19.03.1986
Neðri deild: 65. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3219 í B-deild Alþingistíðinda. (2815)

285. mál, lögverndun á starfsheiti kennara og skólastjóra

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Samtök kennara hafa um nokkurra ára bil haft það að einu meginmarkmiði sínu að lögverndað verði starfsheiti kennara. Er það mikilvægur liður í réttinda- og kjarabaráttu kennarastéttarinnar. Það vinnuálag og sú ábyrgð sem lögð er á kennara í starfi þeirra hafa engan veginn verið viðurkennd í því starfsmati sem gilt hefur um kennarastarfið. Þetta vanmat á störfum kennara hefur skilað sér í lágum launum, svo lágum að raunin er orðin sú að mikill og vaxandi flótti hefur verið úr kennarastétt. Það hefur svo leitt til þess að mikill fjöldi réttindalausra manna hefur tekið að sér kennslustörf, oft til að bjarga heilum byggðarlögum út úr neyð. Er áberandi hve miklu algengara þetta ástand er úti á landsbyggðinni en það er hér í þéttbýlinu. Þessar upplýsingar komu m.a. fram í svörum hæstv. menntmrh. við fsp. minni og hv. 5. þm. Austurl. um þetta efni á þinginu í haust.

Á síðasta þingi og einnig á þessu þingi hef ég borið fram fsp. til hæstv. menntmrh. um hvað líði gerð frv. um lögverndun á starfsheiti kennara. Sömuleiðis var lagt fram frv. frá þm. stjórnarandstöðu um sama efni, eins og kom fram í máli hv. 5. þm. Austurl. Það er því löngu orðið tímabært að frv. um lögverndun á starfsheiti kennara komi fram á þingi og ber að fagna komu þess.

Í öllum meginatriðum get ég fallist á efni þessa frv., en hef þó ýmsar athugasemdir við nokkur atriði. Ég mun þó ekki við þessa 1. umr. fara út í efnislega umræðu um málið, en geyma mér það til næstu umræðu.

Kvennalistinn á ekki fulltrúa í hv. menntmn. Nd. og vil ég því fara fram á að fá að sitja fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi meðan hún fjallar um þetta mál. Og ég legg áherslu á að þetta frv. nái fram að ganga fyrir þinglok og mun sannarlega gera það sem í mínu valdi stendur til að vinna því brautargengi.