19.03.1986
Efri deild: 63. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3202 í B-deild Alþingistíðinda. (2799)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að ræða þetta frv. efnislega við 1. umr. þess. Ég á sæti í hv. félmn. og ég mun geyma mér efnislega umræðu um frv. þar til ég hef haft tækifæri til að fjalla um málið í nefndinni og kynna mér hinar ýmsu hliðar þess. Hér er viðamikið mál á ferðinni sem þegar hefur hlotið allnokkra umfjöllun í hv. félmn. Nd. og í Nd. og ég mun því geyma mér efnislegar umræður þar til við 2. umr. málsins.

Það sem ég vildi einkum víkja að fáeinum orðum nú er málsmeðferðin sjálf. Samtök um kvennalista eiga ekki fulltrúa í félmn. Nd. þannig að við erum að koma að nefndarstörfum hvað þetta mál varðar nú í Ed. Ég vil láta það koma fram að ég er ekki tilbúin að veita þessu máli fljótaskrift í hv. félmn. Ed. Ég mun áskilja mér tíma til að vinna málið þar og vinna það vel, en ég tek það fram að ég skal ekki láta á mér standa og ekki liggja á liði mínu í því efni í nefndinni.

Hvað varðar vinnubrögð sem sæmandi eru fyrir hæstv. Alþingi: Um það hef ég svo oft rætt héðan úr ræðustól fyrir daufum eyrum að ég ætla ekki að gera það að umræðuefni aftur. Hins vegar vil ég láta það koma fram að ég tel það skynsamlegustu lausnina í þessu máli, þar sem stutt er eftir af þinghaldi og þar sem óðum styttist í sveitarstjórnarkosningar, að taka út úr frv. þau ákvæði sem nauðsynlegt er að afgreiða fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar og sem varða aldursmörk varðandi kjörgengi og kosningarrétt og kjördag bæði í þéttbýli og dreifbýli.

Í Nd. var Kvennalistinn aðili að flutningi till. um afgreiðslu þessa frv. á þennan veg og ég taldi þá og tel enn að þetta sé skynsamlegust afgreiðsla málsins þar sem við það mun vinnast tími til að skoða málið betur og lagfæra það sem ýmsir, sem að afgreiðslu málsins stóðu í Nd., hafa kallað klúður. Ég mun því styðja og gerast meðflm. að slíkri till., komi hún fram hér í Ed., og ég mun gera mitt til þess að umræða um slíka till. fari fram í hv. félmn.