19.03.1986
Efri deild: 63. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3203 í B-deild Alþingistíðinda. (2800)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Sjálfur hef ég verið sveitarstjórnarmaður í alllangan tíma og ekki voru lög og reglugerðir til trafala því starfi sem þar var unnið, að mínu mati, en ég varð þó var við það að því litla leyti sem það kom til að margt var úrelt í þeim efnum sem þurfti endurskoðunar við.

Fram hefur farið viðamikil endurskoðun á sveitarstjórnarlögum og er það af því góða að því skuli sinnt. Menn geta deilt um hvernig með skuli fara og það hefur vissulega verið mikið um það deilt í Nd. Ég verð að játa að ég átti ekki von á að frv. kæmist til Ed. Þess vegna hef ég ekki farið ítarlega ofan í efnisatriði frv. Það verður að játast hér.

Ég verð að minnast á það og að Alþfl. á ekki fulltrúa í félmn. sem er vissulega mjög bagalegt fyrir Alþingi og nefndina sjálfa. Ég vænti þess að við fáum áheyrnarfulltrúa þar sem getur tekið þátt í störfum nefndarinnar og farið yfir þau efnisatriði sem í því felast.

Eitt er þó ljóst af fljótri yfirferð, að lítið er tekið á þeim málum er lúta að samtökum sveitarfélaga. Þar er mér efst í huga að þeir sem mynda meiri hluta í hverju bæjarfélagi hafa verið allsráðandi í þessum samtökum. Aðrir hafa ekkert með það að gera. Jafnvel þótt stjórnmálaflokkar séu mjög stórir á þann mælikvarða sem hægt er að setja á í svona samtökum, jafnvel næststærsta stjórnmálaaflið, hefur þetta stjórnmálaafl ekkert um það að segja hvernig stjórnarkjöri er háttað í þessum samtökum. Það er mjög miður og ég tel að það þurfi að gæta réttinda minni hluta í þessum efnum og tel að það vanti í þetta frv.

Annað er það, sem einnig mun koma fram við umræður um tekjustofna sveitarfélaga, en nokkuð er minnst á tekjustofna hér. Það er sérstaklega að þegar sveitarfélög eru komin í fjárþrot muni vera heimilt að leggja allt að 25% útsvar á sem verður sjálfsagt að gera þegar nauðsyn rekur menn til þess. Ég velti því mjög fyrir mér hvort ástæða er til að binda hendur sveitarstjórnarmanna svo mjög hvað varðar tekjustofna. Við búum að vísu við sérstakt ástand núna þar sem menn keppast við að ná verðbólgunni niður og koma skikkan á efnahagsmálin fyrir frumkvæði verkalýðshreyfingar og vinnuveitenda, en ég tel að sveitarstjórnir eigi að hafa meiri pólitíska ábyrgð og sé það almennur vilji í byggðarlagi að framkvæma eitthvað sérstakt, koma upp íþróttahúsi, sundlaug eða slíku sem allir vilja að verði unnið, tel ég að það sé vel skoðandi að sveitarstjórnin hafi heimild til þess, sé aukinn meiri hluti fyrir hendi í sveitarstjórn, að leggja á sérstakan skatt er lúti að þessu sérstaka verkefni. Svo er líka spurning um hvort ekki er rétt að taka upp almennar atkvæðagreiðslur í þeim tilvikum þegar menn vilja koma einhverjum sérstökum málum fram, fjárhagsmálum eða öðru því er lýtur að sveitarstjórnarmálum - almennar atkvæðagreiðslur sem ekki eru bundnar við sveitarstjórnarkosningar. Ég veit að þetta er gert í Bandaríkjunum og mér finnst ástæða til þess að skoða þá hluti hér sem mér virðist ekki hafa komið fram í þessu frv.

Það hefur mikið verið rætt um það hér að frv. sé allt hreint klúður og hvað eina. Ég tek ekki slíka hluti upp í mig - ekki að svo komnu máli. Það má vera að ástæða verði til þess síðar. En ég legg áherslu á að félmn. fái góðan tíma til að kynna sér þessi mál og yfirfara þau með það vissulega í huga að afgreiða þetta frv. á þessu þingi. Það er ekki til neins að draga þetta frekar en annað.