25.03.1986
Sameinað þing: 64. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3325 í B-deild Alþingistíðinda. (2943)

335. mál, byggingarkostnaður nýs útvarpshúss

Menntmrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég leitaði upplýsinga hjá fjármálastjóra Ríkisútvarpsins vegna þessara fsp. og hljóða þær á þennan veg:

Í fyrsta lagi: Heildarkostnaður við bygginguna á framreiknuðu verði til ársloka 1985 er 392 132 515 kr. Sem svar við 2. lið fsp. tek ég fram: Áætlað er að útvarpshúsið kosti fullbúið 829 millj. kr. og er þá miðað við núgildandi byggingarvísitölu 250 stig.

Og sem svar við 3. lið fsp. tek ég fram: Byggingarframkvæmdir hafa til þessa verið kostaðar af Framkvæmdasjóði Ríkisútvarpsins. Auk þess hafa um 35 millj. kr. fengist sem skammtímalán hjá Landsbanka Íslands. Óskir Ríkisútvarpsins um lántökuheimild hafa verið bornar fram við menntmrn. og fjvn. Alþingis. Áætluð byggingarlok eru á miðju ári 1988. Fjárþörf 1986-1988 er 437 millj. kr. Framkvæmdasjóður stendur undir um 250 millj. kr. af þeirri fjárhæð. Lántaka umrædd tvö og hálft ár þyrfti því að verða um 187 millj. kr. sem endurgreiðast á árunum 1989-1991.