24.03.1986
Efri deild: 64. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3259 í B-deild Alþingistíðinda. (2854)

339. mál, sjóðir atvinnuveganna

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Virðulegi forseti. Eins og hv. deild er kunnugt er þetta frv. undirbúið af sérstakri nefnd sem ég skipaði 24. okt. 1984 í samræmi við samkomulag stjórnarflokkanna. Nefndin fékk það verkefni að endurskoða lög um sjóði atvinnuveganna eins og segir í samkomulagi stjórnarflokkanna:

„Fjárfestingarlánasjóðum atvinnuveganna sem starfa samkvæmt sérstökum lögum verði fækkað í þrjá, Búnaðarsjóð, Sjávarútvegssjóð og Iðnaðarsjóð. Sjóðir þessir sinni hlutverki sínu fyrst og fremst með lánveitingum í gegnum hið almenna bankakerfi.“

Þetta frv., sem nefndin samdi, var lagt fyrir það Alþingi sem síðast sat og varð ekki útrætt. Málið hlaut ekki endanlega afgreiðslu hér í hv. Ed.

Það er rétt að geta þess til upprifjunar að í þessari nefnd sátu Guðmundur G. Þórarinsson verkfræðingur, sem er formaður, Friðrik Sophusson alþm., Stefán Guðmundsson alþm. og Valur Valsson bankastjóri. Með nefndinni störfuðu þeir Baldur Guðlaugsson og Eiríkur Tómasson hrl. og Gunnlaugur Sigmundsson deildarstjóri og síðar forstjóri var ritari nefndarinnar.

Eftir að þingi lauk á s.l. sumri fól ég nefndinni að yfirfara frv. að nýju. Ég fékk frv. aftur frá nefndinni með bréfi 21. nóv. 1985 og mér sýnist rétt, virðulegi forseti, að ég lesi það bréf, með leyfi forseta:

„Nefnd sú er þér skipuðuð 24. okt. 1984 til endurskoðunar á lögum um fjárfestingarsjóði atvinnuveganna o.fl. hefur yfirfaríð frv. til l. um sjóði atvinnuveganna og haft hliðsjón af þeim brtt. sem fyrir lágu í fjh.og viðskn. Ed. og ýmsum öðrum tillögum og ábendingum. Nefndin hefur orðið sammála um að leggja til að frv. verði lagt fram eins og yður er sent það nú. Nefndin telur rétt að taka eftirfarandi fram:

1. Nefndin hefur í engu fjallað um tekjustofna sjóðanna og telur rétt að sérstök nefnd verði skipuð til þess að endurskoða þá og samræma.

2. Nefndin telur rétt að leitað verði leiða er miða að því að stjórn sjóðanna sé í höndum þeirra sem í þá greiða og áhrif á stjórn séu sem mest í samræmi við greiðslur.

3. Nefndin bendir á að ákvæði þess efnis að öll skjöl viðvíkjandi lánum sem Fiskveiðasjóður tekur séu undanþegin stimpilgjöldum mismunar sjóðunum og gengur þvert á þá samræmingu sem stefnt er að.

4. Nefndin bendir á að ákvæði um skyldur Stofnlánasjóðs landbúnaðarins við Lífeyrissjóð bænda til ársloka 1989 leggur byrði á þann sjóð umfram aðra sjóði.

5. Nefndin hefur lagt fram frv. með þeim breytingum á nöfnum sjóðanna sem ræddar höfðu verið í fjh.- og viðskn. Ed., en bendir á að þessi nöfn hafa þrengri merkingu en þau fyrri og gefa tvö þeirra tæplega rétta mynd af starfsemi sjóðanna.

6. Nefndin bendir á að tryggingadeild innflutningslána, sem nú er lagt til að starfi við Iðnlánasjóð, er í reynd fyrir allar atvinnugreinar og því ekki fyllilega rökrétt að hún sé staðsett við Iðnlánasjóð þó að sú leið sé valin hér.

