25.03.1986
Sameinað þing: 64. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3323 í B-deild Alþingistíðinda. (2939)

324. mál, hringrot í kartöflum

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. e. hefur borið fram fsp. um hringrot í kartöflum. Ég óskaði eftir upplýsingum um þetta mál frá Sigurgeir Ólafssyni, sérfræðingi í jurtasjúkdómum, sem er okkar færasti sérfræðingur á þessu sviði og vinnur einmitt við þessi mál hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Hann hefur verið mjög önnum kafinn við að rannsaka þennan sjúkdóm síðustu vikurnar, en lét mig samt hafa örstutta grg. sem er svör við þessum tveimur spurningum.

Við þeirri fyrri, „Hafa verið gerðar ráðstafanir til að hindra útbreiðslu á hringroti í kartöflum?", er svarið að með reglugerð nr. 126/1986, um sölu og dreifingu á kartöfluútsæði, er reynt að sporna gegn frekari útbreiðslu hringrots. Hringrot berst einkum á milli með útsæði og við samnýtingu véla. Reglugerðin kemur í veg fyrir að útsæði frá hringrotsbæjum fari í almenna dreifingu. Reyndar er framleiðanda, sem hefur fengið hringrot í uppskeru sína, einungis heimilt að afhenda útsæði til ræktanda innan sama hrepps og því aðeins að viðkomandi eigi við sama vandamál að etja.

Rannsóknastofnun landbúnaðarins hefur nú skoðað kartöflur hjá um 40 framleiðendum á Norðurlandi og þremur á Suðurlandi sem hyggja á útsæðissölu á vori komanda. Á næstunni verða framleiðendur á Suðausturlandi heimsóttir. Ráðuneytið mun einungis heimila þeim að selja útsæði sem fá jákvæða umsögn.

Við síðari spurningunni, „Hefur verið leitað álits sérfræðinga um hvaða leiðir séu vænlegastar til að útrýma þessum sjúkdómi?", er svarið: „Hringrot hefur nú fundist á tæplega 50 bæjum á Suðurlandi. Flestir þeirra eru í Djúpárhreppi, Villingaholts- og Gaulverjabæjarhreppi. Á þessu svæði fer fram meira en helmingur af kartöfluframleiðslu landsmanna. Til að útrýma hringroti þarf að leggja niður kartöfluræktun helst tvö ár, sótthreinsa vélar og geymslur og byrja síðan með heilbrigt útsæði. Það er því ljóst að sjúkdómnum verður ekki útrýmt nema með samræmdum aðgerðum yfir lengri tíma.

Það er mikilvægast að tryggja fyrst ræktun á heilbrigðu útsæði. Nefnd skipuð af ráðherra, og í henni eru Sigurgeir Ólafsson, Magnús Óskarsson og Ólafur G. Vagnsson, mun fyrir haustið skila tillögum að reglugerð um ræktun og sölu á kartöfluútsæði. Framleiðendum, sem fengið hafa hringrot til sín, hefur verið ráðlagt fyrst í stað að ná smitmagni niður með því að skipta útsæði sínu út í áföngum og beita sótthreinsun til að hindra enn frekari útbreiðslu. Reikna má með að betri mynd fáist af hinni raunverulegu útbreiðslu sjúkdómsins að loknum þeim rannsóknum sem nú eru í gangi.

Eins og kemur fram í svari Sigurgeirs er um mjög umfangsmikla aðgerð að ræða að útrýma hringroti algerlega og því er það mat hans að þetta verði að taka í áföngum til að það sé viðráðanlegt kostnaðar vegna. Ég mun leggja áherslu á það hér eftir sem hingað til að reyna að framkvæma tillögur hans sem ég tel að séu mjög raunsæjar. Hann er sá sérfræðingur sem er best kunnugur þessum málum og nýtur álits kartöfluframleiðenda.