17.03.1986
Sameinað þing: 62. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3179 í B-deild Alþingistíðinda. (2785)

Iðgjöld bifreiðatrygginga

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég vil taka mjög undir orð hv. 7. þm. Reykv. þar sem hann þakkaði viðskrh. röskleg viðbrögð við verðhækkunum. Ég vil jafnframt minna á það að verkalýðssamtökin og vinnuveitendur hafa gert kjarasamninga um eins stafs tölu í kauphækkun, lága eins stafs tölu. Við gerðum kjarasamninga sem stefna að því að verðbólga verði eins stafs tala, lág eins stafs tala. Þess vegna brá okkur mjög í brún þegar sú tilkynning berst nokkrum dögum eftir að við höfðum skrifað undir kjarasamningana að bifreiðatryggingar hækki um tveggja stafa tölu.

Ég er í nefnd sem Alþýðusambandið skipaði til þess að fara ofan í þessi mál og við ræddum við tryggingaeftirlitið. Þar kom fram að þeir höfðu sent trmrn. bréf og í því bréfi segir, með leyfi forseta:

„Í ljósi nýgerðra kjarasamninga og efnahagsráðstafana í kjölfar þeirra og með tilvísun til símtals um þessi mál við ráðuneytið vill tryggingaeftirlitið hér með kynna niðurstöður sínar varðandi þá hækkun iðgjalda er eftirlitið telur nauðsynlega nú og leita viðbragða ráðuneytisins við þeim niðurstöðum.“ Því miður voru viðbrögðin þau að samsinna þessu. Ég vænti þess að nýr flötur verði fundinn á því máli og ráðuneytið bregðist hart við.

Á þessum fundum kom til viðræðu við okkur fulltrúi samráðsnefndar, sem ég vil gjarnan kalla samtryggingarnefnd, og það kemur fram, sem menn sjálfsagt vita, að öll tryggingafélögin eru með sömu iðgjöld. Tíðkast það nokkurs staðar í heiminum að slík samtryggingarnefnd sé starfandi á vegum tryggingafélaga?

Tíðkast það nokkurs staðar í heiminum að iðgjöld tryggingafélaga séu alls staðar eins? Hæstv. ráðherra svaraði þessu að nokkru hér áðan, en mig langar til að vita hvort þetta fyrirbrigði finnist nokkurs staðar. Ég hygg að svo sé ekki og tel að það sé engin hæfa að svona vinnubrögð séu höfð í frammi.

Við héldum og fund með forstjórum tryggingafélaganna. Þar voru þau öll samankomin sem í samráðsnefndinni eru - eða samtryggingarnefndinni. Þar voru Samvinnutryggingar, þar var fyrirtæki sveitarfélaganna, Brunabótafélagið, með sinn fulltrúa og allir sungu þeir sama tóninn. En ég vænti þess að viðkomandi ráðuneyti taki til hendinni og lækki þessa hækkun allverulega, a.m.k. niður í lága eins stafs tölu líkt og verið er að tala um í verðbólgu og í kauphækkunum.