24.03.1986
Efri deild: 64. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3271 í B-deild Alþingistíðinda. (2862)

88. mál, iðnaðarlög

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Iðnn. hefur fjallað um það frv. sem nú er til umræðu. Nefndin leitaði umsagnar Landssambands iðnaðarmanna og Félags ísl. iðnrekenda, en nefndinni hafa ekki borist í hendur neinar umsagnir um frv. frá þessum aðilum. Þá fékk nefndin á sinn fund fulltrúa frá iðnrn. til þess að ræða frv. þetta.

Það er till. nefndarinnar að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Þetta frv. felur í sér heimild um að undantekningar verði gerðar frá því ákvæði í gildandi lögum að Íslendingar skuli eiga meiri hluta hlutafjár í hlutafélögum sem reka iðnaðarstarfsemi. Samkvæmt lögum verða Íslendingar að eiga meiri hluta hlutafjár, en samkvæmt þessu frv. er gert ráð fyrir að iðnrh. geti veitt undanþágu frá þessu ákvæði.

Hinn 9. maí s.l., eða á síðasta þingi, samþykkti Alþingi þáltill. um að fela ríkisstjórninni að láta endurskoða gildandi lagaákvæði um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnufyrirtækjum hér á landi. Í grg. með þessari þáltill. var sérstaklega getið um iðnaðarlög nr. 42/1978, sem þyrfti að taka til endurskoðunar með tilliti til þessa máls. Þetta var í grg.þáltill. sem flm. þessa frv. stóð að. Nú hefur flm. flutt frv. um þetta tiltekna ákvæði sem varðar þá allsherjarendurskoðun, sem þál. gerir ráð fyrir.

Með því að Alþingi hefur þegar falið ríkisstjórninni að endurskoða gildandi lagaákvæði um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnufyrirtækjum þykir iðnn. rétt að taka ekki einn þátt þessa máls út úr með því að samþykkja þetta frv. meðan hin almenna athugun fer fram um þessi mál. Og á þeim grundvelli leggur iðnn. til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.