20.03.1986
Sameinað þing: 63. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3235 í B-deild Alþingistíðinda. (2826)

11. mál, mat heimilisstarfa til starfsreynslu

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Þar sem ég hef tekið áður til máls í þessari umræðu mun ég ekki geta gert það aftur, en ég vil í örfáum orðum fara yfir það sem mér finnst skipta máli í þessari umræðu.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagði áðan að sú till. sem ég ásamt hv. þm. Salome Þorkelsdóttur hefði flutt sem brtt. gengi of skammt í þessu máli. Ég vil leyfa mér að segja við hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að ég held að hv. alþm. eigi ekki að temja sér að vera billegir. Ég á ekki við hana heldur alþm. almennt. Það mál sem hér er verið að fjalla um er nefnilega efnislega stórmál. Það er ekki mál sem hægt er að afgreiða með ræðum og fullyrðingum á hv. Alþingi.

Mér virðist, miðað við þær umræður sem hér hafa farið fram og einnig ef maður lítur á þær tillögur sem hér liggja fyrir, að hv. þm. hafi ekki gert sér fullkomlega grein fyrir hversu flókið málið er og yfirgripsmikið. Ég vona að ég móðgi engan hv. þm. þó að ég segi það, en mér finnst vanta ákveðna grundvallarþekkingu í umfjöllun þessa máls hjá þeim sem hafa talað og einnig finnst mér vanta mjög upplýsingar um efnisatriði. Það vantar t.d. að menn geri sér grein fyrir því að það sem við erum að fjalla um á sér sögulegar ástæður. Hvernig þessi mál hafa þróast hérlendis sem annars staðar er þess eðlis að það er ekki hægt með einni þáltill. á hv. Alþingi að breyta því samhengi sem er búið að vera í samningum í áratugi á Íslandi. Þeir samningar eru ekki endilega háðir því hvaða afstöðu menn hafa til karla eða kvenna. Ég vil taka það strax fram að málefnið, eins og það birtist í þáltill. flm., hv. þm. Sigríðar Dúnu Kristmundsdóttur, Guðrúnar Agnarsdóttur og Kristínar Halldórsdóttur, er gott, en það vantar alla forvinnu og góð forvinna eða vönduð vinnubrögð eru grundvallaratriði í máli sem þessu.

Hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir sagði áðan m.a. að konur væru huldufólk sem illa hafi verið farið með í íslensku þjóðfélagi og einnig fór hún mjög hörðum orðum, vil ég segja, um ímyndaða afstöðu karla til kvenna. Ég segi fyrir mitt leyti að ég þekki ekki þann heim sem hún var að lýsa áðan í sambandi við afstöðu karla til kvenna, a.m.k. ekki í þeim takmarkaða hópi sem ég lifi og hrærist í, en ég tek undir það, sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði áðan, að þannig er hægt að tala um góð mál að maður skaði þau. Ég vil t.d. segja að það skaðar stöðu þess sem telur sig misrétti beittan ef gripið er til öfga og dregnar upp ýktar myndir af slæmri stöðu manna. Það fannst mér hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir gera áðan.

Till. þeirra þm. Sigríðar Dúnu Kristmundsdóttur, Guðrúnar Agnarsdóttur og Kristínar Halldórsdóttur gengur raunverulega allt of skammt. Hún nær til mjög takmarkaðs hóps og í till. felast fyrirmæli um að þessi takmarkaði hópur, sem starfar hjá ríki og bæ, skuli njóta ákveðinna kjara sem fólk úti á hinum almenna vinnumarkaði mun ekki njóta ef farið væri að þeim fyrirmælum sem þáltill. gerir ráð fyrir ef þing mundi samþykkja hana. Ég tel að með þessu séu hv. þm. að mismuna fólki eftir því hvort viðkomandi fer til starfa hjá hinu opinbera eða út á hinn almenna vinnumarkað.

Ég ætla ekki að ræða það sem hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir kom inn á þegar hún talaði um verri stöðu kvenna launalega séð og stöðulega séð úti í atvinnulífinu, en það vita allir hv. þm. og hún einnig að til þess liggja mjög margþættar ástæður að staða kvenna er ekki sem skyldi í dag. Þetta á sér sögulegar ástæður. T.d. mætti fjalla um það í löngu máli að í hinu flókna iðnþjóðfélagi og tækniþjóðfélagi kemur konan miklu síðar til skjalanna sem virkur þátttakandi en karlar. Það þarf ekki að fjölyrða um það. Allir skilja það. Sem betur fer hefur þjóðfélagið þróast þannig að konur eiga nú auðveldara með að koma til starfa úti í þjóðlífinu. Sú breyting hefur raunverlega orðið með þeim hætti á síðustu tveimur áratugum að ef maður lítur til forsögunnar má segja að töluvert mikið hafi áunnist varðandi stöðu kvenna og það löngu áður en umræddar konur komu á Alþingi.

