19.03.1986
Efri deild: 63. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3197 í B-deild Alþingistíðinda. (2797)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki hafa langt mál um þetta nú, enda hefur fulltrúi Alþb. þegar talað við þessa umræðu.

Því er ekki að leyna í sambandi við þetta frv., sem hér er lagt fram til sveitarstjórnarlaga og hefur fengið mikla umfjöllun í Nd., mjög langa og eflaust ítarlega einnig, að þar er margt til bóta og margir þættir þess, sem snúa að starfsemi sveitarstjórna og skilum á ýmsu þar, eru vissulega til bóta. Ég dreg ekkert úr því og skil það mætavel að sveitarstjórnarmenn almennt vilji að þetta frv. nái fram að ganga til þess að fá um margt skýrari ákvæði um ýmislegt af því sem þegar er orðið úrelt í þessum málum og mætti horfa til betri vegar. Ég tek þetta fram strax í upphafi til að það sé alveg ljóst að ég tel að frv. í þeirri mynd sem það er núna sé til bóta, en með þessum stóru takmörkunum þó að það er ekkert í þessu frv. lengur sem skiptir í raun og veru sköpum um hvernig við færum til vald í þessu þjóðfélagi, hvernig við þróum byggð í þessu þjóðfélagi, hvernig við færum verkefni til í þessu þjóðfélagi. Ekkert af því er í raun og veru þarna inni að neinu marki. Og sú tilraun sem hæstv. félmrh. gerði í þessu efni að tillögum endurskoðunarnefndarinnar varðandi héraðsnefndirnar þar sem vísir var að þessari tilfærslu, vísir sem hefði vissulega getað orðið til góðs, sá kafli er með öllu felldur niður. Við erum sem sagt víðs fjarri því sem við höfum verið að tala um oft að undanförnu, því sem við köllum valddreifingu og virkt lýðræði. Við þekkjum það a.m.k. sem höfum starfað í byggðanefndinni. Það er mjög fræg setning í þeirri nefnd að við eigum að starfa sérstaklega að valddreifingu og virkara lýðræði samkvæmt erindisbréfi sem við fengum frá okkar þingflokkum. Þetta verkefni er því miður ekki gert upp í þessu frv. til sveitarstjórnarlaga. Það þykir raunar engum mikið og kemur út af fyrir sig ekki á óvart sú uppgjöf sem hér er á ferðinni.

Á s.l. vetri lagði byggðanefnd þingflokkanna fyrir alla þingflokkana spurningar um hvað menn vildu gera varðandi hið svokallaða þriðja stjórnsýslustig og hvernig því skyldi vera háttað þ.e. hvort til þess skyldi kosið beinni lýðræðislegri kosningu eða með hvaða hætti öðrum ætti að haga þeim málum. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar svöruðu þessum spurningum byggðanefndarinnar skilmerkilega. Ekki var þar um einróma álit allra að ræða og ég greindi frá því t.d. að í mínum flokki væru uppi misjafnar skoðanir. Meirihlutafylgi væri fyrir þriðja stjórnsýslustiginu, millistigi með fyrst og fremst auðvitað því hlutverki að færa vald frá ríkinu, hinu miðstýrða valdi hér í Reykjavík, yfir til þessa millistigs. Hinu er ekki að leyna heldur, og segi ég þetta m.a. af því að hér er fjarverandi hv. 4. þm. Vesturl. Skúli Alexandersson, að innan okkar raða í Alþb. eru þarna einnig skiptar skoðanir og ég hygg að sá ágæti hv. þm. sé ekki ýkja hrifinn af þessu millistigi. En meiri hluti svaraði þessu þó á þann veg að þingflokkurinn styddi að mestu leyti þetta millistig.