7. Nefndin gerir í engu tillögu um breytta eignaraðild á sjóðunum frá því sem áður var. Þó er gert ráð fyrir að ríkissjóður beri ekki ábyrgð á skuldbindingum sjóðanna umfram það sem gildir þegar lög þessi öðlast gildi nema eftir því sé leitað sérstaklega.

8. Meðan þetta frv. hefur verið í umfjöllun hafa verið samþykkt lög um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvöru sem gera ráð fyrir verulegum fjárframlögum til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins. Frv. þetta gerir ráð fyrir að Framleiðnisjóður verði lagður niður og framlög þessi renni eftirleiðis til hinnar sérstöku deildar við Stofnlánasjóð landbúnaðarins, sbr. 14. og 15. gr. frv. Sumir nefndarmenn telja eðlilegra að þessi framlög fari í sérsjóð en renni ekki til stofnlánasjóðs.“ Undir þetta rita allir nefndarmenn.

Með tilvísun til þessara athugasemda taldi ég rétt að málið yrði enn skoðað og fól Baldri Guðlaugssyni lögmanni að taka málið til meðferðar og athuga allt það sem komið hefði fram í bréfi nefndarinnar er ég nú las. Sú umfjöllun tók einnig nokkurn tíma og er málið því orðið svo síðbúið sem raun ber vitni.

Ég tel þá rétt að gera grein fyrir frv. eins og það núna liggur fyrir.

Samkvæmt frv. leysir Búnaðarsjóður af hólmi Stofnlánadeild landbúnaðarins og Framleiðnisjóð landbúnaðarins auk þess sem Byggingarstofnun landbúnaðarins er lögð niður. Iðnaðarsjóður yfirtekur Iðnlánasjóð og Sjávarútvegssjóður kemur í stað Fiskveiðasjóðs Íslands, Fiskimálasjóðs og Styrktar- og lánasjóðs fiskiskipa.

Eins og kemur fram í því sem hér var lesið var ákveðið að hverfa að fyrri nöfnum sjóðanna þrátt fyrir þær hugmyndir sem hér komu fram um að halda þeim nöfnum sem nú eru. Þetta er ekki stórt mál og hvort tveggja kemur að mínu mati til greina, en ég taldi það rétt, sem kom fram í bréfi nefndarinnar, að þau nöfn sem eru í frv. eins og það er aftur lagt fyrir gefa betur til kynna verkefni viðkomandi sjóða.

Sömuleiðis var niðurstaðan sú að halda Framleiðnisjóði landbúnaðarins innan Búnaðarsjóðs en ekki aðskilja hann þrátt fyrir þau stóru verkefni sem hann hefur nú, enda er gert ráð fyrir því að Framleiðnisjóður verði sérdeild í Búnaðarsjóði og geti þannig fullt eins sinnt þeim verkefnum sem honum eru falin næstu árin eins og þótt hann væri sérsjóður.

Við frumvarpsgerðina var leitast við að samræma löggjöf um sjóðina þrjá eftir því sem unnt reyndist. Skal nú gerð stuttlega grein fyrir helstu atriðum sem eru sameiginlega fyrir sjóðina þrjá skv. frv.:

