölu og eins og fram kom í máli hans hef ég þegar lagt fram frv. um það mál í hv. Ed. og mælt þar fyrir því og því verið vísað til hv. allshn. Ég vonast vissulega til þess að það takist að afgreiða það mál nú á þessu þingi. Ég beindi því til nefndarinnar að hún reyndi að hraða störfum þó að mér sé ljóst að þarna er margt að athuga þar sem þetta eru mjög mikilvæg mál. Í framsögu fyrir frv. gerði ég grein fyrir þeim breytingum sem í því felast frá núgildandi lögum. Þau atriði sem ég gerði grein fyrir voru í 19 liðum og hv. alþm. geta lesið. Þetta frv. byggist að nokkru leyti á tillögum nefndar sem félmrh. skipaði til að fjalla um húsnæðismál og á hans vegum hefur verið unnið að því sem hv. fyrirspyrjandi vék hér að, útborgunarhlutfalli, eins og hv. alþm. er kunnugt, að reyna að koma þar á breytingum auk annarra margvíslegra endurbóta í sambandi við fasteignaviðskipti og fasteignakaup sem tvímælalaust horfa til bóta.