24.03.1986
Efri deild: 65. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3300 í B-deild Alþingistíðinda. (2901)

372. mál, vinnudeila Mjólkurfræðingafélags Íslands

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Það er óneitanlega harla sérkennilegt mál sem hér er á ferðinni. Það á svo að heita að í landi okkar ríki félagafrelsi og frelsi stéttarsamtaka til að semja um launakjör sín. Sem betur fer er það afar sjaldgæft að stéttarfélög séu svipt samningsrétti sínum þótt óneitanlega hafi það gerst oftar í tíð þessarar ríkisstjórnar en í tíð nokkurrar annarrar ríkisstjórnar um langt skeið.

Þegar það hefur gerst að stéttarfélög eru svipt samningsrétti sínum hefur það verið rökstutt með því að þjóðarhagsmunir krefðust þess að svo væri gert vegna þess að einhver mikil hætta steðjaði að ef verkfallsaðgerðir yrðu ekki stöðvaðar. Þekktasta og helsta dæmi þessa er auðvitað þegar hætta hefur verið talin á því að samgöngur við önnur lönd legðust niður. Þá hafa ríkisstjórnir stundum gripið til þess ráðs að fá Alþingi til að grípa inn í viðkomandi kjaradeilu. En það er sérstaklega eftirtektarvert í þessu máli að nú er lagt bann við aðgerðum löglegs verkalýðsfélags, sem leitast við að ná rétti sínum með fullkomlega eðlilegum og löglegum hætti, án þess að það sé rökstutt með því að einhver sérstök hætta sé á ferðum eða svo gífurlegir hagsmunir séu í húfi að undan þessu verði ekki vikist.

Bann við verkfalli Mjólkurfræðingafélags Íslands og það frv. til laga um lausn á vinnudeilu Mjólkurfræðingafélagsins, sem hér er til umræðu, er alls ekki rökstutt fyrst og fremst með því að svo miklir hagsmunir séu í húfi að verðmæti gætu eyðilagst, þó vissulega eigi það við í þessu tilviki að einhverju marki. Þeir sem hlustuðu t.d. á framsöguræðu hæstv. landbrh. hér áðan munu vafalaust hafa tekið eftir því að hann rökstuddi mál sitt á allt, allt annan hátt. Hver voru hans aðalrök? Þau voru nefnilega ekki að hella þyrfti niður mjólk sunnlenskra bænda, sem maður gæti nú kannske ímyndað sér að væri honum efst í huga. Nei, aðalrök hans voru ósköp einfaldlega þau að ef Mjólkurfræðingafélag Íslands fengi eitthvað það út úr þeim samningaviðræðum, sem félagið stendur í, eitthvað meira en verkalýðsfélögin fengu flest út úr nýfrágengnum kjarasamningum, ja, þá væri bara hætta á því að jafnvel fleiri verkalýðsfélög fylgdu í kjölfarið. Þetta er hættan sem er sögð við blasa. Þess vegna hlýtur maður að spyrja sjálfan sig að því: Af hverju gengur ekki ríkisstj. hreint til verks í þessu máli úr því að þetta eru aðalrökin? Af hverju gengur ekki ríkisstj. hreint til verks og flytur hér frv. um löggildingu nýgerðra kjarasamninga þar sem væntanlega væri þá eitt samningsákvæði sem bannaði öllum verkalýðsfélögum í landinu, sem ekki væru aðilar að þessum samningum, að semja um nokkuð annað en það sem þar samdist um? Því það er einmitt það sem verið er að gera með þessu frv., með þessari lagasetningu. Hæstv. ráðh. kemur hér í ræðustól og segir þetta bara skýrt og ákveðið þannig að allir hlutu að skilja.

Aðalástæðan fyrir því að ríkisstj. velur þessa leið er sú að það er verið að koma í veg fyrir það að eitt verkalýðsfélag geti náð nokkrum öðrum árangri í kjaradeilu en þeim sem Alþýðusamband Íslands samdi um nú fyrir skemmstu. Er það þá ekki bara nákvæmlega það sama og að setja hér lög um það að allir aðrir kjarasamningar en þeir, sem voru gerðir nú á dögunum, séu forboðnir að viðlögðum refsingum? Jú, auðvitað er það niðurstaðan af þessari frumvarpssmíð.

Við vitum að ákveðnir hagsmunir eru í húfi þegar verkfall er gert. Það er alltaf hætta á eyðileggingu verðmæta. Og ég viðurkenni fúslega að það ástand sem skapast við verkfall mjólkurfræðinga er ekkert þægilegt fyrir heimilin í landinu og heldur ekkert þægilegt fyrir bændur sem hugsanlega yrðu fyrir tjóni. En við verðum hins vegar að gera okkur grein fyrir því að þessi óþægindi og þetta tjón er svo sem ekkert öðruvísi en gengur og gerist í kjaradeilum almennt. Það er ákaflega sjaldan að kjaradeila veldur ekki einhverjum óþægindum fyrir fólkið í landinu og fyrir þá aðila sem þar eiga hlut að máli.

