25.03.1986
Sameinað þing: 64. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3317 í B-deild Alþingistíðinda. (2925)

283. mál, sláturhús á Fagurhólsmýri

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans svo langt sem þau ná. Eins og þar kom fram hefur ráðuneytið ekki enn markað stefnu í þessu máli en úttekt hefur verið gerð á húsunum. Ég vil vekja athygli á því að hér er í rauninni skammur tími til stefnu að taka á málefnum þessa tiltekna sláturhúss á Fagurhólsmýri með tilliti til umsagnar frá héraðsdýralækni og vonandi verður þessi umræða til þess að það verði gert fyrr en seinna.

Ég vek einnig athygli á því hversu brýnt það er við núverandi aðstæður í sveitum landsins, og það á ekki síst við um þá sveit sem hér um ræðir, Hofshrepp, að skjóta sem flestum fótum undir atvinnustarfsemi. Rekstur sláturhúss þar innan sveitar hefur verið gildur þáttur í atvinnu manna og aukaþáttur í atvinnu manna og varðar því miklu að það takist að halda þessari starfsemi í heimabyggð.

Ég tel að sauðfjárveikivarnaþátturinn sé þarna mjög gildur og skýr röksemd fyrir því að halda þessari starfrækslu áfram innan sveitar í Öræfum og það varði marga fleiri en þá sveit, þá sem þurfa á heilbrigðum fjárstofni að halda.

Ég vænti þess að hæstv. ráðherra greiði fyrir þessu máli og reyni að fá á því úrlausn í samvinnu við þá aðila sem eðlilegt er að ræða við í sambandi við farsæla úrlausn.