25.03.1986
Sameinað þing: 64. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3316 í B-deild Alþingistíðinda. (2924)

283. mál, sláturhús á Fagurhólsmýri

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Austurl. hefur gert grein fyrir fsp. sem hann ber fram til mín um starfsleyfi fyrir sláturhús á Fagurhólsmýri.

Eins og hv. alþm. er kunnugt eru það sláturleyfishafar sem reisa og reka sláturhús. Kaupfélag Austur-Skaftfellinga hefur rekið sláturhús á Fagurhólsmýri um 20 ára skeið og af þeim sökum var þessi fsp. send til félagsins til að fá upplýsingar um viðhorf þess til framhalds þessa rekstrar. Svar við því hefur ekki borist enn þá og get ég því ekki byggt mitt svar á upplýsingum frá sláturleyfishafa.

Fyrirspyrjandi las hér upp þál. sem samþykkt var á Alþingi 1984. Samkvæmt henni skipaði ég þriggja manna nefnd til þess að gera úttekt á rekstri sláturhúsa og betri nýtingu á þeim. Nefndin hefur unnið að ítarlegum athugunum á rekstri húsanna. Á s.l. hausti munu öll húsin hafa verið heimsótt, athuguð og skoðuð. Nefndin er að vinna úr þessum gögnum en hefur ekki enn þá skilað áliti. Ég vonast til að það muni liggja fyrir sem allra fyrst og þá um leið að þær tillögur sem nefndin gerir verði gagnlegar til að marka stefnu um hagkvæmari rekstur húsanna sem verði þá bæði sláturleyfishöfum og öðrum sem um þetta mál fjalla mjög gagnlegar.

Ég tel sjálfsagt að landbrn. reyni að hafa náið samstarf við sláturleyfishafa um það á hvern veg verður brugðist við og leitað leiða til þess að gera þennan rekstur hagkvæmari sem vissulega er mjög brýn þörf á. En meðan þessi greinargerð liggur ekki fyrir get ég ekki tjáð mig um á hvern hátt verður brugðist við með einstök hús og alls ekki meðan ekki er heldur fengin umsögn frá sláturleyfishöfum sem nauðsynlegt er að sjálfsögðu að hafa samvinnu við um framkvæmdir málsins.

Hv. fyrirspyrjandi vitnaði hér einnig í bréf frá Sauðfjárveikivörnum vegna sérstöðu Öræfa þar sem ríða hefur ekki fundist þar. Vil ég taka undir það hversu mikilvægt það er að hafa sauðfjárstofn í landinu sem örugglega er laus við þann sjúkdóm og fleiri sem herjað hafa á sauðfjárstofninn. Hins vegar er ekki sterkt að orði kveðið í þessu áliti Sauðfjárveikivarna þar sem talið er að æskilegt væri að hægt væri að starfrækja vel búið sláturhús á Fagurhólsmýri. Þetta álit sauðfjársjúkdómanefndar hafði ekki verið sent til landbrn. á sínum tíma og því hefur ekki verið fjallað neitt um það þar. En ég vil ítreka að það er nauðsynlegt að gera þær ráðstafanir sem talið er að geti stuðlað að því að koma í veg fyrir að sjúkdómar berist milli svæða og þá sérstaklega til þeirra svæða sem laus eru við þennan sjúkdóm.