Launamennirnir, sem í deilunni standa, verða fyrir stórfelldum tekjumissi sem getur komið sér mjög illa fyrir þá, valdið þeim stórkostlegum vanda. Atvinnurekendur verða fyrir miklum tekjumissi líka. Og stundum eru verðmæti í hættu. Það á við í þessari kjaradeilu eins og öðrum. En það hafa hins vegar ekki verið færð nein rök að því að hagsmunirnir, sem eru í húfi nú, séu neitt meiri og voðalegri en gengur og gerist þegar kjaradeilur almennt standa. Það staðfestir það, sem maður hafði augljóslega grun um, að tilgangur þessa frv. væri ekki sá að forða verðmætum frá eyðileggingu heldur ósköp einfaldlega að koma í veg fyrir það að eitt ákveðið stéttarfélag næði örlítið skárri árangri í kjaradeilum en fékkst hér á dögunum í samningum Alþýðusambandsins við Vinnuveitendasamband Íslands. Og ég vek sem sagt athygli á því að þetta var staðfest hér áðan í ræðu hæstv. ráðh. og liggur nú fyrir sem meginástæða þessa máls.

Ég held að allur aðdragandi að þessari lagasetningu sé líka þess eðlis að við hljótum að staldra við. Það leið ekki nema ein klst. frá því að deiluaðilar fjölluðu um tilboð Mjólkurfræðingafélags Íslands og því var hafnað þangað til málið var lagt hér fyrir Alþingi til endanlegrar úrlausnar. Það var ekki mikið verið að kanna það rækilega í frekari viðræðum aðila hvort ekki væri þarna samningsflötur á málinu. Og það var ekki mikið verið að ræða það í ríkisstj. hvort þetta tilboð mjólkurfræðinga skapaði ekki nýjar aðstæður í málinu, breytti eðli þess, þannig að ástæða væri til að doka við með flutnings þessa frv., því allir þeir, sem til þekkja í þessu máli, vita að kringumstæður voru allt aðrar seinni part dagsins í þessu máli en þær höfðu verið í morgun. Þá lágu fyrir miklu meiri, fleiri og stærri kröfur af hálfu mjólkurfræðinga en aftur á móti lágu fyrir í eftirmiðdaginn. Því það hefur upplýst, það hefur verið staðfest að það stóð ekki eftir nema ein krafa, sem um var deilt, og það var krafa mjólkurfræðinga um fæðis- og flutningskostnað til samræmis við það sem ýmsir aðrir starfsmenn í mjólkurbúum hafa og flestir starfsmenn á vinnumarkaðnum hafa.

Við erum að setja hér lög sem grípa inn í kjaradeilu í þeim eina tilgangi að koma í veg fyrir það að mjólkurfræðingar fái réttindi sem meginþorri starfsmanna á vinnumarkaðnum hefur fengið fyrir löngu. Og er þá ekki nokkuð langt gengið?

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að tefja framgang þessa máls. Það virðist vera vonlaust mál, það er búið að ákveða að það skuli ná fram að ganga. Það er ástæðulaust að hafa þessa umræðu allt of langa, auk þess sem þetta er 1. umr. og frekara tækifæri gefst til að ræða málið við 2. og 3. umr. En ég vil sem sagt mjög alvarlega vara við þessu máli, ekki einungis vegna efnis frv., heldur vegna þess hroðalega fordæmis sem það skapar. Ég sé ekki betur en að ríkisstj. hljóti að teljast tilneydd, ef hún skapar sjálfri sér þetta fordæmi, að koma með frv. af þessu tagi í hverju einasta deilumáli sem upp kemur á vinnumarkaðnum á næstu vikum og mánuðum, ef hún á að vera sjálfri sér samkvæm. Það eru ýmsar kjaradeilur í uppsiglingu eins og við þekkjum, m.a. hjá starfsfólki veitingahúsa, svo eitt dæmi sé nefnt, og hjá ýmsum öðrum aðilum. Er það virkilega ætlun núverandi ríkisstj. að grípa inn í hverja einustu kjaradeilu af þessu tagi áframhaldandi, einungis vegna þess að þar er hugsanlega fjallað um einhver þau réttindamál, sem ekki var samið um í kjaradeilunni stóru, sem lauk nú fyrir skemmstu með samningi Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins?

Þessi afgreiðsla málsins er ekki aðeins fordæmi fyrir núverandi ríkisstj. Ég leyfi mér að fullyrða að hér er verið að opna dyr til íhlutunar um málefni aðila vinnumarkaðarins sem hafa verið lokaðar fram til þessa. Menn hafa ekki leyft sér að koma hér fram á Alþingi og rökstyðja íhlutun um málefni vinnumarkaðarins með því einu að verið sé að fjalla þar um samningsatriði sem einhverjir aðrir aðilar á vinnumarkaðnum höfðu ekki komið sér saman um - og er þó reyndar í þessu tilviki um að ræða réttindamál sem mjög margir starfsmenn á vinnumarkaðnum hafa þegar fengið, líklega allur þorri launamanna.

Þess vegna ítreka ég það sem í þessum orðum mínum felst. Þetta er mjög alvarlegt fordæmi sem hér er verið að skapa. Þetta er alvarleg aðför að samningsrétti launamanna í þessu landi og félagafrelsi, að ætla sér að svipta verkalýðsfélag samningsrétti með svo hæpnum rökstuðningi. Við Alþýðubandalagsmenn erum algjörlega andvígir þessu frv. og munum greiða atkvæði gegn því.