20.03.1986
Sameinað þing: 63. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3226 í B-deild Alþingistíðinda. (2823)

11. mál, mat heimilisstarfa til starfsreynslu

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Vegna þess að inn í þessar umræður hér á dögunum var mikið blandað kjarasamningunum kemst ég ekki hjá því að minnast á þá af því tilefni. Umræðan um kjarasamningana hefur farið fram með undarlegum hætti og þó ekki síst af sumum hv. alþm. Það er engu líkara en sumir hv. þm. hafi jafnvel fróun af því að niðurlægja löggjafarsamkomu þjóðarinnar eftir öllum mögulegum leiðum. Og jafnvel að manni finnist stundum að langt sé seilst til að ná því marki. Því er t.d. haldið fram að þjóðþingið sé valdalaus stofnun, nánast afgreiðslustofnun fyrir hagsmunahópa úti í bæ. Að stefnan í efnahags- og kjaramálum hafi nú verið tekin uppi í Garðastræti. Á þau mál hafi ráðherrar og þm. engin áhrif haft. Aðeins hafi Alþingi samþykkt það sem þeir í Garðastrætinu hafi komið sér saman um og rétt síðan hæstv. ríkisstj. og sagt henni að þetta yrði hún að sjá um að þingið samþykkti. Í þessa veru eru umræðurnar, hér og í fjölmiðlum.

Þrátt fyrir þessa barnalegu umræðu hvarflar það ekki að mér að hv. alþm., a.m.k. flestir þeirra, gangi hér um sali dofnir og svefndrukknir og viti ekki hvað fram fer í hv. Alþingi. Ég stend í þeirri trú að öll þjóðin, a.m.k. þeir sem komnir eru yfir fermingaraldur, viti hvaða mál það voru sem hæstv. ríkisstj. kom sér saman um að leysa og var hornsteinninn að því að hún var mynduð. Hver er það hér í hv. Alþingi sem ekki veit það að sú ríkisstjórn sem nú situr var fyrst og fremst mynduð til að takast á við verðbólguna og meira að segja að nota til þess öll tiltæk ráð að ná henni niður í svipað stig og verðbólguhraðinn er í viðskiptalöndum okkar?

Þó var einn fyrirvari gerður sem var markmið númer eitt, þ.e. forgangsverkefni, og það var að halda uppi fullri atvinnu - að lengra í glímunni við verðbólguna yrði ekki gengið en það að atvinnustigið átti að sitja fyrir - og ná verðbólgunni niður í eins stafs tölu á kjörtímabilinu. En hún var í þriggja stafa tölu er ríkisstj. var mynduð eins og hv. þm. hljóta að muna eftir. Ef það næst fram sem samningarnir gera ráð fyrir verður verðbólgan 7-8% í árslok.

Hitt er svo annað mál að ýmsir hv. þm. stjórnarliðsins og auðvitað fleiri þm. hefðu viljað ná einnig árangri í því að jafna aðstöðu- og tekjumuninn í þjóðfélaginu og hafa lagt fram kröfu um það. En því miður reyndist þar við ramman reip að draga. En við svo búið má ekki standa. Tekjumunurinn verður að minnka en ekki vaxa eins og hefur verið síðustu árin. Annað er ekki sæmandi.

Í fyrstu glímunni við verðbólguna af hendi þessarar ríkisstj. náðist sá árangur sem að var stefnt. Verðbólguhraðinn minnkaði verulega, eða úr um 130% í um 25% en um seinni töluna hefur verið nokkuð deilt.

Síðan þessi árangur náðist hefur lítið jákvætt gerst í þessu efni fyrr en nú. Verðbólgan fór á fullt skrið á ný. Í kjarasamningunum 1985 náðust ekki fram nauðsynlegar aðgerðir til þess að ná tökum á verðbólgunni. Fyrst og fremst vegna þess að ekki náðist fram að láta vextina lækka eins og nú er gert. Ég og ýmsir aðrir hv. þm. lögðum þunga áherslu á það að vextirnir yrðu látnir lækka þá strax er búið var að undirskrifa samninga því það mundi sýna sig að það eitt mundi hafa mikil áhrif, margfeldisáhrif til lækkunar og slaka á kröfunni um hækkanir á öllum mögulegum sviðum eins og hefur verið raunar á öllu þessu verðbólgutímabili.

Í umfjöllun um kjarasamninga nú er það sagt beint og óbeint að allt frumkvæði að því að gera kjarasamningana í því formi að verðbólguhraðinn næðist í það mark sem hæstv. ríkisstj. setti sér í upphafi síns stjórnarferils hafi komið frá aðilum vinnumarkaðarins, m.ö.o. úr Garðastrætinu. Það er engu líkara en að bréf hæstv. forsrh., sem hann skrifaði vinnumarkaðinum 11. febrúar s.l., hafi farið fram hjá mönnum, þó ótal sinnum hafi verið frá því sagt og á það minnst síðan. Og það lítur helst út fyrir að fram hjá hv. þm. hafi farið margendurteknar yfirlýsingar hæstv. forsrh. og fleiri hæstv. ráðh. þess efnis að ríkisstj. væri reiðubúin til þess að gera sitt til þess að samningar næðust í höfuðdráttum eins og niðurstaðan varð, þ.e. að ná verðbólguhraðanum niður í eins stafs tölu og að vextir væru lækkaðir strax og undirskrift samninganna væri lokið og niðurtalning yrði reynd og gerð eftir því sem fært þætti.

