24.03.1986
Neðri deild: 68. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3292 í B-deild Alþingistíðinda. (2891)

372. mál, vinnudeila Mjólkurfræðingafélags Íslands

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Hér er vissulega alvarlegt mál á ferðinni þegar rætt er um að svipta stéttarfélag þeim réttindum að semja um kaup og kjör. Það er út af fyrir sig ekkert nýtt að rætt sé um málefni mjólkurfræðinga hér á hv. Alþingi. Líklega hafa flestar ríkisstjórnir, flestallir þm. úr þessum svokölluðu alvörustjórnmálaflokkum á Alþingi gert ýmislegt í þá átt að þrengja kjör mjólkurfræðinga eins og fleiri vinnandi stétta í þessu landi. (Gripið fram í.) Ég hygg að formaður Verkamannasambandsins hafi eitthvað um þetta að segja. Mér heyrist það. Hann kemst vonandi að á eftir, en má eigi að síður mín vegna grípa fram í.

Vissulega er það alvörumál þegar löggjafarsamkoman telur sig þurfa að grípa inn í samninga aðila vinnumarkaðarins. Ekki er þetta síst alvörumál eftir það sem gerst hefur undangengna daga hér í landi. Við búum ekki við venjulegar kringumstæður að því er varðar launasamninga nú. Eins og menn muna og þarf auðvitað ekki að rifja upp eru ekki ýkja margir dagar síðan gerð var, eins og hv. þm. Guðmundur Einarsson orðaði það hér, þjóðarsátt um launamál milli annars vegar Vinnuveitendasambands Íslands, Vinnumálasambandsins og Alþýðusambands Íslands eða félaga innan vébanda þess. Það var vissulega merkilegt sem þar gerðist og ég hygg að engin dæmi séu eins og þar gerðust að því er varðar lausn á launadeilu. Það er að sjálfsögðu gert undir þeim kringumstæðum sem við höfðum búið við undangengin ár og búum við í dag. Við höfum búið í óðaverðbólguþjóðfélagi undangengin ár og áratugi. Við því eru menn að reyna að bregðast með því að halda á málum eins og gert var af hálfu aðila vinnumarkaðarins fyrir nokkru. Þannig gripu menn fram fyrir hendur hæstv. ríkisstj. í launamálastefnunni og efnahagsstefnunni. Það er fullsannað og fullreynt að aðilar vinnumarkaðarins, hvort sem eru í Garðastræti eða hvar sem er, tóku fram fyrir hendur á ríkisvaldi varðandi væntanlega þróun í efnahagsmálum.

Menn geta að sjálfsögðu deilt um hvort þetta hefur verið rétt gert eða ekki og um það var að vissu leyti deilt á Alþingi fyrir stuttu. Það er ekkert við það að athuga að menn hafi sínar skoðanir, séu andvígir slíku eða með. En eigi að síður er þetta orðin staðreynd. Og við hljótum að spyrja þess þegar þetta mál kemur nú fyrir Alþingi í því formi sem það nú er: Er verið að fylgja því fordæmi, sem ég fullyrði að mikill meiri hluti launafólks í þessu landi var sammála að gera tilraun með með aðalsamningnum, eða er verið að gera eitthvað annað og meira með því samkomulagi sem hér er verið að tala um, þeirri löggjöf?

Ég hygg að menn hafi líka í huga þegar menn tala um þetta mál að fjöldi annarra verkalýðsfélaga í landinu á eftir að semja. Sum aðildarfélög Alþýðusambands Íslands hafa fellt samkomulagið frá því um daginn. Þau eru að vísu ekki mörg, en eigi að síður er það staðreynd að þau hafa fellt það. Og maður hlýtur að spyrja þessarar spurningar: Hvað gerist í þeim herbúðum? Við vitum um t.d. bakarana, þeir hafa fellt samkomulagið. Starfsfólk í veitingahúsum, það hefur fellt það. Verslunarmannafélag Suðurnesja, það hefur fellt samkomulagið. Við vitum líka að flugmenn eru einhvers staðar í námunda við að fara að semja. Hvað með rafeindatæknana sem eru nánast búnir að vera í verkfalli í nokkra daga? Hvað ætla menn að gera á þessum sviðum eftir að hafa afgreitt þetta mál hér? Allt þetta blasir við og menn hljóta að spyrja sig þessara spurninga, menn sem á annað borð vilja hugsa um þessi mál og hafa á þeim tiltekna alvörugefna skoðun. Ég er þeirrar skoðunar að ríkisstj. hafi að öllum líkindum gripið hér of fljótt inn í. Ég segi að öllum líkindum því mér virðist að upplýsingar bendi til þess að ekki hafi verið fullreynt hvort samningar gætu tekist. Og vissulega á að leyfa aðilum að spreyta síg. Það var ekki stórhætta á ferðum þó að verkfall hjá mjólkurfræðingum hefði staðið einn, tvo, þrjá daga í viðbót - ég hygg að menn hefðu lifað það alveg af og það sæmilega - og látið hefði verið á það reyna hvort grundvöllur var fyrir að menn næðu saman á frjálsum grundvelli.

