17.03.1986
Sameinað þing: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3174 í B-deild Alþingistíðinda. (2771)

326. mál, framleiðsla bæti- og matarefna úr mjólk

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég óskaði eftir grg. frá Mjólkursamsölunni í Reykjavík um stöðu þess máls sem fram kemur í fsp. hv. 3. þm. Reykn. um framleiðslu bæti- og matarefna úr mjólk. Ég ætla að lesa það svar sem borist hefur frá Mjólkursamsölunni, með leyfi hæstv. forseta:

Framleiðsla íblöndunarefna, t.d. í bökunariðnaði, er háþróaður efnaiðnaður. Þau efni sem þar um ræðir og boðin eru til iðnaðarnota eru venjulega seld undir ýmsum verslunarheitum þar sem um sérhæfða vöru er að ræða og oftlega er einnig um framleiðsluleyndarmál að ræða. I þeim löndum þar sem efnaiðnaður af þessu tagi er stundaður hefur hlutverk mjólkuriðnaðarins verið að bjóða efnaiðnaðinum vörur, svo sem undanrennuduft, nýmjólkurduft, kaseinöt og skyldar vörur sem notaðar eru í meira eða minna magni sem hráefni í hinar ýmsu efnablöndur. Hér á landi hefur mjólkuriðnaðurinn boðið undanrennuduft og nýmjólkurduft sem íslenskur matvælaiðnaður notar í verulegum mæli. Framleiðsla á kaseinötum hefur ekki verið stunduð hér á landi af þeirri ástæðu að eftirspurn hefur verið of lítil til að standa undir þeirri fjárfestingu sem þarf til að koma þeirri framleiðslu á fót, auk þess sem efnaiðnaður af því tagi sem nefndur hefur verið hér að framan er ekki starfræktur hér á landi. Hins vegar má vera að það sé verðugt iðnþróunarverkefni að efnaiðnaður af þessu tagi sé kannaður og ef mögulegt er og hagkvæmt þykir að slíkum iðnaði sé komið á fót hér á landi.

Mjólkurbú Flóamanna hefur farið þess á leit við fæðudeild Rannsóknastofnunar landbúnaðarins að aflað verði í gegnum upplýsingabanka, sem stofnunin hefur aðgang að í Bretlandi, upplýsinga um samsetningu helstu íblöndunarefna fyrir bökunariðnað og annan matvælaiðnað, m.a. til þess að gera sér grein fyrir því að hve miklu leyti mjólkurvörur, sem framleiddar eru og hugsanlega mætti framleiða hér á landi, eru notaðar í þessar efnablöndur. Einnig með það fyrir augum hvort hugsanlegt væri að flytja inn þessar efnablöndur án mjólkurvaranna sem í þær eru notaðar. Hér er bent á leið sem þyrfti að líkindum að vinna í samvinnu við erlenda framleiðendur.

Í júnímánuði á síðasta ári lagði Mjólkurbú Flóamanna það verkefni fyrir danska verkfræðingafyrirtækið Kolding gruppen, sem sérhæft er á sviði mjólkuriðnaðar, hvort hagkvæmt væri fyrir Mjólkurbú Flóamanna að koma upp búnaði til framleiðslu á kaseinati og var miðað við að framleiðslumagn væri ca. 100 tonn á ári, ca. 3,2 millj. lítra af undanrennu. Svar barst strax þar sem sagði að framleiðslumagnið væri margfalt of lítið til að forsvaranlegt væri að fjárfesta í búnaði til slíkrar vinnslu. Í framhaldi af þessu lagði Mjólkurbú Flóamanna fyrir sama fyrirtæki fsp. um hvort hugsanlegt væri að finna einhverjar aðrar leiðir sem krefðust minni fjárfestinga, jafnvel þó þær leiðir krefðust mikils mannafla. Svör við þessari fsp. hafa ekki borist enn.

Eins og fram kemur í grg. Mjólkursamsölunnar hafa þessi mál verið athuguð og reynt að finna hagkvæmar leiðir. Það sýnir að mjólkuriðnaðurinn reynir að fylgjast með þeim möguleikum sem þarna er um að ræða og vera á verði ef einhver tækifæri gefast til betri nýtingar á íslenskri mjólk.

Landbrn. hefur stutt að markaðsöflun og vill vinna á þeim sviðum sem mögulegt er. Það hefur stutt þær grundvallarrannsóknir sem gerðar hafa verið á mjólk hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins sem má segja að séu undirstaða að möguleikum á nýtingu mjólkurinnar til fleiri nota. Þessu starfi verður að sjálfsögu haldið áfram.