Og árangurinn hefur komið í ljós. Það fer því ekki á milli mála að grunnurinn undir þessa kjarasamninga var lagður af ríkisstj. og þeim flokkum sem styðja hana.

Hver eða hverjir hafa svo haft mest áhrif á ýmsa útfærslu þessara samninga að öðru leyti er ekki jafnljóst, t.d. á þá miklu lækkun á bifreiðum sem mun ekki reynast til hagsbóta fyrir þá sem verst eru settir í þjóðfélaginu heldur jafnvel það gagnstæða. Fyrir þá hefði komið sér best að lækka með einhverjum hætti eða greiða niður brýnustu lífsnauðsynjar. Kjör þeirra eru nú, eins og stundum áður, fyrir neðan þau mörk sem þjóðinni eru í raun og veru samboðin.

Margt fleira væri hægt að segja um niðurstöður þessara samninga. Hitt er það að ef verðbólgudraugurinn verður í reynd kveðinn niður með þeim ráðstöfunum sem gerðar hafa verið er það mikið fengið að ekki er verjandi að sleppa slíku tækifæri þrátt fyrir þá annmarka á samningunum sem ég hef nefnt.

Hafi samningar einhvern tíma verið tímamótasamningar eru það þeir samningar sem ná slíkum árangri. Og auðvitað eru það hrein öfugmæli að halda því fram að það sé ekki fyrst og fremst verk hæstv. ríkisstj. og þeirra flokka sem hana styðja að þessir skynsemissamningar náðust þó auðvitað hafi aðilar vinnumarkaðarins fyllt inn í þann ramma. Þeim hefði ekki verið hægt að ná ef þar hefði ekki verið skilningur.

Ég hef sjaldan orðið eins undrandi og þegar ég heyrði og sá rökstuðninginn fyrir dagskrártillögunni sem er til umræðu og er á þskj. 507 og þó ekki síður á tillögunni sjálfri. Ef ég hefði verið í þeirri nefnd sem fékk þessa tillögu til umfjöllunar hefði ég einmitt notað þau rök sem meiri hl. hv. allshn. notaði til frávísunar en fyrir því að vilja samþykkja tillöguna. Þó hefði ég lagt til að henni yrði nokkuð mikið breytt, eins og ég og nokkrir hv. þm. hafa hér lagt fram, og kem að því síðar.

Tillagan frá meiri hl. hv. allshn. er þannig, með leyfi forseta: „Nefndin hefur fjallað um tillöguna og athugað þær umsagnir sem henni bárust. Fram hefur komið í umsögnum að víða eru heimilisstörf metin til starfsreynslu í kjarasamningum.“

Einmitt sú staðreynd að sumir hafa fengið þetta metið sem starfsreynslu en aðrir ekki gefur ástæðu til þess að Alþingi samþykki yfirlýsingu um það að það telji rétt að uppeldis- og umönnunarstörf á heimilum séu metin til starfsreynslu á svipaðan hátt og starfsreynsla hjá opinberum aðilum. Það er full ástæða til þess að þingið lýsi því yfir að það vilji ekki að þarna sé gerður greinarmunur á einstaklingum eða starfshópum. Hvers vegna á einn starfshópur að fá heimilisstörf metin og fá laun greidd skv. því en aðrir ekki?

Síðan segir í hinni rökstuddu dagskrá, með leyfi hæstv. forseta: „Þar sem tillaga þessi fjallar um efni sem ber að semja um í kjarasamningum en ekki ákveða með fyrirmælum frá Alþingi telur Sþ. ekki ástæðu til ályktunar í þessu máli og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Mín skoðun er sú að alls staðar þar sem er að finna mismunun í þjóðfélaginu sé það í eðli sínu mál sem Alþingi á að fjalla um og taka afstöðu til. Ég veit ekki hvað Alþingi ætti að fjalla um ef það ætti ekki að fjalla um slík mál. Og ég verð að segja það að ég tel uppeldisstarfið það mikilvægt að það nái raunar ekki neinni átt að störf kvenna, sem eru að ala upp nýja þjóðfélagsþegna, séu svo vanmetin að hv. Alþingi vísi tillögu um að rétta þeirra mál frá með rökstuddri dagskrá, mál þeirra sem ættu að fá viðurkenningu einmitt fyrir að vinna slík störf. Það er upplýst að sum fyrirtæki meta heimilisstörf til starfsreynslu en önnur ekki. Líta hv. alþm. virkilega svo á að það sé Alþingi óviðkomandi hvernig með slíkt sé farið?

