20.03.1986
Sameinað þing: 63. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3248 í B-deild Alþingistíðinda. (2839)

Deila rafeindavirkja og ríkisins

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég sé mig knúinn til að vekja athygli á því að ég sagði áðan að ég hefði kannske ekki kynnt mér allar forsendur dómsins svo til hlítar að ég hefði þær hér á takteinum. Hæstv. fjmrh. vildi hins vegar láta í það skína að ég hefði ekki kynnt mér þær eða lesið. En dómsorðin eru þau að verkfallið er dæmt ólöglegt. Í dómsorðunum er ekki tekin nein afstaða til uppsagnarbréfa. Aðilar voru sammála um 3. jan. að frestunin á boðuðu verkfalli hefði ekki áhrif á afstöðu aðila til gildis þeirra bréfa sem hér um ræðir.

Ég verð að segja að ég harma þá afstöðu sem hæstv. fjmrh. hefur tekið í þessu máli. Hann vill greinilega ekki hlusta á þær óskir sem hér koma fram um að hann beiti sér fyrir lausn á þessu máli. Ég harma það og ítreka enn einu sinni og mælist til þess að hann beiti sér fyrir því að deiluaðilar tali saman.