20.03.1986
Sameinað þing: 63. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3230 í B-deild Alþingistíðinda. (2824)

11. mál, mat heimilisstarfa til starfsreynslu

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Eftir að ég ræddi þetta mál fyrr við umræðuna talaði hér frsm. fyrir till. allshn. um rökstudda dagskrá. Það eru nokkur atriði sem hann vék að sem voru tilefni þess að ég kvaddi mér hljóðs á fyrri fundi aftur um þetta mál. Síðan hafa komið brtt. við upphaflega till. og ég mun ræða þær aðeins jafnframt því sem ég ætla að leyfa mér að gera nokkrar athugasemdir við málflutning hv. 5. þm. Vestf.

Hann hafði upphaflega látið í það skína að í umsögnum um þessa till. hefði komið fram almenn andstaða þeirra sem umsögn veittu, aðila vinnumarkaðarins, sem hefðu lagst gegn því að upp yrði tekinn sá háttur, sem lagt var til í till., að Alþingi álykti um málið, og teldu að þetta væri verkefni aðila vinnumarkaðarins að leysa í viðræðum sín á milli. Þegar hv. þm. síðan fór að vitna til umsagnanna að gefnu tilefni kom í ljós allt annað en hann hafði haldið fram í sinni fyrstu ræðu þegar hann mælti fyrir till. allshn. Það var aðeins einn aðili sem talaði fyrir vinnumarkaðinn í umsögn til allshn. sem lagðist eindregið gegn málinu, það var alveg ljóst, Vinnuveitendasamband Íslands. Vinnuveitendasamband Íslands mælti gegn samþykkt þessarar till. og lagðist mjög eindregið gegn málinu.

Alþýðusamband Íslands veitti umsögn. Það taldi ekki ástæðu fyrir sig að fjalla um málið vegna þess að till. tæki fyrst og fremst til opinberra starfsmanna - að fela fjmrh. að sjá til þess að í kjarasamningum ríkisins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja verði starfsreynsla við ólaunuð heimilisstörf framvegis metin á sama hátt og starfsreynsla hjá opinberum aðilum við ákvörðun um aldurshækkanir starfsmanna, eins og þetta er orðað í till. - Og Alþýðusambandið taldi að það væri ekki eðlilegt að þeir færu að hafa afskipti af samningamáli sem þessu, sem snerti þarna annan aðila, og tóku ekki aðra afstöðu.

Í umsögn Verkamannasambands Íslands, sem vitnað var til af frsm. í annarri ræðu hans hér við umræðuna, kom hins vegar fram stuðningur við meginefni till., og tekið fram að hér væri á ferðinni sanngirnis- og réttlætismál, en það fundið að að till. væri ekki nógu almenn þar sem hún væri takmörkuð við opinbera starfsmenn og hvatt til þess að henni yrði breytt í þá átt að hún varðaði almenn réttindi heimavinnandi fólks.

Það er sannarlega langt gengið þegar talsmaður nefndarinnar í framsögu sinni túlkar þessi viðhorf Alþýðusambands Íslands og Verkamannasambands Íslands sem andstöðu við þetta mál, þegar andstaðan kemur aðeins frá einum aðila eins og ég hef hér rakið og hv. þm. greindi frá þegar hann vitnaði til umsagna. (ÓÞÞ: Þú ferð rangt með, Hjörleifur, og þú veist það, þetta eru hreinar lygar.) Hv. þm. ætti að koma hér og standa fyrir máli sínu og viðhafa þau ummæli um hreinar lygar hér úr ræðustól. (ÓÞÞ: Já, það skal gert.) Það er alveg velkomið. Ég hlustaði á hv. þm., það sem hann las hér upp og hvernig hann túlkaði sitt mál. En það er ósköp eðlilegt að hv. 5. þm. Vestt. sé farinn að ókyrrast í sambandi við þetta mál eftir þá tillögugerð sem hann hefur beitt sér fyrir í allshn. um afgreiðslu málsins. Hann er að verða nokkuð frægur að endemum vegna þess tillöguflutnings. Og það eru fleiri en stjórnarandstaðan sem finna að því. Það eru fleiri sem finna til vegna frammistöðu hv. þm. í þessu máli eins og hefur mátt marka af máli samþingsmanna hans, samflokksmanna hans hér í ræðustól, þar á meðal hv. 9. þm. Reykv. Og við máttum heyra það að eitthvað hafði verið hróflað við samviskunni hjá hv. 3. þm. Norðurl. e. sem talaði hér á undan mér við umræðuna. Nei, þetta er afar sérkennilegur málflutningur, eins og hér hefur verið bent á af mörgum ræðumönnum í þessari umræðu, þessi tillaga um rökstudda dagskrá, enda á ég bágt með að ímynda mér að hún eigi meirihlutafylgi í sameinuðu þingi.

