17.03.1986
Sameinað þing: 62. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3180 í B-deild Alþingistíðinda. (2787)

Iðgjöld bifreiðatrygginga

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég þykist muna það rétt að þegar þessi mál bar fyrst á góma hafi hæstv. heilbr.- og trmrh. látíð þess getið að hann gæti nú eiginlega ekkert í þessu gert. Hér væru komnar tölur og ef hann gæti ekki fundið reikniskekkju, þá gæti hann ekkert gert annað en láta þetta yfir okkur ganga. Það verður að teljast nokkuð hart, en í þessu sambandi vil ég spyrja að því hvort þetta mál hafi virkilega ekki verið tekið fyrir í ríkisstj. vegna þess að aðstæður allar eru svo sérkennilegar að manni þykir mjög einkennilegt að það skuli virkilega þurfa að hækka tryggingariðgjöldin svo mikið sem hér er gert ráð fyrir. Við erum að tala um að það verði 8% verðbólga. Bílar eru að lækka í verði um upp undir 30% og samt segja menn að iðgjöldin þurfi að hækka um 22%. Mín spurning er í rauninni sú: Hafa menn sannfærst um það í ríkisstj. að hér sé í raun og sannleika um réttan útreikning að ræða eða hafa menn ekki tekið þetta til umræðu þar svo alvarlegt sem það er?

Ég skal ekki fara út í aðra sálma í þessu sambandi, en get auðvitað ekki stillt mig um að benda á það og ítreka það sem hér hefur komið fram hvers konar ægilegar hækkanir hafa yfir okkur gengið í þessu kerfi, kerfi sem greinilega einkennist af einokun. Og það má kannske verða okkur til nokkurrar leiðsagnar á ýmsum öðrum sviðum líka.