Sjóðirnir verða sjálfstæðar stofnanir. Lögbundin framlög úr ríkissjóði eru afnumin, en ákvæði núgildandi laga um tekjuöflun sjóðanna í formi gjalda á viðkomandi atvinnugrein haldast svo til óbreytt. Við gerð frv. þessa var valinn sá kostur að samræma ákvæði um réttarstöðu sjóðanna. Með orðalaginu „sjálfstæðar stofnanir“ í 2. málsgr. 1. gr. frv. er lögð áhersla á sjálfstæði hvers sjóðs um sig. Ekki er gert ráð fyrir því í frv. að sjálfskuldarábyrgð hvíli framvegis á ríkissjóði á skuldbindingum atvinnuvegasjóðanna þriggja heldur yrði að leita eftir slíkri ábyrgð í hverju einstöku tilviki. Svo sem fram kemur í athugasemdum við 49. gr. frv. helst þó ríkisábyrgð á eldri skuldbindingum sjóðanna í samræmi við núgildandi lög. Tekið skal fram að með frv. er ekki gerð breyting á núverandi eignaraðild að sjóðunum og það skal tekið fram að með tilvísun til athugasemdar nefndarinnar um tekjuöflun til sjóðanna skipaði ég þrjá menn í nefnd til að athuga tekjuöflun til Búnaðarsjóðs. Ástæðan fyrir því að ég skipaði eingöngu nefnd til að athuga tekjuöflun þess sjóðs er sú að tekjuöflun bæði Sjávarútvegssjóðs og Iðnaðarsjóðs er tiltölulega mjög einföld. Það er eitt gjald á viðkomandi atvinnuveg og ég sá ekki ástæðu til að því þyrfti að breyta. Hins vegar er tekjuöflun núverandi Stofnlánadeildar landbúnaðarins mjög flókin. Það eru mörg gjöld og m.a. er tekið gjald, 1%, af sama gjaldstofni þótt nefnt sé mismunandi nöfnum. Mér fannst því ástæða til að endurskoða það en ég hafði ekki fengið niðurstöðu frá þessari nefnd. Ég hef rætt við nefndina og þar eru efasemdir um að þörf sé á að breyta þessu og a.m.k. sýnist mér það skoðun nefndarmanna að rétt væri að stofnanir landbúnaðarins eða búnaðarþing sérstaklega kannaði betur það mál. Ekki er ástæða til að bíða eftir því.

Í öðru lagi vil ég nefna að sjóðirnir öðlast fullt sjálfstæði til að ákveða til hvaða atvinnugreina og viðfangsefna þeir lána, hverra trygginga skuli krafist og hver vera skuli lánshlutföll, vaxtakjör og önnur lánskjör. Lög munu þannig ekki lengur vera því til fyrirstöðu að sjóðirnir láni til þeirra atvinnugreina sem hvergi eru staðsettar í sjóðakerfinu eða atvinnufyrirtækja hvor hjá öðrum, en ákvarðanir um slíkt verði í höndum viðkomandi sjóðsstjórnar og þar með í reynd í höndum viðkomandi atvinnugreinar.

Í þessu sambandi vil ég geta þess að allmjög var um það rætt hvort unnt mætti vera að sameina þessa sjóði alla í einn stofnlánasjóð atvinnuveganna og hafa þannig enga aðgreiningu, enda þá því betur náð að allar greinar atvinnuvega ættu þar innangengt. Um þetta náðist ekki samstaða enda málið allmargslungið, m.a. með tilliti til þeirra víðtæku skuldbindinga sem þegar hvíla á hinum ýmsu sjóðum atvinnuveganna. Ég vil láta það koma fram að sjálfur taldi ég þetta að mörgu leyti æskilegt markmið og var því hlynntur að slíkt skref yrði stigið en ég viðurkenni að það mun vera erfitt, mörg ljón í vegi, og því eðlilegra, a.m.k. til að byrja með, að taka þetta í áföngum.

