20.03.1986
Sameinað þing: 63. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3247 í B-deild Alþingistíðinda. (2835)

Deila rafeindavirkja og ríkisins

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. svör hans, en verð því miður að segja að þau ollu mér verulegum vonbrigðum. Hann hafði það eitt til málanna að leggja að hér væri um ólögmæta verkfallsaðgerð að ræða og ekkert yrði gert fyrr en viðkomandi starfsmenn væru komnir aftur til starfa. Það væri forsenda þess að einhverjar viðræður gætu átt sér stað. Þannig skildi ég orð hans hér áðan. Ég verð að segja að þetta veldur mér miklum vonbrigðum. Ég hef að vísu ekki kynnt mér dómsorð og dómsforsendur félagsdóms mjög ítarlega, en í samkomulagi sem deiluaðilar í þessari deilu gerðu 3. jan. s.l., og hæstv. fjmrh. vitnaði til þess, las 3. lið þess, segir í 2. lið, með leyfi forseta:

„Aðilar líta svo á að frestun á boðuðu verkfalli hafi ekki áhrif á afstöðu aðila til gildis bréfa starfsmanna frá 30. sept. s.l.“

Það eru uppsagnarbréfin margumtöluðu. Þannig held ég að það leiki nokkur vafi á því hvort hér er um ólögmætar verkfallsaðgerðir að ræða. Ég held að það sé ekkert einhlítt. Ég skora á hæstv. fjmrh. að beita sér fyrir því að viðræður hefjist milli deiluaðila. Þessi deila leysist ekki. Það stefnir stöðugt í meira óefni og verra ástand hjá þessum ríkisstofnunum að því er varðar mjög mikilvæga öryggishagsmuni í landinu ef ekki er að gert. Ég beini þeim mjög eindregnu tilmælum til hans að hann reyni að sjá til þess að deiluaðilar tali saman og það verði reynt að ná sáttum í þessari deilu áður en af henni hlýst enn meira tjón en orðið er.