Hins vegar komu engin svör frá þeim ráðandi öflum sem nú eru í þjóðfélaginu, þ.e. þeim stjórnarflokkum sem ráða stefnunni m.a. varðandi það sveitarstjórnarlagafrv. sem við höfum nú hérna fyrir framan okkur. Við skiljum núna hvers vegna frá þeim komu engin svör. Það var vitanlega af því að það tókst ekki að gera þetta mál þar upp m.a. með tilliti til þessa frv. um sveitarstjórnarlögin, jafnvel þó að menn hefðu náð því að vera með héraðsnefndirnar inni. Ég tel því að við afgreiðslu þessa frv. sé uppgjöri um aðalmálið frestað, spurningunni um hvort við eigum að færa vald yfir til þessa millistigs og eigum í raun og veru að beita okkur fyrir valddreifingu og virkara lýðræði í þeirra orða fyllstu merkingu.

Þar með er ég ekki að segja að ég sé búinn að skrifa upp á það frv. sem við höfum séð núna frá einum hv. fulltrúa Framsfl., sem vill nú svo til að er sérlegur fulltrúi þess flokks í byggðanefndinni, hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni. Það væri nógu fróðlegt að heyra álit hæstv. félmrh. á því frv. því að hæstv. forsrh. gerði það mjög snyrtilega í gær að sverja þetta af sér og meira að segja sór hv. þm. Ólaf Þ. Þórðarson svo rækilega af sér að þeir framsóknarmenn hefðu treyst honum í þátíð en gerðu það ekki í nútíð. Ég veit ekki um hæstv. félmrh. í þeim efnum. En sannleikurinn er sá að þar er gengið býsna langt í mörgum greinum og mér dettur ekki í hug að taka undir margt af því sem þar er, m.a. varðandi kosningar til Alþingis sem eru með miklum undrum þar, að ég ekki segi meira, og ýmislegt annað sem ég ræði ekki í tengslum við þetta. Sannast sagna veit maður ekki hvort þar er um alvörufrv. að ræða eða ekki í því formi sem það hefur nú. Ég efast ekki um að hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni sé full alvara með það að bera það á borð, en það hefði mátt matreiða þetta á örlítið vitrænni hátt áður en það var lagt inn eins og það birtist okkur núna.

En vitanlega er þar um stjórnarskrárbreytingu að ræða sem fjallar fyrst og fremst um þetta millistig og ekki tekið mildilega á hlutunum þar sem fylkjahugmyndin er reifuð jafnrækilega og útfærð eins rækilega og þeir hafa séð sem hafa lesið þetta frv. sem samið er af Samtökum um jafnrétti milli landshluta og eru allra góðra gjalda verð þó að ég lýsi því hins vegar yfir að mér þykir það furðulegt, miðað við það samstarf sem þessi samtök hafa haft við þingflokkana og ýmsa aðila úr þingflokkunum, að allt í einu skuli með pomp og pragt einum einasta þingmanni falið að flytja mál þeirra á Alþingi. Það er svo önnur saga sem ég mun eiga orðastað um við þá félaga í þessum samtökum síðar því að það er með eindæmum undarlegt miðað við það góða samstarf sem tekist hefur milli margra forustumanna þeirra og ýmissa þm. úr öllum flokkum.

Uppgjöri um þetta aðalmál er sem sagt frestað. Ég geri mér grein fyrir því að sveitarstjórnarmenn margir hverjir eru guðs lifandi fegnir að sleppa þessu uppgjöri, en það er óhjákvæmilegt fyrr eða síðar að það verði. Þeir sem hafa mest á móti millistiginu eru enn þá, eftir öll þessi ár, að segja: Það þarf að sameina sveitarfélögin. Það þarf að stækka sveitarfélögin. - Við þetta eru þessir sömu aðilar búnir að puða öll þessi ár án nokkurs sýnilegs árangurs nema á tveim stöðum eða svo á landinu þar sem aðstæður hafa hreinlega kallað og knúið á að þetta væri gert. Þannig vitum við að sameining sveitarfélaga er vitanlega fjarlægur draumur, jafnvel þó með fullu samkomulagi sé, því að ekki er ég talsmaður þess að sveitarfélög verði sameinuð lögbundið eins og margir hafa talið. Það hreint út sagt gengur ekki. En það þarf í raun og veru af löggjafans hálfu að sjá svo til með ýmsum ráðum, með ýmsum stjórnvaldsaðgerðum að sveitarfélögin séu nauðbeygð til þess með einhverjum hætti að hafa miklu meiri samvinnu sín á milli. Það er að vísu gerð tilraun til þess með byggðasamlögunum, en sú tilraun tel ég að sé allt of veikburða og eigi ekki eftir að skila neinu teljandi umfram það sem mögulegt er nú þegar.