Í þriðja lagi: Stjórn hvers sjóðs ákveður hvort sjóðurinn skuli lána beint eða fyrir milligöngu viðskiptabanka eða annarra lánastofnana. Í þessu felst að sjóðirnir geta valið á milli mismunandi leiða. Í fyrsta lagi: Þeir geta lánað beint og annast afgreiðslu lánanna sjálfir. Í öðru lagi: Þeir geta ákveðið að lánsumsóknir þurfi að fara í gegnum viðskiptabanka umsækjanda sem láti þá í té umsögn, auk þess sem sjóðirnir gætu ákveðið að setja það sem skilyrði fyrir lánveitingu að viðskiptabanki eða önnur lánastofnun ábyrgist lánið. Í þriðja lagi: Þeir geta endurkeypt skuldabréf af viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum. Og í fjórða lagi: Þeir geta lánað viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum beint, enda hyggist viðkomandi stofnanir endurlána féð til viðfangsefna sem samrýmast hlutverki víðkomandi sjóðs. Hver sjóður gæti hvort heldur er valið eina af ofangreindum leiðum eða blöndu af þeim og gæti því hugsast að sjóðirnir störfuðu að þessu leyti hver með sínum hætti.

Í þessari breytingu felst töluvert. Með henni er að því stefnt að tengja viðskiptabankana betur en verið hefur starfsemi stofnlánasjóðanna. Í henni felst að viðskiptabankarnir meti umsóknir um lán til stofnlána og séu þá reiðubúnir til að taka slíkt lán hjá stofnlánasjóði og endurlána og reyndar eru heimildir til þess að slík lán verði þá með öðrum tryggingum en gert kann að vera þegar sjóðirnir lána beint og lánin jafnvel hærra hlutfall.

Í fjórða lagi: Stjórnum sjóðanna er heimilt að ákveða að lánskjör og lánshlutfall verði mismunandi eftir því hvaða tryggingar eru settar fyrir lánum. Með þessu móti er sjóðunum gert kleift að aðlaga lánshlutföll, vexti og önnur lánskjör þeim tryggingum sem settar eru og þar með þeirri áhættu sem tekin er í hverju tilfelli. Jafnframt er tekið sérstaklega fram í frv. að þegar viðskiptabankar eða aðrar lánastofnanir ábyrgjast lán megi hafa lánskjör hagstæðari lántakendum og lánshlutföll hærri en ella væri. Slíkt fyrirkomulag gæti stuðlað að því að lánveitingar sjóðanna færu fram í gegnum bankakerfið. Þessi liður er að sjálfsögðu mjög tengdur því sem ég las áðan og þarf ég ekki að hafa um hann frekari skýringar.

Í fimmta lagi: Felld eru úr lögum ákvæði um að tiltekinn viðskiptabanki skuli hafa á hendi daglegan rekstur eða stjórn hvers sjóðs. Hins vegar er stjórnum sjóðanna veitt heimild til þess að semja um það að önnur stofnun annist daglegan rekstur.

Í sjötta lagi: Starfsemi sjóðanna verður fyrst og fremst í því fólgin að sjóðirnir veiti lán eða ábyrgðir en jafnframt er lagt til að innan hvers sjóðs starfi sérstök deild er hafi það hlutverk að styðja nýsköpun og umbætur í viðkomandi eða öðrum atvinnugreinum og er sjóðsstjórn bæði heimilt að veita lán og styrki úr þessari deild. Heimilt er að afskrifa slík lán ef verkefni sem lánað hefur verið út á ber ekki tilætlaðan árangur. Þá er og heimilt að ráðstafa fjármunum hinna sérstöku deilda til þátttöku í stofnun nýrra fyrirtækja eða til kaupa á eignarhlutum í starfandi fyrirtækjum. Hin sérstaka deild innan Sjávarútvegssjóðs tekur við eignum og tekjum Fiskimálasjóðs, hin sérstaka deild innan Búnaðarsjóðs við eignum og tekjum Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og hin sérstaka deild innan Iðnaðarsjóðs við eignum og tekjum vöruþróunar- og markaðsdeildar Iðnlánasjóðs. Ber að halda fé og fjármagnstekjum hinna sérstöku deilda aðgreindum í bókhaldi og reikningum sjóðanna.

