31.10.1985
Sameinað þing: 10. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í B-deild Alþingistíðinda. (280)

10. mál, nefnd til að kanna rekstur Innkaupastofnunar ríkisins

Flm. (Kristín S. Kvaran):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu 10. mál þingsins, till. um rannsóknarnefnd þm. til að kanna rekstur Innkaupastofnunar ríkisins. Flm. auk mín eru Kristín Halldórsdóttir og Kolbrún Jónsdóttir og tillagan er svohljóðandi:

„Alþingi samþykkir að kjósa níu manna rannsóknarnefnd, skipaða þm. frá öllum þingflokkum, til að kanna rekstur Innkaupastofnunar ríkisins.“

Það sem varð virkilegt tilefni til að setja fram þáltill. um að rekstur Innkaupastofnunarinnar yrði rannsakaður var frétt í Morgunblaðinu þann 1. okt. þar sem greint var frá því að 8 millj. kr. hefðu verið sviknar út úr Innkaupastofnun ríkisins. Þar höfðu verið falsaðar ávísanir sem gefnar voru út fyrir greiðslu verks. Til nánari skilgreiningar þessu vil ég, með leyfi forseta, lesa smákafla úr þessari frétt:

„38 ára gamall framkvæmdastjóri verktakafyrirtækis í Reykjavík hefur viðurkennt að hafa svikið 8 millj. kr. út úr Innkaupastofnun ríkisins með því að falsa ávísanir sem hann fékk sem greiðslur vegna byggingar sundlaugar við Grensásdeild Borgarspítalans í Reykjavík. S.l. laugardag var maðurinn úrskurðaður að kröfu Rannsóknarlögreglu ríkisins í gæsluvarðhald til 9. okt. n.k. vegna rannsóknar málsins. Innkaupastofnun ríkisins kærði manninn í síðustu viku þegar í ljós kom að ávísanir, sem greiddar höfðu verið út, höfðu verið falsaðar.“

Ávísanirnar höfðu verið falsaðar og maðurinn hafði viðurkennt athæfið og ég hef ekki hugsað mér að setjast í dómarasæti gagnvart því. En það sem fyrst og fremst vekur athygli í þessu sambandi er að svo langur tími skyldi líða frá því að fyrsta ávísunin var fölsuð og fé reitt fram af reikningi Innkaupastofnunarinnar þar til upp komst eða eins og segir í sömu frétt, með leyfi forseta:

„Síðasta ávísunin var gefin út í ágúst s.l., hin fyrsta í febrúar. Það var loks í síðustu viku að svikin komust upp, um átta mánuðum eftir að fyrsta ávísunin var fölsuð og framvísað í banka.“

Enn fremur vekur það óneitanlega athygli að ekki skuli hafa verið lagt til að rekstur Innkaupa­ stofnunarinnar yrði rannsakaður í beinu framhaldi af þessum tíðindum. Það var eðlilegt að bókhald mannsins skyldi verða tekið til athugunar og um það var getið í blöðum. En að sama skapi var ekkert getið um að til stæði að kanna rekstur ríkisfyrirtækisins. Til þess hefði þó verið ærin ástæða sé tekið tillit til þess að svo stórar fjárhæðir gátu verið útistandandi án þess að til kæmi að gerðar væru um það athugasemdir af hálfu stofnunarinnar. Mig langar aðeins, með leyfi herra forseta, að fá að lesa hér upp úr grg. með till., en þar segir:

„Það er skylda Alþingis að bregðast skjótt við í máli sem þessu og láta rannsaka fjárhag stofnunarinnar og bókhald ofan í kjölinn. Það verður að koma í ljós í slíkri rannsókn hvernig fjárveitingar til stofnunarinnar nýtast og hvernig stjórn stofnunarinnar almennt er háttað þegar litið er til þess að svo stórar fjárhæðir, sem hér um ræðir, geta verið útistandandi svo mánuðum skiptir án þess að hafa nokkur áhrif á fjárhag stofnunarinnar.“

Þessi ríkisstofnun starfar að fyrirmælum þingsins eins og fram kemur af fskj. með till. og þar kemur fram hve viðamikið hlutverk henni er ætlað. Það er þess vegna sem nauðsynlegt er að gengið verði úr skugga um hvort verið gefi að stofnunin hafi hugsanlega brugðist því hlutverki sínu á fleiri sviðum.

Ég vil að lokinni þessari umræðu leggja til að till. verði vísað til síðari umræðu og allshn.