19.03.1986
Neðri deild: 65. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3214 í B-deild Alþingistíðinda. (2810)

343. mál, skógrækt

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir hans svör við mínum fsp. Ég vil ítreka það við hæstv. ráðh. að inn í þingið berist þau drög að landnýtingaráætlun, sem hann segir að muni liggja fyrir á næstu dögum, þannig að við eigum aðgang að þeim hið fyrsta vegna þess að þessi mál tengjast mörgum brýnum verkefnum og úrlausnarefnum sem eðlilegt er að þingið fjalli um - og er að fjalla um raunar.

Ég vil aðeins skýra ögn nánar sjónarmið mitt varðandi það hvar koma eigi skógverndarmálunum fyrir í stjórnsýslunni. Ég er ekki sama sinnis og hæstv. landbrh. um að þessi mál eigi í heild sinni að falla undir landbrn. Ég tel hins vegar að ef menn ætla að taka stórt á í sambandi við skógrækt, þ.e. ræktun nytjaskóga hér í framtíðinni, þá komi vissulega til greina að sá þáttur falli undir málefni landbúnaðar. En skógverndarþátturinn er allt annars eðlis. Hann tengist náið almennri gróðurverndarstefnu, þ.e. hvernig við förum með gróðurlendi landsins. Ef það verður að ráði, sem ég hef lagt til og rætt ítrekað, og margir fleiri hér í þinginu, að helstu þættir umhverfismála verði settir undir eitt ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands, þá á auðvitað gróðurverndarþátturinn skilyrðislaust þar heima. Og viðleitni til þess að bæta þar úr og bæta fyrir það sem tapast hefur að einhverju leyti, t.d. með störfum Landgræðslu ríkisins á að mínu mati heima undir ráðuneyti umhverfismála. Ég held að það væri mjög farsælt fyrir skógræktina að það verði greint með skilmerkilegri hætti þarna á milli, annars vegar hinnar almennu gróðurverndar og hins vegar skógræktar í efnahagslegum tilgangi, ræktunar nytjaskóga í landinu. Að því leyti er hér um ákveðið grundvallaratriði að ræða varðandi þetta frv. sem ber heitið „Frumvarp til laga um skógvernd og skógrækt“. Ég hefði talið eðlilegt að löggjafinn greindi þarna skilmerkilega á milli og einnig í sambandi við ýmsa starfrækslu sem fallið hefur undir Skógrækt ríkisins og þau tengsl líka við áhugamannafélögin sem ég gat hér um áðan.

Og aðeins að lokum, herra forseti, varðandi þá nefnd sem ríkisstj. ákvað að skipa í minningu 40 ára afmælis lýðveldis á Íslandi, þá er þar ekki um að ræða neitt sem tengist með beinum hætti þeim efnum sem hér eru til umræðu en með óbeinum hætti vissulega. Fjármagn fylgdi ekkert með þessari nefndarskipan, þannig að segja má að ekki hafi mikill hugur verið að baki. En þessi nefnd hefur verið afvelta nánast frá því að hún var skipuð. Hún hefur aðeins verið kvödd saman og hist eitthvað tvisvar, þrisvar en árangur enginn af hennar störfum. Ég hlýt að endurskoða afstöðu mína varðandi setu í nefnd sem rekin er með þessum hætti af hæstv. forsrn. Það er sannarlega ekki hægt að sitj a undir því að vera settur til verka í nefnd, sem er ætlað að tengjast minningu lýðveldisins og ákveðnu afmæli, sem ekki er staðið betur að en ég gat um áðan.