24.03.1986
Neðri deild: 68. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3288 í B-deild Alþingistíðinda. (2888)

372. mál, vinnudeila Mjólkurfræðingafélags Íslands

Frsm. 2. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Við Alþýðuflokksmenn höfum áður lýst afdráttarlausum stuðningi okkar við það samkomulag sem aðilar vinnumarkaðarins og ríkisstj. gerðu með sér um kjaramál fyrir skömmu. Við höfum lagt áherslu á að það samkomulag haldi og að vel sé að því staðið. Í þeirri afstöðu okkar felst vitaskuld að ekkert það sé gert sem brjóti það samkomulag niður. Þar á meðal gerum við ráð fyrir því að sérkjarasamningar séu gerðir á þeim grundvelli sem samkomulagið reisti og fari ekki út úr því korti. Það hlýtur hins vegar að hvíla á samningsaðilum að kveða upp úr um það hvort svo sé og í þessu máli er það þannig að aðilar eru ekki á einu máli um það. Vinnuveitendasamband Íslands telur að hér horfi til óefnis ef einhverjir sérsamningar takast í raun og sannleika, en forseti Alþýðusambands Íslands hefur hins vegar látið eftir sér hafa að ótímabært sé að grípa inn í þessa deilu. Þessir tveir aðilar eru sem sé ekki á einni skoðun um hvort þær samningaumleitanir sem hér voru á leiðinni hafi verið á leiðinni út úr kortinu eða ekki.

Á hinn bóginn er vitaskuld ljóst að það á að forðast að beita lagasetningarvopninu nema í ýtrustu neyð eða þegar sérstakar aðstæður krefjast og jafnframt að ef gripið er til lagasetningar verður að sýna sanngirni í lagasetningunni. Ég held að það liggi ljóst fyrir núna að frumvarpsflutningur ríkisstj. um lagasetningu þá sem hér um ræðir hafi verið frumhlaup og hafi í raun hleypt kjaradeilunni í verri hnút en efni stóðu til. Það er margt sem bendir til þess að ekki hafi verið fullreynt um samkomulag og vísa ég þar aftur m.a. til orða forseta Alþýðusambands Íslands.

En eftir að þessi stefna var tekin er þó líklega svo komið nú að erfitt muni að ganga til samninga eða litlar líkur á að um semjist eftir að þetta lagafrv. hefur séð dagsins ljós og hefur legið hér á borðum sem opinbert gagn. Úr því að sú staða er komin upp hljóta menn að velta fyrir sér hvers eðlis sú lagasetning er sem ríkisstj. hefur í hyggju að beita sér fyrir að sett verði. Það skiptir nefnilega máli þegar sett eru ákvæði í lög um gerðardóm hvaða forskrift gerðardómnum er fengin. Á þetta benti ég í starfi nefndarinnar í dag og benti á að 2. gr. frv. gefur í raun og sannleika endanlega niðurstöðu úr þeim dómi sem ætlað er að hér gangi og sú niðurstaða og sú forskrift er einhliða þar sem tekin er afstaða eingöngu með öðrum aðilanum, vinnuveitendum. Að mínum dómi er ekki við hæfi að setja dómi forskrift sem er svo einhliða. Þess vegna leitaði ég eftir því í nefndinni hvort 2. gr. mætti ekki umorða þannig að Kjaradómur hefði svigrúm til að meta launakjör mjólkurfræðinga eins og venjulega gerist í deilum af þessu tagi og meta þær þá með hliðsjón af þeim kjörum sem um hefur samist hjá öðrum hliðstæðum starfsstéttum í þjóðfélaginu og ekki sé hafnað fyrir fram öllu því sem menn hafa fram að bera í þeim efnum og dómnum í raun sett fyrir að úrskurða eingöngu á grundvelli rammasamkomulagsins eins og einskis annars. Þessari umleitun var hafnað af meiri hl. nefndarinnar.

Þegar svo er komið sögu tel ég einhlítt að ríkisstj. vilji sjálf og ein bera ábyrgð á þessu máli öllu saman og það sé sjálfsagt að hún fái tækifæri til að gera það þegar hún tekur ekki tilsögn um einföldustu atriði. Af þessum sökum mun ég ekki greiða atkvæði um þetta frv.