17.03.1986
Sameinað þing: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3174 í B-deild Alþingistíðinda. (2770)

326. mál, framleiðsla bæti- og matarefna úr mjólk

Fyrirspyrjandi (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Í fjölmiðlum kom það fram nýlega að hér væru á boðstólum og notuð ýmis efni innanlands sem framleidd væru úr mjólk. Það væru t.d. ýmis bætiefni í sambandi við brauðgerð, það væru búðingar af ýmsu tagi og reyndar fleira sem væri hér ýmist notað í iðnaði, í innlendri framleiðslu eða væri á boðstólum innflutt. Því var haldið fram að hér væri í rauninni um milljónir lítra að ræða. Ég get vel trúað því að hér sé um umtalsvert mjólkurmagn að ræða sem með einum eða öðrum hætti sé í mat Íslendinga og sé innflutt. Það er af þessum orsökum og jafnframt með hliðsjón af þeim þrengingum sem mjólkurbúskapurinn á í hér á landi um þessar mundir sem ég hef beint fsp. til hæsv. landbrh. varðandi þetta efni á þskj. 599. Fsp. er mjög einföld.

Hún er á þessa lund:

„Hefur landbrn. beitt sér fyrir eða hefur það í hyggju að beita sér fyrir athugun á hagkvæmni þess að framleiða bætiefni til brauðgerðar, búðinga og önnur skyld matarefni úr mjólk?"

Ég held að fsp. skýri sig sjálf. Ég tel að hér sé um slíkt efni að ræða að eðlilegt sé að það liggi ljóst fyrir hvaða möguleikar séu fyrir hendi í þessum efnum og hversu hagkvæmt það gæti verið að nýta sér slíka möguleika. Ég legg áherslu á að það er ekki einungis að líta á hvort eitthvað sé tæknilega mögulegt heldur þarf það jafnframt að vera hagkvæmt fyrir þjóðfélagið. Þess vegna er fsp. einmitt þannig orðuð að það er ekki spurt að því hvort þetta sé beinlínis mögulegt tæknilega séð heldur spurt að því hvort þetta geti verið hagkvæmt og hvort landbrn. hafi látið kanna þetta eða muni gera það.