24.03.1986
Efri deild: 65. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3306 í B-deild Alþingistíðinda. (2904)

372. mál, vinnudeila Mjólkurfræðingafélags Íslands

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Enn þá einu sinni stöndum við hér um miðja nótt í hv. Ed. önnum kafin við að sinna þeim óskemmtilegu störfum að ræða frv. til laga um verkfallsbann, í þetta skipti verkfallsbann á mjólkurfræðinga. Þann 24. okt. á s.l. hausti, fyrir réttum fimm mánuðum upp á dag, stóðum við í þessari sömu hv. deild og ræddum um miðja nótt um verkfallsbann á flugfreyjur. Á þessum fimm mánuðum hefur afstaða mín til slíkrar lagasetningar ekki breyst eina spönn. Ég er alfarið á móti því að menn séu sviptir þeim sjálfsögðu mannréttindum, þeim sjálfsögðu lýðréttindum sem felast í því að eiga rétt á að semja sjálfir um kaup sitt og sín kjör og ef það ekki tekst að hafa þá verkfallsrétt upp á að hlaupa.

Í því máli sem hér liggur nú fyrir hefur ekkert komið fram sem réttlætir svo alvarlega aðgerð og eins og einn ræðumaður sem hér hefur talað á undan mér, hv. 3. þm. Norðurl. v. ef ég man rétt, benti á kunna eftirmál þessa máls og þess máls sem ég minntist á áðan, þegar verkfallsbann var sett á flugfreyjur, að verða býsna mikil því að viðbúið er að fleiri stéttir komi í kjölfarið og að beita verði lagasetningu til að halda því striki sem hæstv, ríkisstj. hefur tekið með þessu frv.

Eins og fram kom í umræðum í Nd. fyrr í kvöld mun það hafa komið fram á fundi landbn. beggja deilda um kvöldmatarleytið að alls ekki hafði verið reynt til þrautar að semja í þessu máli. Á síðasta samningafundi hafði gengið talsvert saman á milli deiluaðila og voru mjólkurfræðingar, eftir því sem mér er tjáð, reiðubúnir til áframhaldandi viðræðna. En hver voru viðbrögð hæstv. ríkisstj. í þessari stöðu? Hún hafði tilbúið frv. til laga um verkfallsbann. Það var þegar komið í prentvélarnar uppi í Gutenberg. Það er augljóst að sú aðgerð ríkisstj. að láta semja lagafrv. áður en fullreynt var um sættir í málinu og á meðan enn var eftir sáttafundur hefur gert illt verra og er án nokkurs vafa hið mesta frumhlaup í þessu máli.

Enn fremur kom fram í umræðunum í Nd. að ekki hafði verið leitað ráða annars viðsemjandans í þeim kjarasamningum sem nú eru nýgerðir, en til þeirra er jafnan vísað sem helstu réttlætingar fyrir þessu frv., þ e. ekki hafði verið leitað ráða hjá Alþýðusambandi Íslands og hefur forseti Alþýðusambandsins lýst því yfir að hann telji þetta ótímabæra aðgerð. Það má því ljóst vera að hér hefur verið flanað og gengið þjösnalega fram í viðkvæmu máli og gengið á einn grundvallarrétt frjálsra manna, verkfallsréttinn, án þess að til þess hnígi nokkur frambærileg rök til réttlætingar.

Hér verða á eftir greidd atkvæði um mannréttindi og í þeirri atkvæðagreiðslu mun mitt atkvæði falla mannréttindamegin. Ég mun greiða atkvæði gegn þessu frv.