Ég tel þetta ákvæði um starfsemi sjóðanna mjög mikilvægt í þeirri viðleitni sem nú er til nýsköpunar í atvinnulífinu. Ég minni hv. þm. á að venjulega hefur þurft sérstaka ákvörðun ráðherra og jafnvel sérstaka reglugerð til þess að sumir sjóðirnir hafi talið sér heimilt að ráðstafa fjármagni til slíkra áhættuþátta eins og hér er um að ræða. Á ég þá t.d. við hagræðingarlán og fleira sem Fiskveiðasjóður hefur veitt. Með þessum ákvæðum í lögum er meiri festu komið á þessa starfsemi og reyndar sjóðunum gert að skyldu að lána eða styrkja nýsköpun í atvinnulífinu.

Í sjöunda lagi: Stjórnum sjóðanna er heimilt að ákveða að þeir taki þátt í fjárfestingar- og þróunarfélögum að því marki sem slík þátttaka samrýmist hlutverki sjóðanna. Þetta er að sjálfsögðu skylt því ákvæði sem ég las áðan um nýsköpun í atvinnulífinu. Sjóðirnir geta m.ö.o. veitt slík lán eða styrki beint eða kosið að gera það í gegnum þau þróunarfélög sem starfandi eru.

Í áttunda lagi: Teknar eru upp heimildir fyrir sjóðina til að taka lán erlendis í eigin nafni innan ramma lánsfjárlaga. Um þetta þarf ekki að fara mörgum orðum. Ef sjóðirnir telja sig geta fengið betri lánskjör með því að taka lánin beint er þeim það hér með heimilt en þurfa ekki, eins og nú er, að taka lán í gegnum Framkvæmdasjóð.

Í níunda lagi: Felld eru brott ákvæði um það hvenær heimilt sé að telja lán eða eftirstöðvar lána úr sjóðunum fallin í gjalddaga án uppsagnar og um heimild sjóðanna til að láta selja veð við opinber uppboð án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms, enda slík lagaákvæði óþörf þar sem sjóðirnir geta áskilið sér þann rétt í skuldabréfum þeim sem lántakendur gefa út til viðurkenningar skuld sinni. Sama máli gegnir um lagaákvæði varðandi heimildir sjóðanna til að gengistryggja endurlán erlends lánsfjár. Slík ákvæði í einstökum lögum eru óþörf vegna almennra heimilda í lögum nr. 13/1979. Þetta atriði held ég að þurfi ekki skýringa við.

Í tíunda lagi: Æðsta vald í málefnum hvers sjóðs verður í höndum fimm manna stjórnar sem skipuð er af ráðherra til eins árs í senn. Skulu fjórir þeirra skipaðir skv. tilnefningum en einn skipar ráðherra án tilnefningar. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi stjórnarmanna. Fyrir lok maímánaðar ár hvert skal haldinn sérstakur ársfundur viðkomandi sjóðs. Rétt til setu þar með tillögurétti og atkvæðisrétti eiga samtals 20 fulltrúar tilnefndir af sömu aðilum og tilnefna stjórnarmenn. Stjórn hvers sjóðs getur auk þess boðið að sitja ársfund sjóðsins öðrum þeim sem hún telur ástæðu til að sitji fundinn. Hlutverk ársfundar er að ræða og afgreiða ársskýrslu og reikninga viðkomandi sjóðs en stjórnin skal leggja hvort tveggja fyrir fundinn. Einnig kýs ársfundur endurskoðendur sjóðsins og ákveður þóknun stjórnarmanna. Loks er tekið fram í frv. að ársfundur geti gert tillögu til stjórnar sjóðsins um stefnumarkandi atriði er varða skipulag og starfsemi sjóðsins. Ákvörðunarvaldið er þó eftir sem áður hjá stjórninni.

