16.10.1985
Sameinað þing: 3. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í B-deild Alþingistíðinda. (29)

Tilkynning frá forsætisráðherra um breytingar á ríkisstjórninni

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Þetta þing hefst með óvenjulegum hætti. Þingstörf tefjast vegna þess að ráðherrar Sjálfstfl. skipta allir um hesta í miðri á um leið og formaður gerist loks meðreiðarsveinn í ríkisstjórnarliðinu. Það hefur íslenskum hestamönnum aldrei þótt snjallræði en þetta er nú kallað að gefa ríkisstjórninni nýjan svip og styrkja hana í sessi. Flestir vita þó að menn breytast ekki ýkja mikið við að skipta um sæti og eitthvað sýnist manni sami frjálshyggjusvipurinn á hrossunum og áður. Það eru heldur engar yfirlýsingar um það að stefna stjórnarinnar eigi að breytast þótt skipt sé um sæti. Og hverjum er svo ætlað að trúa því að einn maður ráði úrslitum um hæfni heillar ríkisstjórnar og velgengni hennar? Þessi draumur um sterkan leiðtoga tilheyrir liðinni tíð. Hann er tímaskekkja að mínu mati, nú þegar manneskjur gera vaxandi kröfur um þátttöku og virkni til að móta samfélag sitt sjálfar. Þetta skref og þær væntingar sem við það eru bundnar er því ekki í takt við tímann.

Þetta er ekki auðveld ráðstöfun fyrir ráðherrana sem á s.l. tveimur árum hafa væntanlega varið tíma sínum til þess að setja sig inn í málaflokka ráðuneyta, haft frumkvæði að verkefnum sem eru varla hálfunnin, myndað persónuleg tengsl og eru rétt að verða kunnugir innanbúðar í ráðuneytum sínum. Þeim er nú ætlað að byrja sama leikinn aftur og sér hver maður hver rof verða á starfi þeirra og má spyrja hvernig framlag þeirra nýtist þjóðinni við það. En kannske eru ráðuneytin sjálfrekin og þetta skiptir litlu máli. Þó má ekki gleyma því - hæstv. fjmrh. minntist á það áðan - að þeim væri ekki ætlað að vera sérfræðingar í sínum ráðuneytum, en það má ekki gleyma því að þeir hafa mjög sterkan íhlutunarrétt um málefni ráðuneytanna þótt þeir séu ekki og verði aldrei sérfræðingar.

Eitt er að við þessi skipti verða allir ráðherrar Sjálfstfl. jafnvígir hinum nýja fjmrh., jafnóreyndir á sínu sviði og kemur það honum vel. Annað er alvarlegra en það er að nýir ráðherrar verða ólíklegri til að verja hina nýju málaflokka sem þeim hafa verið úthlutaðir vegna þess að þeir hafa ekki haft tíma til að kynna sér þá. Sá niðurskurður sem er boðaður verður því harðari og e.t.v. ómarkvissari og lendir ekki endilega þar sem hann yrði best þolaður. Niðurskurðurinn verður því auðveldari fyrir hinn nýja fjmrh. En hvernig getur hæstv. fjmrh. haldið því fram, og ég vitna til svars hans til hv. 7. landsk. þm., að honum þyki þessi tími eðlilegur til að stokka upp ríkisstjórnina? Er réttlætanlegt að tefja þingstörf vegna innanbúðarvanda eins flokks?

Þessi leikur með sætaskiptin dregur athygli fólks frá því sem er mun alvarlegra en það er fátækt þessarar ríkisstj. af hugmyndum til úrlausna á þeim vanda sem við blasir. Það er ekki nóg að leika svona gagnsæ töfrabrögð fyrir þjóðina, það þarf nýja stefnu í málum íslensku fjölskyldunnar sem í reynd tryggir velferð hennar jafnt inni á heimilum eins og í þjóðarbúinu í heild sinni. Sú aðferð sem þessi stjórn hefur beitt hingað til, þ.e. að leysa efnahagsvanda með því að auka mannlegan vanda, er óviðunandi. Við þurfum nýja mannúðlega stefnu, ekki léleg töfrabrögð og tímaeyðslu eins og nú í vangaveltur um valdastyrk nokkurra karla. Karla sem ekki gegna kalli tímans.

Ég óska engum til hamingu með þessi skipti en öllum óska ég velfarnaðar bæði ráðherrum og þjóðinni.

Ég var einu sinni spurð hvort mér þætti karlmennskublær ríkjandi í sölum Alþingis og ég svaraði þá og ég óska þess enn að í þeim blæ sem leikur um sali Alþingis væri minna af karli og meira af mennsku. Þess þarfnast þjóðin nú.