17.03.1986
Sameinað þing: 62. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3177 í B-deild Alþingistíðinda. (2780)

Iðgjöld bifreiðatrygginga

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Áður en ég kem að tryggingariðgjöldum bifreiða vildi ég víkja örlítið að öðru máli í upphafi.

Sá er gjarnan háttur þm. í þessari virðulegu stofnun er þeir bera fram fsp. til viðkomandi ráðherra að þó þeir þakki kurteislega svörin geta þeir þess fremur sem miður fer, en þakka oft ekki sem skyldi viðkomandi ráðherra ef hann er pólitískur andstæðingur. Ég vil bregða út af þessum vana og þakka hæstv. viðskrh. fyrir að stöðva hækkanir á þjónustugjöldum bankanna. Fyrir röskri viku lét ég úr þessum ræðustól undrun mína í ljós á að bankar, ríkisbankar sem aðrir, Alþýðubankinn einn undanskilinn, stórhækkuðu sína þjónustu á sama tíma og ríkisstjórnin hafði nýlega lýst því yfir að hún mundi gera allt sem í hennar valdi stæði til að hindra verðhækkanir. Í máli hæstv. viðskrh. kom fram að bankarnir höfðu ekki haft fyrir því að tilkynna viðskrh. þessar furðulegu hækkanir sínar, hvað þá bankaráðum. Ráðherra lýsti því yfir á þessum þingfundi að hann mundi kynna sér mál þetta og beita sér gegn því. Nú liggur það fyrir að hæstv. viðskrh. hefur gengið í málið með einstökum skörungs- og myndarskap. Eftir japl, jaml og fuður bankastjóra hótaði hann þeim lögum ef þeir færðu ekki þjónustugjöld til fyrra horfs. Og bankastjórar urðu að beygja sig, en það er nokkur nýlunda á landi hér. Hæstv. viðskrh. hefur sýnt í máli þessu reisn og festu og ég veit að ég mæli fyrir þorra almennings í landinu þegar ég færi honum þakkir fyrir skörungsskap í þessari embættisfærslu allri. Og það sýndi sig áðan. Hér var mætt sendinefnd frá Alþýðusambandinu sem færði viðskrh. blómvönd fyrir frammistöðuna og er það nokkur nýlunda, enda mættu aðrir ráðherrar nokkuð af þessu læra.

Nú nýlega er upplýst að iðgjöld af tryggingum bifreiða hafi verið hækkuð um 22%. Nú er sú beiðni mín til hæstv. trmrh., sem því miður er ekki viðstaddur, að hann lækki eða afnemi hækkanir þessar á tryggingagjöldum bifreiða. Nú hafa bifreiðar lækkað, allur tilkostnaður lækkað og verðbólgustig allt annað en spáð var. Ég vil ekki fara, þó ástæða væri til, ítarlega út í mál þetta þar sem hæstv. trmrh. er ekki viðstaddur, en ég mundi vilja biðja hæstv. viðskrh. í sínum skörungsskap að segja við hæstv. trmrh.: Enn er eftir yðvarr hlutur.