20.03.1986
Sameinað þing: 63. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3250 í B-deild Alþingistíðinda. (2843)

Deila rafeindavirkja og ríkisins

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Ég held að margt hafi verið of rætt í þeim umræðum sem hér hafa farið fram. Hér á í deilu stétt með ákaflega mikla lykilstöðu í þjóðfélaginu. Þessi deila er á margan hátt ákaflega sérstæð og fjallar að ýmsu leyti um sérstæð mál, félagaaðild og hver skuli hafa samningsaðild.

Ekki skal ég fara að gerast guðfaðir eða leiðbeinandi hv. 5. þm. Vestf. og því síður fjmrh. En á svona augnablikum er ákaflega hættulegt að vera að knýja út úr fjmrh. einhverjar yfirlýsingar og krefjast þess að menn fari að lýsa yfir þessu og hinu. Ég held að þingheimur verði að treysta því að þessir aðilar ræðist við. Hvað þær viðræður heita held ég að þingmenn ættu að láta liggja á milli hluta. Ég held að þetta slæma ástand verði hvorki bætt með stóryrðum, fyrirspurnum eða neglandi yfirlýsingum. En það er ábyggilega ósk þingheims að þessir aðilar ræðist við í vinsemd og hvorugur bíti nú í skjaldarrendurnar og segi: Við hann skal ég aldrei ræða fyrr en... o.s.frv. Þessi augnablik koma fyrir í samningum og þá getur verið kúnst mestu orðháka að vera nógu gætnir í tali.