Hér hefur verið vitnað í forseta Alþýðusambands Íslands. Og út af fyrir sig hef ég ekkert á móti því að vitnað sé í þann glögga mann. Menn hljóta að spyrja sig þessarar spurningar: Er með þeim kröfum sem uppi voru seinni partinn í dag milli mjólkurfræðinga og þeirra viðsemjenda verið að stíga lengra, er meiri kauphækkun innifalin í þeirra kröfum en aðilar vinnumarkaðarins sömdu um fyrir nokkrum dögum síðan? Um þetta virðist menn greina á.

Hér var held ég, rétt tekið eftir, fullyrt áðan að mjólkurfræðingar gerðu kröfu um 4-5% meiri kjarabætur en láglaunafólkið fékk innan Alþýðusambands Íslands. Og við, sem svona í fjarlægð horfum til þessara hluta, hljótum að spyrja forsvarsmenn þess samkomulags sem gert var í Garðastræti um það hvort mjólkurfræðingar fari fram á meiri kjarabætur en láglaunafólkið fékk á sínum tíma. Þessu er hér með beint til þeirra sem hér geta svarað, stóðu að samkomulaginu á sínum tíma, hinu merka samkomulagi sem ég út af fyrir sig hef varið og ver enn. Þessu er beint til þeirra: Er hér verið að ganga lengra til kauphækkunar við þessa aðila en gert var fyrir þá sem verst eru settir í þjóðfélaginu?

Menn tala hér um flutningslínu. Ég er þeirrar skoðunar t.d. að flugmenn gætu farið fram á að setja flutningslínu í sinni kröfugerð og fjöldi annarra stéttarfélaga gæti haft uppi sambærilegar eða hliðstæðar kröfur. En ég hygg að eigi að síður sé það ekkert óeðlilegt að menn greini á um þetta. Það er haft eftir forseta Alþýðusambandsins - ég hef ekki heyrt það sjálfur - að hér sé ekki verið að semja um meira en gert var á dögunum. Vel má vera að það sé rétt en það skiptir kannske ekki meginmáli í þessari stöðu. Meginmáli skiptir hvort menn eru hér að grípa fram í fyrir samningaumleitunum sem enginn veit hvort hefðu leyst málið á næstu tímum eða ekki. Það skiptir, að mínu viti, kannske meira máli núna í stöðunni heldur en hitt atriðið í málinu. Hv. þm. Stefán Valgeirsson, form. og frsm. landbn., fullyrti áðan að deiluaðila greindi á um þetta, hvort fullreynt hefði verið að ná samkomulagi eða ekki. Mér sýnist, án þess að ég vilji fullyrða það, að menn hafi kannske verið einum of fljótir að grípa hér inn í.

Hv. þm. Guðmundur Einarsson sagði áðan að enn væri Alþingi að grípa til neyðarráðstafana í þessum efnum. Ég verð að viðurkenna að ég er alltaf að færast nær þeirri skoðun að ef á að rétta hlut þeirra verst launuðu í þessu þjóðfélagi verði kannske einskis annars að gera það heldur en löggjafarsamkomunnar. Mér sýnist, því miður, allt benda til þess að verkalýðshreyfingin ráði ekki við það viðfangsefni og það endi ekki vel nema því aðeins að löggjafarsamkoman sjálf grípi inn í málið.

Málið snýst auðvitað um það, sem ég vil trúa og trúi enn, að almennt hafi menn viljað standa að því samkomulagi sem gert var milli aðila vinnumarkaðarins fyrir nokkrum dögum síðan, að almennt vilji menn standa að því og vilji verja það, láta á það reyna, þó áhætta sé í því hvað kunni að gerast ef menn vilji í eitt skipti láta á það reyna hvort hér hafi verið rétt gert eða ekki. Ég get sagt það sem mína skoðun, almennt talað, að ég tel að stjórnvöld eigi að halda þannig á máli að sú leið sem þar var valin sé fetuð til loka. Því kjörorði, sem þar var sett af þeim sem samkomulagið gerðu, væri haldið. (GHelg: Það er stór hluti þjóðarinnar sem er ekki einu sinni matvinnungar.) Enn kemur rödd úr þingflokki Alþb. inn í umræðuna og það er fullkomin ástæða til vegna þessa að minna hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur á það að þingflokkur Alþb. var ekki samferða í afstöðunni til þess sem rætt var hér fyrir nokkrum dögum um heildarsamkomulagið eða þá löggjöf sem fylgdi því. Nú er ástæða til þess að spyrja: Er þingflokkur Alþb. á einni og sömu línu að því er þetta mál varðar? Af því að menn grípa hér fram í unnvörpum og biðja að sjálfsögðu um svör. (Gripið fram í.) Jú, það eru aðrir á undan þér hv. þm., þinn ágæti kollegi næstur við hliðina á þér.

