24.03.1986
Neðri deild: 68. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3289 í B-deild Alþingistíðinda. (2889)

372. mál, vinnudeila Mjólkurfræðingafélags Íslands

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Það er býsna fróðlegt að skoða hvenær þetta Alþingi bregst hart við. Um daginn voru birtar upplýsingar um að á Íslandi væri og hefði verið um langt skeið mesta láglaunasvæði á Vesturlöndum og þá gerðu menn þjóðarsátt. Það voru birtar upplýsingar um að fyrirtæki á Íslandi bæru líklega allra fyrirtækja á Vesturlöndum lélegastan arð og þá gerðu menn lífskjarasáttmála. En Alþingi hafði engar næturvökur af því tilstandi heldur afgreiddi það á fumlausan hátt. Menn gerðu sáttmála um lífskjör, þjóðarsátt.

Svo komu upplýsingar um að fjórðungur íslensku þjóðarinnar byggi við fátækt. Og áfram heldur Alþingi sína lífskjarasátt. Þjóðhagsstofnun, sem forsrh. sjálfur ber ábyrgð á og stjórnar, birtir þær niðurstöður fyrir tíu dögum að fjórða hvert heimili 20 þúsund heimili á Íslandi, búi við eða fyrir neðan fátæktarmörk. Á Alþingi verða engir langir næturfundir af því tilefni. Mér vitanlega hefur forsrh. ekki einu sinni verið spurður að því hvort hann hafi af þessu einhverjar áhyggjur, hvort hann hyggist kannske draga úr nætursvefni þm. þegar líður á vorið vegna þess að hann vilji gera eitthvað af því tilefni.

En hvað er það sem dregur þingið til kvöldverkanna? Eina ferðina enn er það það að menn úti í bæ, sem hafa fengið frjálsan samningsrétt, sem hafa til þess réttindi og hafa til þess skyldur að útkljá mál sín á milli, koma sér ekki saman.

Þetta er ekki í fyrsta sinn. Við minnumst þess að í haust, í lok október, breyttust salir Alþingis eina kvöldstund í samningafund fyrir Flugfreyjufélagið, í samningafund milli flugfreyja og Flugleiða. Þar voru aðilar sem ekki vildu eða ekki gátu gert út um sín mál í frjálsum samningum og auðvitað var kallað á Alþingi og auðvitað var Alþingi tilbúið að standa svo sem eins og eina næturvakt til að leysa menn undan þeirri skyldunni að útkljá mál eins og ábyrgir menn sín á milli. Menn geta nú velt fyrir sér alveg eins og í haust: Hvaða hönk eiga Flugleiðir hf. upp í bakið á Alþingi til þess að löggjafarsamkunda þjóðarinnar leysi þar deilumál um vaktaprósentur? Og nú spyrja menn: Hvaða hönk á mjólkurbransinn upp í bakið á löggjafarsamkundunni til þess að hún leysi þar deilumál sem mér skilst að snúist núna samkvæmt síðustu fréttum í dag um fæðis og flutningapeninga.

Alþingi á ekki að vera einhver launamálalögregla. Annaðhvort eða ekki eru í gildi lög um vinnudeilur sem leyfa mönnum ýmiss konar óskunda í þeim efnum, leyfa þeim t.d. að fara í verkfall, en lög sem umfram allt gefa mönnum réttindi til að reyna að útkljá mál eins og siðaðir menn í samningum sín á milli.

Það er aldeilis undarleg niðurstaða fyrir eina löggjafarsamkundu að láta sér nægja í þrígang á einum vetri að ógilda lög um stéttarfélög og vinnudeilur, fyrst með því að taka flugfreyjumálið svokallaða þegar það bar að höndum, síðan með því að taka lífskjarasáttmálann og þjóðarsáttina og kokrenna henni og í þriðja lagi með því að taka þetta mjólkurdeilumál og setja um það lög að leysa menn undan þeirri kvöð að vera ábyrgir og semja um sín mál. Hvernig væri að fara að horfast í augu við sjálfan sig og segja: Eru þessi lög um stéttarfélög og vinnudeilur kannske ónýt? Valda menn ekki þessu frelsi að mega semja um sín mál? Kannske er það þjóðhættulegt ástand að menn semji um sín mál. Í stað þess að vera sífellt að ógilda þessi lög, eins og Alþingi gerir núna trekk í trekk, eiga menn að spyrja: Eiga menn þá ekki að breyta þessum lögum? Og þá geta menn spurt: Eigum við þá kannske að afnema verkfallsréttinn? Hvernig væri þá að afnema verkfallsréttinn? Menn eru greinilega svo óábyrgir gerða sinna að þeir átta sig ekki á því að það er þjóðarsátt um að vera ekki að þessum óskunda. Við skulum þá bara banna verkföll. Við getum komið upp með fullt af kjaradómum sem geta alltaf leyst þessi mál.

Það má líka spyrja hvort það sé kannske leið að finna samningsréttinum og samningsfrelsinu annan farveg, t.d. þann að það séu vinnustaðasamningar þar sem ekki einungis mjólkurfræðingar í einu mjólkurbúi séu að semja um sín laun heldur starfsfólkið í heild í þessu mjólkurbúi og í stað þess að það séu flugfreyjur, flugþjónar, flugmenn eða flughlaðmenn sem hver á eftir öðrum eigi í deilum við yfirstjórn fyrirtækis og hvað eftir annað stöðvist rekstur semji allir þessir aðilar í eitt skipti í einu félagi. Ég held að menn ættu að athuga hvort kannske sé ástæða til að huga að þessari lagasetningu og búa þessu þann farveg að Alþingi þurfi ekki að leika hlutverk launamálalögreglu og grípa sífellt fram fyrir hendurnar á mönnum. Ef menn kunna ekki að koma sér saman í samningum er greinilegt að þeir eiga ekki skilið þessi réttindi ef maður tekur gerðir ríkisstj. á þessu kjörtímabili í samhengi.