En eitt fannst mér slæmt í ræðu hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur. Hún leiðrétti það að vísu í sæti, en ég tel samt rétt, vegna þess að þetta er ritað niður, að gera það að umtalsefni. Hún sagði eitthvað á þá leið að hv. þm. ættu að skammast sín fyrir að vera að koma með brtt. sem gætu eyðilagt þetta ágæta mál. Hv. þm. sagðist hafa sagt að þm. ættu að skammast sín ef það ætti að nota þessar brtt. til að eyðileggja framgang þessa máls - eitthvað á þessa leið. Ég mótmæli þessu. Ég mótmæli því að þótt þm. komi með brtt. við góð mál sé endilega verið að stefna að því að eyðileggja þau.

Ég vil þess vegna leggja til að hv. þm. skoði betur þáltill. sem lögð var fram, þ.e. 11. mál. Þessi till. er þess eðlis að það er raunverulega ekki hægt að samþykkja hana þó ekki nema litið væri á þetta mál út frá því sjónarmiði að menn vilji ekki auka misréttið heldur eyða misrétti. Till. er auk þess þröng og ófullnægjandi eins og ég hef sagt fyrr í mínu máli.

Ég leyfi mér að spyrja: Hvers vegna skyldu hv. þm. ekki koma með brtt. eða nýja þáltill. um þær hugmyndir sem fram komu í upprunalegri till.? Ég leyfi mér þess vegna að varpa fram eftirfarandi spurningum:

1. Er ekki eðlilegra að hv. þm. viti til hvers þeir eru raunverulega að taka afstöðu? Í því felst ekki fjandsamleg afstaða til þess efnis sem hér um ræðir.

2. Hvers vegna má ekki vinna að framgangi þessa máls með þeim hætti að þetta nái til allra sem fara út á hinn almenna vinnumarkað en ekki aðeins til þeirra sem fara til starfa hjá hinu opinbera?

3. Hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir var að fordæma það sem hún nefndi misrétti milli karla og kvenna. Undir það get ég tekið. Það á að ríkja jafnrétti á milli kynja. En ég geri varla ráð fyrir að hv. þm. vilji innleiða misrétti milli fólks eftir því hvort það starfar hjá ríkinu annars vegar eða úti á hinum almenna vinnumarkaði hins vegar. 11. mál felur þetta raunverulega í sér. Þess vegna er ekki unnt að samþykkja þá þáltill. Till. felur í sér misrétti. Hún felur í sér mismunun eftir því hvort starfsmaður hefur vinnu að loknu heimilisstarfi hjá ríki eða annars staðar eins og ég gat um áðan. Ég tel rétt að hv. þm. meti stöðu þegnanna með sambærilegum hætti. Þess vegna verður að nálgast þetta verkefni með öðrum hætti en ráð er fyrir gert. Ég leyfi mér að halda því fram að sú leið sem við hv. þm. Salome Þorkelsdóttir bendum á sé hin rétta á þessu stigi máls.

Við leyfðum okkur að leggja fram brtt. þess efnis að Alþingi fæli fjmrh. að láta kanna með hvaða hætti unnt væri að meta starfsreynslu fyrir ólaunuð heimilisstörf í kjarasamningum þannig að þau störf veittu sambærileg kjör og aðrir hafa á almennum vinnumarkaði. Sú brtt. er dregin til baka, en þess í stað er flutt till. til þál. um könnun á því hvernig unnt sé að meta heimilisstörf til starfsreynslu og er sú þáltill. efnislega eins og brtt. var. Mönnum verður gerð nánari grein fyrir þáltill. þegar hún kemur á dagskrá.

Ég vil að lokum segja að það er skylda hv. þm. að þeir viti hvað þeir eru að leggja til, ekki aðeins út frá tilfinningalegum rökum heldur einnig með tilliti til efnisatriða. Í öðru lagi eiga þeir ekki að samþykkja á hv. Alþingi að auka misrétti. Í þriðja lagi eiga hv. þm. að skoða forsögu mála og sérstaklega í þessu máli þannig að þeir skilji hið flókna samband þessa atriðis og þeirra atriða sem koma til greina þegar fjallað er um það að meta heimilisstörf til starfsreynslu. Á ég þar við hvernig þetta snýr að samningsgerð aðila vinnumarkaðarins sem og hins opinbera.

Ég vil svo segja þetta: Ég hef ekki heyrt einn einasta hv. alþm. mæla gegn því að stefnt skuli að því markmiði að meta heimilisstörf til starfsreynslu. Það sem skilur á milli er að við hv. þm., sem leggjum fram till. til þál. um að þetta verði kannað, viljum að fyrir hv. Alþingi liggi upplýsingar um efnisatriði þessa máls í heild áður en ákvarðanir eru teknar eða fyrirmæli gefin til hæstv. ríkisstj. En aðalatriðið er að hv. þm. eru jákvæðir gagnvart þessu máli, sem er númer eitt og tvö á þessu stigi, að meta skuli heimilisstörf til starfsreynslu. Það finnst mér meginatriði.