25.03.1986
Sameinað þing: 64. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3326 í B-deild Alþingistíðinda. (2946)

335. mál, byggingarkostnaður nýs útvarpshúss

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það er mjög stutt athugasemd. Það er of seint að gera mikið í þessu máli vegna þess að útvarpið er auðvitað þegar að hluta til flutt inn í þetta hús. Í öðru lagi var margsinnis á það bent innan stofnunarinnar hverja reginvitleysu væri verið að gera með því að flytja sjónvarpið í þetta hús. Á það var aldrei hlustað og því verður því miður ekki breytt núna. Það hefði verið ástæða til að standa allt öðruvísi að þessum hlutum. Ég læt í ljós efasemdir um að þetta hús henti til breytinga í smáíbúðir, en það mætti sjálfsagt nota það til einhverra annarra hluta. En auðvitað verður útvarpið þarna til húsa. Það voru mistök að flytja sjónvarpið þangað líka eins og á að gera. Það verður feiknarlega dýrt. Ég á eftir að sjá að sala hússins við Laugaveg 176 geri mikið meira en að vega upp á móti kostnaði við flutningana. Þarna hafa verið gerð mistök á mistök ofan, en því miður er orðið of seint fyrir hið háa Alþingi að gera nokkuð í því máli.