Ég vil láta það koma fram að ég er kannske, því miður, að verða kominn á þá skoðun að löggjafarsamkoman verði þrátt fyrir allt að rétta hlut hinna lægst launuðu sjálf, öðruvísi verði það ekki gert, þó ég viðurkenni fullkomlega að það er að vísu nokkuð mikill skilningur á því innan verkalýðshreyfingarinnar að það þurfi að gera en eigi að síður hefur það ekki tekist í þeim herbúðum. Og ég held að menn verði að horfa raunsætt á það.

Ég vil gjarnan spyrja einn af þeim aðilum sem stóðu að Garðastrætissamkomulaginu og hér situr innan dyra: Eru mjólkurfræðingar að fara fram á meira en það sem samkomulag var gert um hjá aðilum vinnumarkaðarins núna fyrir nokkrum dögum? Ef það er meira, hversu mikið er það? Kannske er ástæða til að spyrja líka: Hver eru kjörin á þeim bæ, samanborið við kjör 1áglaunafólksins? Ég held að það eigi ekkert að fara í grafgötur með það hvað hér er í raun og veru á ferðinni. Ef menn eru sannfærðir um að rétt hafi verið haldið á samningunum hjá ASÍ og VSÍ eiga menn að halda áfram að verja það samkomulag og í raun og veru ekki að hleypa neinum, sem hefur meira en þeir lægst launuðu fengu, lengra en það samkomulag gerir ráð fyrir.

Ég held því að það hefði verið rétt hjá hæstv. ríkisstj. að doka aðeins við í þessum efnum, rasa ekki um ráð fram, að því er þetta mál varðar, láta á það reyna. Og ég er viss um að hefðu menn verið það raunsæir að láta málið fara þá leið hefði almenningur í landinu verið miklu jákvæðari gagnvart Alþingi þó það kynni að grípa inn í á síðari stigum máls ef allar aðrar dyr lokuðust.

Ég skal ekki, herra forseti, hafa öllu fleiri orð um þetta þó full ástæða væri til þess að ræða svona mikið alvörumál lengur en hér kann að verða gert. En ég vil að lokum segja það að mér finnst að ýmsir hv. stjórnarliða taki þetta mál ekki alvarlega. Afbrigði fyrir málinu eru samþykkt með 21 atkvæði. Það er helmingur hv. þingdeildarmanna sem samþykkir afbrigði fyrir þessu máli og innan þess helmings eru stjórnarandstæðingar líka. Mér finnst allt of mikið bera á því, burtséð frá öllum efnisatriðum að því er þetta mál varðar og raunar fleiri sem hafa farið í gegnum Alþingi undangengið, að menn láti málin afskiptalaus, þau fari hér meira og minna í gegnum þingið með minni hluta atkvæða í þingdeild. Það sýnir auðvitað viðhorf þm. sem láta það líðast að stórmál séu þannig afgreidd á Alþingi. Hér er vissulega um stórmál að ræða og ekki bara fyrir þá aðila sem hér eiga hlut að máli, þá á ég við Mjólkurfræðingafélagið. Þetta mál getur skipt miklu, miklu fleiri verkalýðsfélög í landinu máli heldur en þetta eina félag. Og það skiptir miklu máli hvernig á slíkum málum er haldið, hvernig þau ber að og hvernig hv. þm. taka afstöðu til svona stórmála.

Ég vænti þess að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, sem ég ber mikið traust til, upplýsi þingdeildina um það hvort hann telur að mjólkurfræðingar séu að fara fram á meira í sínum kröfum en hann samdi sjálfur um fyrir sína umbjóðendur í Garðastræti fyrir nokkrum dögum. Það skiptir mig æðimiklu máli að fá vitneskju um það hvert álit hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar, formanns Verkamannasambandsins, í þessum efnum er. Við höfum, að hér er sagt, álit forseta Alþýðusambands Íslands og það skiptir líka máli að fá upp viðhorf formanns Verkamannasambands Íslands.