24.03.1986
Neðri deild: 67. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3282 í B-deild Alþingistíðinda. (2878)

372. mál, vinnudeila Mjólkurfræðingafélags Íslands

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Þegar mælt er fyrir máli af þessu tagi á hv. Alþingi er það auðvitað algjört lágmark að ráðherrar geri grein fyrir efnisatriðum deilunnar og forsendum hennar í heild. Það gerði hæstv. ráðherra landbúnaðarmála ekki hér áðan heldur gerði hann tilraun til að hefja almennar stjórnmálaumræður um efnahagsmál og þróun þeirra á þessu ári. Ég gagnrýni málsmeðferð og málflutning ráðherra í þessu efni vegna þess að ég tel að það sé óhjákvæmilegt við umræðu af þessum toga að menn fari rækilega yfir hlutina og átti sig á efnisatriðum málsins. Og hver eru þau?

Í fyrsta lagi er ríkisstj. hér með tillögu um að svipta ákveðinn hóp manna verkfallsrétti. Það er það sem liggur fyrir. Hér er tillaga gerð um breytingu á vinnulöggjöfinni í raun og veru.

Í öðru lagi liggur málið þannig fyrir að mjólkurfræðingar gerðu kröfur um sex atriði umfram hina almennu kjarasamninga í upphafi þeirra viðræðna sem staðið hafa yfir. Þeir féllu fljótlega frá þremur þessara atriða og eftir stóðu þrjú.

Í fyrsta lagi gerðu þeir kröfu um sérstaka þriggja launaflokka hækkun til samræmis við ýmsa aðra hópa iðnaðarmanna. Í öðru lagi gerðu þeir kröfu um svokallað stjórnunarálag til samræmis við það kaup sem þegar er umsamið hjá Rafiðnaðarsambandi Íslands. Og í þriðja lagi gerðu þeir kröfu um að fá svokallað fæðis- og flutningsgjald sem er svipað og ýmis önnur verkalýðsfélög hafa þegar haft.

Þetta voru þær kröfur sem lágu fyrir hjá mjólkurfræðingum í gær þegar umræðum lauk. Síðan gerðist það á fundi síðdegis í dag að Mjólkurfræðingafélag Íslands bauð af sinni hálfu að semja um ASÍ-samninginn plús þær breytingar á fæðis- og flutningsgjaldi sem þeir höfðu upphaflega gert kröfu um og telja með rökum að ýmis önnur verkalýðsfélög, m.a. félög byggingariðnaðarmanna og Rafiðnaðarsambandið, hafi nú þegar. Það sem stendur upp úr er að þeir gera í rauninni eina kröfu eins og staðan er í dag og í stað þess að fara í það af krafti að reyna að semja um málið er þeirri kröfu svarað með því að leggja fram frv. á hv. Alþingi.

Ég geri þá kröfu til hæstv. landbrh. að hann þegar í stað freisti þess að setja af stað að nýju samningaviðræður til þess að á næstu klukkutímum fáist úr því skorið hvort ekki er unnt að ná samkomulagi á grundvelli síðustu kröfu sem Mjólkurfræðingafélag Íslands heldur til streitu.

Ég held að það hefði verið eðlilegra að hæstv. landbrh. hefði gert grein fyrir þessum efnisatriðum deilunnar áður en hv. alþm. er stillt upp við vegg frammi fyrir þessum hlutum rétt eins og himinn og jörð séu að farast.

Ég vil einnig gagnrýna harðlega, herra forseti, grg. þessa frv. Í 2. málsgr. grg. segir: „Kröfur mjólkurfræðinga fela í sér verulegar hækkanir og frávik umfram það sem felst í hinum almennu kjarasamningum.“ Þetta er ekki rétt. Hér er verið að bera rangar fullyrðingar á borð fyrir þingheim. Ég mótmæli harðlega vinnubrögðum af þessu tagi hjá hæstv. landbrh. Það er hraklegt að senda þingmál frá sér með þessum hætti, svona illa undirbúin, sem styðjast ekki við þau efnislegu rök sem um er að ræða í málinu þegar frv. er flutt.

Ég vil einnig, herra forseti, benda sérstaklega á 2. gr. þessa frv., en þar segir: „Kjaradómurinn skal við ákvörðun kaups og kjara mjólkurfræðinga leggja til grundvallar síðast gildandi kjarasamning Mjólkurfræðingafélags Íslands og vinnuveitenda og þær launa- og kjarabreytingar sem almennt hefur um samist á vinnumarkaði frá því kjarasamningar urðu lausir hinn 1. janúar 1986.“ Hvað þýðir þetta? Það þýðir að gerðardómnum er bannað að taka tillit til þeirrar kröfu sem sett hefur verið fram varðandi fæðis- og flutningsgjaldið. Honum er það óheimilt samkvæmt orðanna hljóðan í þessum texta.

Nei, herra forseti. Málið er illa fram lagt, í flaustri rökstutt og byggist ekki á hinum efnislegu staðreyndum þessa máls eins og það liggur fyrir í dag.

Ég held að rétt sé að það komi einnig fram að samhliða þessum umræðum mun Mjólkursamsalan hafa hótað því að hækka verð á mjólk um 5 aura hvern lítra út á þessa einu kröfu. Ég segi og vildi segja við Mjólkursamsöluna ef ég fengi tækifæri til: Berið þið þetta sjálfir. Milliliðirnir í landbúnaðinum þola þessa 5 aura.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál á þessu stigi málsins, en ég tel að það sé óhjákvæmilegt að ítarlegri upplýsingar komi fram og ég endurtek þá kröfu mína til ríkisstj. og landbrh. að þeir fari af stað með samningaviðræður hér og nú, en hagi sér ekki við Alþingi eins og það sé sjálfsafgreiðslustofnun þegar það kemur upp að vandi er í kjarasamningum eins og það hvernig á að ákveða flutningslínu innan ákveðinna svæða verkalýðsfélaga. Það eru vinnubrögð sem hv. Alþingi getur ekki látið bjóða sér.