31.10.1985
Sameinað þing: 10. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í B-deild Alþingistíðinda. (285)

10. mál, nefnd til að kanna rekstur Innkaupastofnunar ríkisins

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Vegna orða hv. 3. þm. Vestf. vil ég aðeins leiðrétta þá sögu sem hann sagði hér. Eins og ég man hana hét maðurinn Ólafur og var frá Akranesi.

En hæstv. fjmrh. vék aðeins að mínu máli áðan og taldi kröfur um að þessari stofnun yrði lokað vegna þess að hún hefði brotið lög jafnast á við að vilja banna alla umferð á Íslandi vegna þess að menn brytu umferðarlög. Auðvitað er þetta einstök stofnun og þar af leiðandi einungis sambærileg við einstakan brotlegan aðila í umferð og þegar þeir gerast of brotlegir eru þeir teknir úr umferð. Og það þykir sjálfsagt að framfylgja lögum þegar um slíkt er að ræða.

Hvað viðvíkur orðum hv. 3. þm. Vestf. um það að láta fjvn. eftir rannsókn á þessu máli vil ég benda á að þar getur orðið um dálítið vandasaman hlut að ræða vegna þess að þar blandast hagsmunir. Í lögum um skipan opinberra framkvæmda segir í seinni mgr. 20. gr., eins og ég rakti hér áðan, að Ríkisendurskoðun skuli setja nánari reglur um fyrirkomulag skilamats og sjá um það að greinargerðir við skilamat séu lagðar fyrir fjvn. Alþingis, samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir og eignaraðila. Og nú vill þannig til að í samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir, framkvæmdadeild innkaupastofnunar og í fjvn. sitja að nokkru leyti sömu aðilar. Þessir aðilar eru náttúrlega með því að hafa ekki krafist að fá í hendurnar þau gögn sem þeir áttu að fá skv. lögunum að nokkru leyti ábyrgir fyrir þeim slysum sem orðið hafa í rekstri þessarar stofnunar. Þess vegna tel ég ekki eðlilegt að þeirri nefnd sé síðan falið að rannsaka málið því að þá gætu menn verið í vafa um árekstur hagsmuna þar.

Hitt sem hæstv. fjmrh. nefndi í upphafi máls síns um hvaða aðili bæri skaða af þessum glæp sem upp komst um í þessu fyrirtæki er aftur á móti sorgleg saga vegna þess að bankarnir umtöluðu sem bera ábyrgðina og eiga að taka skellinn, þann fjárhagslega, eru auðvitað eins og allir menn vita í eigu ríkisins, í eigu þessarar þjóðar, þannig að það er sama í raun og veru á hvorn veginn þessu máli er velt að sá sem endanlega blæðir er hinn almenni þegn í þessu þjóðfélagi.