24.03.1986
Neðri deild: 67. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3280 í B-deild Alþingistíðinda. (2876)

372. mál, vinnudeila Mjólkurfræðingafélags Íslands

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um lausn vinnudeilu Mjólkurfræðingafélags Íslands annars vegar og Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna hins vegar.

Áður en kjarasamningarnir í síðasta mánuði voru gerðir ákvað ríkisstj. að gera margvíslegar ráðstafanir til að leggja grundvöll að því að þeir gætu tekist á þann hátt að það markmið næðist að koma verðbólgunni niður fyrir 10% á þessu ári. Þessar ráðstafanir voru tvíþættar. Annars vegar var verðlag lækkað, m.a. með lækkun tolla og auknum niðurgreiðslum, svo að kaupmáttur þeirra launa sem um var samið varð meiri en annars hefði orðið. Af þeim sökum gátu launþegar fallist á minni hækkun launa í krónutölu. Hins vegar var dregið úr útgjöldum atvinnurekstrarins svo að hann gat tekið á sig nokkra launahækkun án þess að það hefði mikil áhrif á verðlag eða hefði gengislækkun í för með sér.

Þessir kjarasamningar hafa nú verið samþykktir af langflestum stéttarfélögum sem áttu aðild að þeim. Mjólkurfræðingafélag Íslands felldi þá hins vegar og boðaði verkfall frá og með deginum í dag. Sáttasemjari hefur haldið nokkra fundi með deiluaðilum, en þeir hafa ekki borið árangur.

Sú sérkrafa mjólkurfræðinga sem um var fjallað síðast á fundi í dag er samkvæmt upplýsingum ríkissáttasemjara 4-5% umfram hinn almenna kjarasamning Alþýðusambands Íslands og vinnuveitenda. Þeirri kröfu var hafnað af hálfu vinnuveitenda þar sem við núverandi aðstæður og aðdraganda kjarasamninganna væri það ranglátt gagnvart þeim sem þegar hafa samið og svo stefndi það þeim árangri sem náðist með kjarasamningunum í hættu.

Sá árangur hefur reyndar þegar orðið betri en menn þorðu að vona þar sem verðlag hefur lækkað meira en áætlað var. Það hefur m.a. þau áhrif að nú er þess að vænta að vextir lækki aftur fyrr og meir en reiknað var með, en ekkert er meiri kjarabót fyrir þá sem þyngstar byrðar bera vegna skulda. Er það glöggt dæmi um hvað mikið er í húfi að ekki verði aftur snúið á hinn verri veg.

Ríkisstj. hefur því talið óhjákvæmilegt að kveðið verði á um skipan kjaradóms á grundvelli lagasetningar til að úrskurða mjólkurfræðingum sambærilega launahækkun og aðrar stéttir hafa fengið að undanförnu og óheimilt verði að knýja frekari launahækkun fram með verkfalli meðan þeir samningar eru í gildi. En að sjálfsögðu mun sú launakönnun sem gert var ráð fyrir í 5. gr. kjarasamninganna einnig ná til mjólkurfræðinga svo að tryggt sé að hlutur þeirra verði ekki fyrir borð borinn í næstu kjarasamningum og þeir fái þá sanngjarnar kröfur sínar uppfylltar.

Ég mælist til þess að reynt yrði að hraða afgreiðslu máls þessa og vil því beina því til hv. landbn., sem fá þetta mál til meðferðar, að þær vinni saman við nefndarstörfin. En að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.