Hér liggja fyrir brtt. sem hafa komið ein af annarri. Ég vil vona það að hugurinn að baki þeim sé ekki sá, sem mátti kannske skilja á hv. 3. landsk. þm., að þær væru fluttar til þess að vega hver gegn annarri. Ég vænti þess a.m.k. að hv. þingdeild beri gæfu til þess að ná efnislegri niðurstöðu í þessu máli og taka á því þannig að við megi una, taka á því þannig að sá hugur, sem ég vænti að sé hjá þeim mönnum sem hafa talað hér og flutt tillögur um þetta mál, komi fram.

Ég taldi þá till., sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson og Jóhanna Sigurðardóttir hv. þm. stóðu að og kom fyrst þessara brtt., vera út af fyrir sig alveg frambærilega till. þó að ég hefði orðað hana öðruvísi. Ég hef þegar lýst því yfir að ég hefði getað stutt upphaflega till. eins og hún lá hér fyrir. En hitt er jafnljóst að hún var ekki jafnalmenn og æskilegt væri varðandi þetta mál. Till. á þskj. 609 er víðtækari að því leyti að í upphafi hennar er gert ráð fyrir að Alþingi álykti að meta skuli til starfsreynslu heimilis- og umönnunarstörf sem unnin eru launalaust sem aðalstarf á heimilum landsins-sem sagt almennt.

Síðan hefur hv. þm. Stefán Valgeirsson beitt sér hér fyrir tillöguflutningi af sinni hálfu og nokkurra samflokksmanna. Það er till. sem á margan hátt svipar til till. á þskj. 609. Og síðan er komin brtt. við þessa till. sem útvíkkar hana og gerir hana ótvíræðari, hvað við er átt. Mér finnst það vera þráhyggja ef hv. flm. till. á þskj. 643 eru ekki reiðubúnir til að taka inn þau atriði sem í þessari brtt. felast og hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir er 1. flm. að en meðflm. hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og Helgi Seljan. En þar er gert ráð fyrir að auk þess að vísa til ólaunaðra heimilisstarfa vegna barnauppeldis og umönnunar komi inn viðbótin: matargerðar, þvotta, ræstinga o.þ.h. Það tekur auðvitað af tvímæli að bæta við því sem hér er gert ráð fyrir með þessari brtt. og ég styð hana eindregið og tel að hún sé til bóta og skýri enn frekar það sem fram kemur á þskj. 643.

Eðlilegast hefði auðvitað verið að þessi mál hefðu fengið allt aðra meðferð í þingnefnd. Þar hefðu fulltrúar flokkanna og áheyrnarfulltrúar, sem eiga kost á að koma inn á nefndarfundi, getað samræmt sjónarmið sín og borið fram efnislegar till. um málið, en því miður hefur það ekki orðið. En enn gefst kostur á því að samræma þennan tillöguflutning, sem hér liggur fyrir á þremur þskj., og ég vil hvetja til þess að það verði reynt þannig að menn nái hér skynsamlegu landi, þeir sem tala jákvætt í þessu máli og á öðrum nótum en fram kom í brtt. frá Guðmundi H. Garðarssyni. Þó ekki væri þar um andstöðu að ræða við málið þá gekk sú brtt. allt of skammt og hefur nú verið dregin til baka og flutt sem sérstök þáltill.

Ég ætla ekki, þó tilefni væri til, að fara út í almenna umræðu um kjarasamninga og slík efni eins og hv. 3. þm. Norðurl. e. gerði. Það er honum að sjálfsögðu frjálst og full ástæða til að ræða þau efni. Ég gæti gert margar athugasemdir við þau faðernismál á króganum sem var til umræðu í Nd. í gær og hv. þm. Bjarni Guðnason vék að. Kannske verða einhverjir til að gera athugasemdir við málflutning þm. um þessi efni. Ég þykist vita að samviskan sé ekkert allt of góð hjá hv. 3. þm. Norðurl. e. þegar hann lítur yfir farinn veg í þessu stjórnarsamstarfi, til aðgerða ríkisstj. og þeirrar gífurlegu mismununar í samfélaginu sem hún hefur stuðlað að með aðgerðum sínum og ákvörðunum. Það gefst væntanlega tilefni til að ræða það betur. Eitthvað ræddi þm. um dofna menn og svefndrukkna þm. ef ég hef heyrt orð hans rétt. Ég veit nú ekki hverjum sú sneiðin var ætluð, hvort það eru stjórnarliðar sem eru svo illna haldnir að þeir reiki hér dofnir og svefndrukknir um sali. Oft mætti ætla það miðað við þær tillögugerðir og ákvarðanir, sem teknar hafa verið af þeirra hálfu, að slíkt væri ástand þeirra. Og þarf vafalaust sitthvað til að deyfa samviskuna hjá sumum sem staðið hafa að þeim aðgerðum og ákvörðunum af hálfu stjórnarmeirihlutans hér á þingi.