Ég ætla ekki að hafa efnislega umræðu um þetta nú, ég fæ þetta mál í nefnd, en á það legg ég áherslu að vinnubrögðum í nefnd verði hagað með skikkanlegum hætti. Ég efast ekki um að hv. formaður nefndarinnar vill það, vill hafa um það samstarf við okkur að við getum farið þokkalega yfir þetta frv., rætt það skipulega og skaplega, og ég efast ekki heldur um að hæstv. félmrh. er mér sammála í því að það er vitanlega útilokað annað en að við höfum a.m.k. tímann vel fram yfir páska til að skoða þetta mál. Það er útilokað annað og alveg sérstaklega með tilliti til þess að ég hygg að það séu nær þrjár vikur sem Nd. var með þetta mál milli 2. og 3. umr. eða frá því að það kom til 2. umr. og fór út úr deildinni við 3. umr. Ég tel það svo sjálfgefið að ég held ég þurfi ekkert að vera að eyða að því fleiri orðum. Ég ætla ekki að gera því skóna að menn ætti að þjösna þessu máli hér í gegn. Hitt er svo annað mál að auðvitað tekur maður eftir því að það er með ódæmum að mál eins og þetta skuli vera afgreitt frá Nd. með minni hluta atkvæða þar. Það er auðvitað alveg með eindæmum. Ég held ég fari rétt með það að endanleg samþykkt frv. hafi verið með 18 atkvæðumí Nd. Það var líka með eindæmum, þótti mér, hvernig gersamlega var valtað, eins og ég vil nú segja það, yfir þá hv. þm. Pálma Jónsson og Friðjón Þórðarson og ekki tekið tillit til þessara tveggja fyrrv. hæstv. ráðh. Sjálfstfl. (EgJ: Þeir voru nú ekki í góðum félagsskap þá.) Jú, þeir voru í góðum félagsskap, enda búa þeir að því enn þá. Það er greinilegt. Þeir eru með það ágætar tillögur enn þá að það er greinilegt að þeir búa að þeim góða félagsskap. Ég vek athygli hv. 11. landsk. þm. á því og veit að ef hann hefði kynnst þeim góða félagsskap mundi hann einnig sakna hans mjög og kæmi ekki á óvart þó þessir menn væru með um margt heilbrigðari og betri sjónarmið en ýmsir aðrir í þessu liði. En ég ætla ekki að fara að ræða það.

Aðeins ein spurning að lokum sem ég veit ekki hvort hefur verið varpað fram til hæstv. ráðh. Hann mun hafa sagt það á þingfundi í Nd. fyrir u.þ.b. þrem vikum eða nálægt því að frv. um tekjustofna sveitarfélaga væri að koma næstu daga. Og nú spyr ég af því að við höfum ekki séð þetta frv.: Kemur þetta frv. núna næstu daga eða hvað átti hæstv. ráðh. við með næstu dögum því að það hygg ég að ég hafi lesið eftir honum haft að frv. kæmi næstu daga? Ég held það hefði verið sem fylgifrv. með þessu alveg lágmark við afgreiðslu þessa máls að við hefðum séð það mál, hvernig það snýr að þinginu, varðandi tekjustofna og verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga almennt.