24.03.1986
Neðri deild: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3274 í B-deild Alþingistíðinda. (2868)

364. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins.

Á síðasta ári var bændum þeim sem illa voru settir gefinn kostur á að leita eftir hagfræðilegum leiðbeiningum og úttekt á þeirra búrekstri. Það gáfu sig fram um 260 bændur og mál þeirra hafa verið í athugun síðan. Um s.l. áramót var vanskilum þessara bænda við Stofnlánadeildina og afborgunum síðasta árs breytt í ný og lengri lán og þannig létt greiðslubyrði þeirra. Stór hluti af lánum þeirra er við veðdeild Búnaðarbanka Íslands vegna breytingar á lausaskuldum bænda sem gerð hefur verið á undanförnum árum, en veðdeildin hefur ekki sama svigrúm til slíkra breytinga eins og Stofnlánadeildin. Þess vegna er hér flutt frv. um að lausaskuldalán bænda verði flutt í Stofnlánadeild landbúnaðarins og stofnlánadeildinni verði veitt heimild til þess þannig að þar væri þá hægt að breyta lánakjörum nokkuð því að það hefur komið í ljós að slík breyting mundi hafa mjög mikið gildi fyrir marga bændur og gera þeim kleift að komast fram úr sínum málum sem ekki væri hægt með óbreyttum lánakjörum. Stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins er samþykk því að slík breyting verði gerð eins og gert er ráð fyrir í þessu frv.

Ég vænti þess að þetta frv. geti fengið greiðan gang í gegnum hv. Nd. eftir athugun í nefnd og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. landbn.