31.10.1985
Sameinað þing: 10. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í B-deild Alþingistíðinda. (281)

10. mál, nefnd til að kanna rekstur Innkaupastofnunar ríkisins

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Eins og fram kom í máli hv. flm. er annað aðaltilefni þessarar till. það misferli sem upp komst varðandi Innkaupastofnun ríkisins og greint hefur verið frá. Vegna þess vil ég taka fram að það er rétt eins og fram hefur komið að á tímabilinu frá því í janúar og til ágústmánaðar á þessu ári voru gefnar út ávísanir, sem Innkaupastofnun ríkisins gaf út vegna greiðslu til verktakafyrirtækis, samtals að fjárhæð 2 millj. 65 þús. kr. Þessum ávísunum var breytt til að svíkja út hærri upphæðir en efni stóðu til. Heildarfjárhæð, sem svikin var með því að breyta upphaflegri fjárhæð á ávísununum, nam 8 millj. kr. Auðvitað er eðlilegt, eins og fram kom í máli flm., að svara sé leitað við því hvernig slíkt getur átt sér stað.

Í fyrsta lagi vil ég taka fram að eðlilegt hefði verið að sú bankastofnun, sem innleysti viðkomandi ávísun, hefði tekið eftir því að um falsaða ávísun var að ræða. Sá banki ber áhættuna af þessu misferli og það er ljóst að Innkaupastofnun ríkisins verður ekki fyrir fjárhagslegum skaða vegna þessa máls. Þann skaða ber viðkomandi banki.

En í öðru lagi er rétt að það á að vera fyrir hendi innra eftirlit hjá Innkaupastofnun ríkisins sem leitt hefði þennan mismun á fjárhæðum í ljós fyrr en raun varð á. Komið hefur í ljós að þetta innra eftirlit var ekki fyrir hendi hjá innkaupastofnun ríkisins þannig að þessi mismunur kæmi í ljós á réttum tíma. Núna er verið að vinna að heildarafstemmningu á bankareikningum hjá Innkaupastofnun ríkisins í samráði við ríkisendurskoðun. Stofnuninni hafa verið settar ákveðnar reglur sem eiga að tryggja eðlilegt eftirlit sem hægt er að koma við í þessu sambandi.

Kjarni málsins er sem sagt þessi að það er unnið að því að ljúka heildarafstemmningu á bankareikningum í samráði við ríkisendurskoðun og ákveðnar reglur hafa þegar verið settar sem eiga að tryggja eðlilegt eftirlit.

Í þessu sambandi er einnig rétt að taka fram, vegna þess sem fram kemur í grg. með till. hv. flm., að BJ lagði fram till. á síðasta þingi þess efnis að leggja framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins niður, sem er, að því er mér skilst af grg., annar tilgangurinn með flutningi þessarar till. hér á Alþingi nú. Þá hefur starfað nefnd sem fyrrv. fjmrh. skipaði og hefur fjallað um starfsemi Innkaupastofnunar ríkisins og framkvæmdadeildar Innkaupastofnunar. Þessi nefnd hefur skilað áliti sínu. Hún skilaði áliti varðandi Innkaupastofnunina í febrúarmánuði á þessu ári en í júlímánuði að því er varðar þann þátt er lýtur að opinberum framkvæmdum. Þessi skýrsla er nú til athugunar í fjmrn. og þær tillögur sem fram koma í nefndinni um breytingar á verkefnum og hlutverki stofnunarinnar. Og á næstunni verða teknar ákvarðanir um áframhald þess máls og viðhorf til þeirra brtt. sem nefndin leggur til. Ég vænti þess að niðurstöður þessara athugana af hálfu ráðuneytisins og ákvarðanir liggi fyrir innan ekki langs tíma.