Hér er að sjálfsögðu gerð tilraun til þess að fleiri fái aðgang að stjórn og ákvörðun stjórnar um starfsemi viðkomandi sjóðs. Oft og iðulega hefur starfsemi stofnlánasjóðanna verið mjög gagnrýnd af aðilum viðkomandi atvinnugreina sem ekki hafa talið sig geta fallist á þær reglur og ákvæði sem þar hafa ráðið. Með þessum ákvæðum í frv. er að því stefnt að slíkir aðilar og reyndar fleiri aðrir, sem telja sig eiga erindi við stjórn viðkomandi sjóðs, fái tillögu- og umræðurétt um starfsemina.

Í ellefta lagi vil ég svo nefna það að við Iðnaðarsjóð er gert ráð fyrir sérstakri tryggingardeild útflutningslána. Stjórnir Búnaðarsjóðs og Sjávarútvegssjóðs geta ákveðið að við þá sjóði skuli einnig starfræktar slíkar deildir og skulu þá gilda um þær sömu lagaákvæði. Og eins og fram kemur í frv. stendur Ríkisábyrgðasjóður að baki þessari tryggingardeild útflutningslána.

Um þetta atriði var mikið rætt í meðferð málsins á milli þinga. Þetta er atriði sem kom inn í meðferð hv. fjh.- og viðskn. Ed. í fyrra og er að allra mati mjög þarft ákvæði. Hins vegar voru skiptar skoðanir um það hvort það ætti heima í þessu frv. eða í sérfrumvarpi og sömuleiðis nokkuð skiptar skoðanir um það hvort samsvarandi greinar eða sömu greinar ættu þá að vera í köflum um Búnaðarsjóð og Sjávarútvegssjóð. Eftir allítarlega umfjöllun um þetta atriði var niðurstaðan hins vegar sú að ekki væri ástæða til slíks, að slík tryggingarlán yrðu að öllum líkindum langsamlega flest hjá Iðnlánasjóði, vafasamt að hinir sjóðirnir teldu sig þurfa að veita slík lán, en þó tekið inn í frv. ákvæði sem heimilar þeim að gera það ef þeir telja þörf á og málið þannig leyst. Náðist um það samkomulag við forráðamenn viðkomandi sjóða eins og þeir eru nú.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginatriði þessa frv., sömuleiðis þær athugasemdir sem komu fram frá nefndinni. Ég hef einnig gert grein fyrir því að vegna þeirra athugasemda og þeirra brtt. sem komu fram í meðferð þessarar hv. deildar á frv. var talið nauðsynlegt að taka það til ítarlegrar endurskoðunar. Ég vona að þær breytingar sem hafa verið gerðar séu til bóta og verði til þess að nefndin geti fremur sæst á frv. eins og það er.

Ég veit að þær raddir munu heyrast að hér sé ekki um róttæka breytingu á sjóðakerfinu að ræða. Ég hygg þó að þegar menn skoða þau ýmsu atriði sem ég hef nú rakið leynist þar miklu fleira en menn hafa viljað láta í veðri vaka. Fyrst og fremst er um það að ræða að sjóðirnir verða sjálfstæðari einingar, að stjórnir sjóðanna, sem eru á vegum viðkomandi atvinnuvega, geta ráðið miklu meira um það, ef þetta frv. verður að lögum, en sjóðsstjórnir geta nú hvernig viðkomandi sjóðir haga sinni starfsemi, hvort sjóðurinn lánar út beint, lánar í gegnum viðskiptabanka o.s.frv. Ég tel ákaflega mikilvæg atriði um nýsköpun í atvinnulífinu sem sjóðunum eru falin með þessu frv. og fleira gæti ég nefnt sem ég vil ekki endurtaka. Ljóst er að þetta frv. kemur seint fram hins vegar og ég er þess vegna ekki að leggja áherslu á að það verði afgreitt á þessu þingi en ég taldi rétt að nefndin fengi það þó til afgreiðslu, ef hún hefur tíma til, eða til skoðunar og gæti enn gert við það athugasemdir þannig að það mætti þá leggja fram strax í upphafi þings í haust.

Ég geri að tillögu minni að lokinni þessari umræðu að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.