Ég vildi segja annað um þessi mál. Sá sífelldi siður að setja lög og eyða verkfallsaðferðinni sviptir menn ábyrgð á gerðum sínum. Það er augljóst að þeir samningamenn sem á undanförnum dögum hafa verið á fundum og reynt að semja í þessu mjólkurdeilumáli vissu að það var til frv. sem mundi leysa þá undan þessari kvöð. Síðast í dag, þegar var gerður úrslitafundur um að ná samningum, vissu menn að það var m.a.s. búið að prenta frv. og það var til þessi dómur, það var til þessi frelsun undan samningsábyrgðinni sem þeir vissu að þeir gátu hörfað til. Hvers virði er þá samningsaðferðin? Hvers virði er þá það að þurfa að standa ábyrgur gerða sinna? Hvernig halda menn að það sé samið undir slíkum kringumstæðum þegar menn vita að samningarnir eru marklaust hjal? Menn þurfa ekki að ná neinu samkomulagi niðri í Karphúsi. Alþingi bíður í startholunum og er tilbúið að leysa þá undan þessari kvöð.

Núna eru aðstæðurnar sérstaklega merkilegar þar sem líka er róið á þau mið að það sé verið að verja lífskjarasáttmálann merkilega. Hugsið þið ykkur! Eftir þær upplýsingar sem hafa borist í fyrsta lagi um mesta láglaunaland á Vesturlöndum og í öðru lagi um að hér sé fjórða hvert heimili við fátæktarmörkin eru menn að verja sáttmálann. Það hefur verið gerður sáttmáli um lægstu laun á Vesturlöndum. Það hefur verið gerður sáttmáli um að fjórða hvert heimili á landinu skuli búa við fátækt og menn eru að verja þann sáttmála. Það má ekki brjóta um það hina heilögu sátt að 20 þús. fjölskyldur á Íslandi skuli búa við fátæktarmörk. Það er svarið sem mjólkurfræðingar hafa fengið, að því er manni skilst, í þessum samningum og það yrði þá líklega svarið sem verkamaðurinn, sem talað var við í sjónvarpinu á föstudaginn, fengi ef hann færi fram á það í sínu verkalýðsfélagi, í Dagsbrún, að samþykkja ekki þessa samninga. Honum væri sagt: Við erum að verja sáttmálann sem er búið að gera um lífskjör þín, góði.

Mér þykir lágt leggjast fyrir Alþingi að grípa hvað eftir annað fram í fyrir þeim sem þó eru að vinna eftir hinni frjálsu samningahefð, mér þykir lágt leggjast fyrir Alþingi að vera þannig eins og stimpilklukka og vera tilbúið í startholunum og veita afbrigði, vera tilbúið til að gera neyðarráðstafanir til að leysa menn af hólmi þar sem þeir hafa einungis átt að bera ábyrgð á gerðum sínum og mér þykir lítið leggjast fyrir Alþingi að taka þeim rökum að hér sé verið að verja sáttmála um lífskjör. Sú ómynd, sem Alþingi kokgleypti um daginn og menn hafa kallað þjóðarsátt, er ekki þess virði að um hana sé staðinn vörður. Raunar er augljóst af viðbrögðum fólks um allt land í verkalýðsfélögum þegar blekkingarhamurinn um það að hér hafi verið farnar nýjar leiðir og þegar blekkingarhamurinn um að hér sé á ferðinni stórkostlegasta sátt, að því er manni skilst, á undanförnum áratugum, þegar hefur runnið af fólki á síðustu vikum, hvað hefur skeð. Þriðji hver ríkisstarfsmaður, sem greiddi atkvæði um þann samning sem verið er að verja núna, greiddi atkvæði gegn honum. Og í sífellt fleiri atkvæðagreiðslum hefur munurinn orðið mjórri og mjórri. Samningarnir eru m.a.s. farnir að falla í einstaka verkalýðsfélagi. Fólk er að skilja að það er ekki verið að gera sáttmála um neitt. En þó láta menn sér lynda að taka þeim rökum að það sé nauðsynlegt að verja ómerkileg fyrirheit þessarar ríkisstj. um frjálsa samninga og það trúaratriði Sjálfstfl. að menn skuli vera ábyrgir gerða sinna og frjálsir að því að semja um sína hagi. Menn taka þeim rökum að það sé verið að verja þennan sáttmála.

Ég get ekki undir neinum kringumstæðum samþykkt að þetta mál sé yfirleitt til umfjöllunar í þessum sal. Eins og ég sagði áðan er ég andvígur því að það séu veitt afbrigði til að ræða svona mál. Afbrigði eru neyðarráðstöfun sem á einungis að grípa til við sérstakar aðstæður. Þess vegna er ég andvígur því að veitt séu afbrigði. Ég er líka andvígur því að málið sé yfirleitt tekið hingað inn vegna þess að þetta mál á ekki neitt einasta erindi við þingið. Þetta mál á erindi við mjólkurfræðinga og VSÍ og þeir eiga að standa sína vakt og semja sjálfir.