24.03.1986
Efri deild: 64. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3273 í B-deild Alþingistíðinda. (2865)

341. mál, sala jarðarinnar Streitis

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég er svona almennt séð heldur andvígur því að verið sé að selja ríkisjarðir og hér sýnist mér vera um mjög óvenjulegt mál að ræða, þ.e. það er ekki verið að selja þessa jörð ábúendum í sveitinni þarna sem nýta hana eins og venjulegast er, heldur er hér flutt á hinu háa Alþingi frv. til laga um að selja þessa ríkisjörð, sem hefur verið í eyði um nokkurt skeið, einstaklingi hér á Reykjavíkursvæðinu sem hefur í hyggju að setjast þar að. Ég held að hér sé farið svolítið aftan að hlutunum og það væri þá eðlilegra að flytja slíkt frv. þegar umræddur einstaklingur hefði sest að á jörðinni og hafið þar búskap og komið sér fyrir. En ég lýsi andstöðu við þetta eins og þetta mál er sett fram hér. Ég held að hér séu menn ekki á réttum brautum og þetta er mjög óvenjulegt frv. Það koma hér alltaf á hverju ári fyrir hið háa Alþingi einhver frv. um sölu ríkisjarða, en þetta er eina tilvikið af þessu tagi sem ég minnist a.m.k. nú síðari ár að hafi komið hér fram og held að þetta mál þurfi þá sérstaka athugun í þeirri nefnd, sem það fær til umráða, og ég lýsi andstöðu við það eins og mér sýnist málið vera vaxið.