17.03.1986
Sameinað þing: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3175 í B-deild Alþingistíðinda. (2773)

326. mál, framleiðsla bæti- og matarefna úr mjólk

Fyrirspyrjandi (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. svörin. Mér fannst kannske að sú vísbending sem í svörunum var fólgin og mikilvægust var væri sú að hér væri í rauninni um háþróaðan efnaiðnað að ræða, ég held að það hafi komið fram einmitt með þeim orðum í svari hæstv. ráðh., og að það væri ekki ólíklegt að farsælast væri að taka upp samvinnu við einhverja erlenda aðila, ekki bara um það hvernig ætti að bera sig til heldur jafnvel um framleiðsluna sjálfa. Ég held að hæstv. ráðh. hafi notað þau orð að hér væri kannske ekkert síður um iðnþróunarverkefni að ræða. Þetta leiðir vitaskuld hugann að því hverja nauðsyn ber til þess að hin einstöku ráðuneyti vinni saman og í þessu tilviki þá annars vegar iðnrn. og hins vegar landbrn. Ég vil þess vegna leyfa mér að beina þeirri spurningu af þessu tilefni til hæstv. iðnrh. hvort hans ráðuneyti eða þær stofnanir sem undir það heyra hafi gefið þessum málum sérstakan gaum eða hvort hans ráðuneyti hafi í hyggju að líta á þetta mál sérstaklega þannig að þess sé að vænta að þær stofnanir sem heyra undir þessi tvö ráðuneyti vinni þá að athugun málsins saman.