Vissulega er um stórt réttlætismál að ræða sem hér er til umræðu og það varðar miklu að þingið álykti um þetta efni til þess að tryggja að þeir sem vinna ein þýðingarmestu störf í landinu, inni á heimilum landsins, fái sitt starf metið til starfsreynslu. Það er mál sem varðar ekki aðeins konur í landinu, það er mál sem varðar samfélagið allt. Ég kann ekki við það þegar rætt er um það sem einhverjar tvær andstæðar fylkingar sem vegist á í sambandi við jafnréttis- og réttlætismál í landinu. Einhverjar tvær sundurgreindar fylkingar eftir kynjum eingöngu. Auðvitað er það svo að skyldan hlýtur að bjóða konum að berjast fyrir því misrétti öðrum fremur sem á þeim brennur. Það varðar hvern og einn hóp sem fyrir óréttlæti verður og því er það fagnaðarefni þegar konur landsins fylkja til sóknar fyrir réttindum sínum, á hvaða vettvangi sem er. En það þarf að gæta þess að sundra ekki fylkingunum að ástæðulausu. Menn eiga að meta mál eftir efni og fylgi og afstöðu manna til þeirra, án kyngreiningar. (GHelg: Hvað heldur þm. að það hafi verið margir heimavinnandi karlmenn í landinu sem nytu þessara réttinda?) Og veitir ekkert af að fá stuðning. Hv. 10. þm. Reykv. ætlar þó ekki að ganga úr þingsal eftir að hafa gripið hér fram í? (GHelg: Nei.) Ég vænti þess að þm. hlýði hér á mál mitt fyrst hann sá ástæðu til þess að senda mér orð hér upp í ræðustólinn.

Ég er eindregið stuðningsmaður þessa máls sem hér er til umræðu og margra fleiri brýnna réttindamála sem varða samfélagið í heild. Við ræddum í gær og höfum oft rætt áður um einstök réttindamál t.d. kennarastéttarinnar sem var til umræðu í gær. Þar kom fram í máli manna, fleiri en eins, að réttindi, virðing og aðstaða kennarastéttarinnar væri ekki mál hennar einnar heldur varðaði samfélagið í heild, velferð þess og árangur. Alveg það sama gildir um réttindi konum til handa sem eins stórs hóps í samfélaginu. Réttindamál þeirra og það að þeim miði fram skiptir samfélagið allt miklu máli ef menn eru í raun stuðningsmenn þess, stuðningsmenn jafnréttissjónarmiða án tillits til kyngreiningar, en líka með fulla sýn til hins kynbundna misréttis.

Inni á heimilum landsins eru það konur fyrst og fremst sem leggja hönd að verki. Ég hygg hins vegar að verkaskiptingin hafi raskast, hún hefur færst svolítið í áttina - þó í litlu sé. Ég ætla ekkert að fara að metast við hv. 10. landsk. þm. um ræstistörf eða eldamennsku. Ég hef ekkert farið í keppni við hana að því leyti. En ég er alveg reiðubúinn til að þreyta kapp við hana um þau efni, upp og niður stigann ef um það væri að ræða. Sem betur fer miðar ögn í þessum málum að störfin séu ekki eingöngu kvenna inni á heimilum landsins, en allt of, allt of hægt og þær tölur og upplýsingar, sem við höfum um þau efni, kannanir, sýna okkur að þar er þróuninni tiltölulega skammt á veg komið. Það er svo út af fyrir sig ekkert óeðlilegt við það að konur kjósi sér þessi verkefni og sinni þessum verkefnum samhliða móðurhlutverkinu. Það er ekkert óeðlilegt. Verkaskipting er ekkert óeðlileg. En þá þarf líka að tryggja það að hún sé metin að verðleikum. Um það erum við að ræða.

Við skulum vona að niðurstaðan að lokinni þessari umræðu verði til þess að þoka því máli fram hér með ályktun af þingsins hálfu um leið og við fellum þá fráleitu tillögu um rökstudda dagskrá sem hér liggur fyrir.