19.03.1986
Efri deild: 63. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3190 í B-deild Alþingistíðinda. (2795)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Jóhanna Leópoldsdóttir:

Háttvirtur forseti. Í I kafla 6. gr. þessa frv. segir svo, með leyfi forseta:

„Skylt er sveitarfélögum að annast þau verkefni sem þeim eru falin í lögum.“ Og síðan segir: „Sveitarfélög skulu hafa sjálfstæða tekjustofna og sjálfsforræði um gjaldskrá eigin fyrirtækja og stofnana til þess að mæta kostnaði við framkvæmd þeirra verkefna sem þau annast.“

Meðal verkefna sveitarfélaga eru félagsmál, atvinnumál, húsnæðismál, skipulagsmál og byggðamál, almannavarnir og öryggismál, hreinlætismál, heilsugæsla, menningarmál, íþróttir og útivera, landbúnaðarmál, bygging og viðhald mannvirkja, svo sem gatna, vega og torga, ráðstafanir til að koma í veg fyrir almennt atvinnuleysi og bjargarskort.

Þar sem ég þekki til stendur ekki á vilja sveitarstjórnarmanna til að leysa mál síns byggðarlags. Það vantar einfaldlega peninga, eins og hæstv. félmrh. hlýtur að vita manna best. Hann ætlast samt til að hv. þm. geti tekið afstöðu til þessa frv. án þess að lagt hafi verið fram frv. um tekjustofna sveitarfélaga og verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Það þarf að auka tekjur sveitarfélaga til að þau geti leyst sín verkefni. Þau hafa samstarf um lausn margra mála og gengur það í flestum tilfellum vel, en samstarf við ríkið gengur hins vegar miklu verr og oft illa.

Í V. kafla 48. gr. segir svo, með leyfi forseta: „Sveitarstjórnarfundir skulu haldnir fyrir opnum dyrum, en sveitarstjórn getur ákveðið að einstök mál skuli rædd fyrir luktum dyrum.“

Það segir hins vegar ekkert um að fundir skuli auglýstir þannig að fólk viti hvenær þeir eru og það geti mætt á þá. Eins tel ég gott að fundargerðum, forðagæsluskýrslum og reikningum hreppsins sé dreift á hvert heimili í sveitarfélaginu. Þetta er gert í því sveitarfélagi sem ég bý í, Miklaholtshreppi, en fáum öðrum að ég hygg.

Af því sem í þessu frv. felst þarf fyrst og fremst að lögfesta kosningaaldur og kjördag. Þetta frv. er með alls konar klásúlum um þumalskrúfur á sveitarstjórnir og sveitarstjórnarmenn eins og þeir séu hinn mesti rumpulýður, „ráðuneytið skal þá úrskurða“ eða „ráðuneytið getur“, en fátt eða ekkert er um öfug ákvæði.

Fólk á landsbyggðinni er orðið mjög þreytt á eilífðarmiðstýringu sem stórkostlega hefur aukist í tíð þessarar frjálshyggjuríkisstjórnar framsóknar og sjálfstæðismanna. Það er eins og ryksugubarkar liggi um allt land sem sjá til þess að koma öllum peningum hingað til Reykjavíkur. Síðan verðum við að biðja um skóla, heilsugæslu, hafnir og flest annað eins og ölmusu í eigin vasa. Þetta finnst Ólsurum jafnbölvað og öðrum, hæstv. félmrh.