25.03.1986
Sameinað þing: 64. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3322 í B-deild Alþingistíðinda. (2937)

352. mál, Greiningar og ráðgjafastöð ríkisins

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að deila efnislega um þetta mál. Ég vil vekja athygli á því að það eru aðeins þrír mánuðir síðan Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins í Kjarvalshúsi tók til starfa undir félmrn. Þetta er baráttumál sem lengi hefur verið unnið að og þetta er samkvæmt ákvörðun Alþingis fyrsti áfangi í því að byggja upp greiningar- og ráðgjafarstöð í málefnum fatlaðra sem er undirstöðuatriði í sambandi við framtíðarlausn þessara mála. Ég efast ekkert um að hv. síðasti ræðumaður gleðst með mér og fleirum yfir því að þessum áfanga skuli vera náð og að þarna er komið til starfa mjög hæft fólk sem mikils er að vænta af í framtíðinni.

Ég ætla ekki að fara að ræða um fjárhagsmálefni fatlaðra. Það þarf ekki annað en líta í opinberar skýrslur um það hver sá árangur er. Það hefur verið stöðugt veitt auknu fjármagni í þennan málaflokk og verður svo áfram. A.m.k. hef ég ekki rekið mig á neina fyrirstöðu og tel að menn séu sammála um að láta þennan málaflokk hafa forgang í þessari uppbyggingu.