24.03.1986
Neðri deild: 68. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3292 í B-deild Alþingistíðinda. (2890)

372. mál, vinnudeila Mjólkurfræðingafélags Íslands

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég átti þess kost að sitja sameiginlegan fund landbn. beggja deilda um þetta mál sem áheyrnaraðili. Ég vil lýsa afstöðu Kvennalistans til málsins.

Það sem vegur þyngst á metunum þegar við tökum afstöðu er að hér er verið að svipta hóp manna þeim mannréttindum sem felast í því að eiga verkfallsrétt. Ekkert hefur komið fram í þessu máli sem réttlætir svo alvarlega aðgerð að okkar mati.

Það kom fram á fundinum að álit mjólkurfræðinga var það að alls ekki hefði verið reynt til þrautar að semja í þessu máli, en hafði þó gengið talsvert saman á síðasta fundi og voru þeir reiðubúnir til áframhaldandi viðræðna. Augljóst er að sú aðgerð ríkisstj. að láta semja lagafrv. áður en fullreynt var um sættir og enn var eftir sáttafundur síðar þann sama dag hefur gert illt verra og er hið mesta frumhlaup.

Í 2. gr. þessa frv. hefur verið tekin ótvíræð afstaða með vinnuveitendum og Kjaradómi ekki ætlað svigrúm til að meta stöðu mjólkurfræðinga af sanngirni. Í ljós kom enn fremur á fundinum að ekki hafði verið leitað ráða annars viðsemjanda í þeim kjarasamningum sem nú eru nýgerðir, þ.e. Alþýðusambands Íslands, og hefur forseti ASÍ .lýst því yfir að hann telji þetta ótímabæra aðgerð.

Herra forseti. Kvennalistinn tók þá afstöðu til nýgerðra kjarasamninga að vera á móti þeim og flutti til þess mörg rök. Við greiddum ekki atkvæði með því frv. um efnahagsaðgerðir sem ríkisstj. bar fram í tengslum við þá. Það mætti segja að eðlilegt og rökrétt væri að við greiddum heldur ekki atkvæði um mál sem er í svo nánum tengslum við það frv. um efnahagsaðgerðir sem hér var til umræðu fyrir skemmstu. Hins vegar eru hér greidd atkvæði um þau mannréttindi sem verkfallsréttur er án þess að til þess hnígi gild rök til réttlætingar. Málatilbúnaður ríkisstj. í þessu máli er slæmur og virðist engan veginn fullreynt til sátta. Þingkonur Kvennalistans munu því greiða atkvæði gegn þessu frv.