Ég er gamall verkstjóri og hef reynslu af því að ekki fara alltaf saman starfsaldur og verkkunnátta og því síður afköst. Segjum að tvær konur hefji störf samtímis í sama fyrirtæki. Eftir nokkur ár hafi önnur þeirra farið til þess að eiga börn og sinna þeim í einhvern árafjölda en hin starfað áfram í fyrirtækinu. Þá er það síður en svo gefið að sú sem kyrr var standi sig betur í starfi en hin þegar hún kemur til baka að uppeldisstarfinu loknu. Er þá eitthvert réttlæti í því að hún fái minni laun fyrir það eitt að hún fór um tíma til að sinna þessu mikilvæga starfi - ég vil segja einu mikilvægasta starfi þjóðfélagsins? Og þó að kona hafi ekkert unnið utan heimilis, hafi ekki unnið það sem kallað er launað starf en séð um uppeldi barna eða unnið ólaunuð umönnunarstörf, á hún ekki að gjalda þess í launum ef hún fer út á vinnumarkaðinn heldur ætti hún frekar að njóta þess því svo eru þessi störf mikilvæg fyrir þjóðfélagið. Enda gæti slík kona haft eins mikla starfsreynslu og starfskunnáttu til að vinna ýmis störf og jafngömul kona sem hefur alltaf unnið úti á vinnumarkaðinum. Slík dæmi sjáum við fyrir okkur hvar sem er í þjóðfélaginu.

Uppeldis- og umönnunarstörf á að meta og verður að meta að verðleikum. Einnig þarf að tryggja þeim konum sem vinna á heimilum lífeyri þegar aldur færist yfir þær ekkert síður en þeim konum sem vinna úti á vinnumarkaðnum. Mér finnst að það sé skylda Alþingis að fjalla um þau mál og sýna í verki að það meti að verðleikum slík störf. Hitt er annað mál að ég hef borið fram brtt. við þessa tillögu þeirra hv. Kvennalistakvenna. Í fyrsta lagi segir í till. þeirra að fela eigi fjmrh. að gera þessa könnun. Þessi mál heyra undir fleiri ráðherra og í eðli sínu er sjálfsagt að það sé ríkisstjórnin sem annist hana. Það segir líka í þessari till. að hafi heimilisstörfin verið aðalstörf - en reynslan er sú að það eru talin aðalstörf þó að kona vinni ekki úti nema hálfan dag, þó að hún vinni hinn tímann og um helgar heima, þá er það ekki aðalstarf - sem sagt að sú kona sem færi út á vinnumarkaðinn, jafnvel keypti sér vinnu, þá væru heimilisstörfin ekki aðalstarf eins og þetta er metið. Það finnst mér fráleitt.

Fleira mætti segja um þessa till. Og af því að hv. allshn. afgreiddi það mál eins og hún gerði - ég ætla ekki að ræða þessa till., það verður sjálfsagt gert hér af öðrum síðar - þá fannst mér ekki annar kostur heldur en leggja fram hér till. sem ég taldi og tel að nái því sem ég vil ná út úr slíku. Að vísu hefði kannske mátt kveða ákveðnar að orði. En ég ætla að segja aðeins örfá orð um þessa till. Hún er flutt ásamt mér af hv. þm. Þórarni Sigurjónssyni, Haraldi Ólafssyni og Guðmundi Bjarnasyni. Till. orðast svo:

Tillgr. orðist svo:

„Alþingi ályktar að meta skuli til starfsreynslu heimilis- og umönnunarstörf sem unnin eru launalaust á heimilum landsins. Því felur Alþingi ríkisstjórn að láta athuga með hvaða hætti megi meta starfsreynslu við ólaunuð heimilisstörf vegna barnauppeldis eða umönnunar á hliðstæðan hátt og starfsreynslu hjá opinberum aðilum við ákvörðun starfsaldurshækkana starfsmanna.

Jafnframt verði tryggt að þeir starfsmenn, sem vinna hjá hinu opinbera, njóti þessa réttar sé hann þeim ekki þegar tryggður.“

Það sem ég hef heyrt agnúast út í þessa till. fyrir er að ekki sé fleira talið upp. En hvað fylgir heimilisstörfum? Hvað fylgir heimilisstörfum fyrir konu sem annast barnauppeldi eða umönnun annaðhvort gamalmenna eða sjúklinga? Eru það ekki öll heimilisstörf? Felst það ekki í tillögunni? Eða halda menn að eitthvað af þeim störfum verði ekki unnið af slíkum konum? Ég vil halda því fram að þessi till. okkar fjórmenninga nái yfir það sem við viljum a.m.k. stefna að. Svo er það undir hv. þm. komið hvort hún nær náð fyrir þeirra augum og læt ég þar með máli mínu lokið.