25.03.1986
Sameinað þing: 65. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3327 í B-deild Alþingistíðinda. (2950)

Framkvæmd framfærslulaga

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég hef óskað eftir umræðum á hinu háa Alþingi um útgáfu skömmtunarseðla til þeirra sem aðstoðar leita vegna þess ástands sem nú ríkir í kjaramálum eftir hina harkalegu aðför að launafólki í tíð núv. ríkisstj. og nú síðast eftir heldur lágkúrulega sáttargerð verkalýðshreyfingarinnar við þá sömu ríkisstjórn. Við. blasir að fjórðungur íslenskra framfærenda er ekki lengur fær um að sjá sér og sínum farborða á þann veg að boðlegt geti talist.

Á málþingi Samtaka félagsráðgjafa, sem nýlega var haldið, kom fram að styrkþegum fjölgaði hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar um 30% á árunum 1982-1984. Engum þarf að koma á óvart að æ fleiri leita til hins opinbera í neyð sinni þar sem laun eru langt undir framfærslukostnaði og um 54% af fjölskyldutekjum fara í þann kostnað einan að hafa þak yfir höfuðið hafi menn fest sér húsnæði á síðustu fimm árum. Erlendis eru 25% fjölskyldutekna talin hámarksgeta fjölskyldu til greiðslu húsnæðis. Ljóst er að einstæð foreldri, sjúklingar, lífeyrisþegar og lægst launaðir verkamenn og konur lifa langt undir þeim lífsstaðli sem nútíma menningar- og velferðarþjóðfélög telja sjálfsagðan. Í stuttu máli lifir þetta fólk við grimmilega fátækt sem veldur versnandi heilsufari, vaxandi erfiðleikum hjá börnum og unglingum og upplausn fjölskyldna. Alvarlegum barnaverndarmálum fjölgaði um 95% í Reykjavík á árunum 1982-1984 og sjálfsvíg hafa stóraukist. Fjölda innlagna á geðdeildir hér í Reykjavík má rekja til örvæntingar sjúklinga yfir því að geta ekki skapað fjölskyldum sínum mannsæmandi tilveru.

Í ræðu á áðurnefndri ráðstefnu sagði Ásmundur Stefánsson forseti ASÍ, með leyfi hæstv. forseta: „Þeir fátæku eru sjaldnast stoltir af sjálfum sér.

Fátækt er ekki tákn um afrek og árangur. Fátækt fylgja oft heilsubrestur og félagsleg vandamál eða hún er afleiðing af slíkum aðstæðum og þeir fátæku eru minnihlutahópur. Þá skortir sjálfstraust og frumkvæði, geta ekki í krafti fjölda eða aðstöðunnar vegna tekið til sín rétt sinn. Því verðum við að sýna þeim samstöðu, samstöðu sem ekki er nægjanleg í þjóðfélaginu og skortir einnig í verkalýðshreyfingunni. Því verða þeir undir.“

Og þetta er kjarni málsins. Fátt er eins niðurlægjandi og það að ná ekki að framfæra sig og sína á þann hátt að fjölskyldan fái þrifist. Það eru hverri vinnandi manneskju þung spor að þurfa að leita til Félagsmálastofnunar til að fá styrk til að reka heimili sitt. Að ekki sé talað um þá sem gert er að lifa af greiðslum almannatrygginga. Veikist launþegi t.d. fær hann sjúkradagpeninga sem nú eru, og ég bið hv. þm. að hlýða á mál mitt, 247 kr. á dag og 67,05 kr. fyrir hvert barn á framfæri. Ég vil taka það fram að það kostar 25 kr. í strætisvagn í Reykjavík. Vill hið háa Alþingi hugsa um hvernig sjúklingur í þessari stöðu stendur straum af húsnæðiskostnaði og heimilisrekstri eða ellilífeyrisþeginn af sínum 16 826 kr.? Þetta fólk hlýtur að leita opinberrar aðstoðar.

Í framfærslulögum frá 1947 segir svo í 1. málsgr. , með leyfi forseta:

„Framfærslustyrk skal veita hverjum þeim manni sem sökum fátæktar, vanheilsu, atvinnuskorts eða af öðrum orsökum getur eigi aflað sér þess er sjálfur hann og skyldulið hans má eigi án vera til lífsframfærslu, og telst þar til læknishjálp og hjúkrun í veikindum, enda verði eigi bætt úr þörf hans á annan hátt.“

Það hefur orðið ljóst af fréttum að fjárframlög til félagsmálastofnana hafi engan veginn haldið í við þörf. Sú frétt að fólk fær nú skömmtunarseðla til að leggja inn í verslunum bæjarins hér í Reykjavík í stað peninga sem vantar til heimilisins hefur vakið óhug manna. Ég skal taka fram að ekkert ólöglegt er við þetta. Framfærslulögin frá 1947 leyfa beinlínis að fólki sé veittur styrkur með matvælum, fatnaði eða öðru því „sem hreppsnefnd þykir hentugast“, minnir mig að standi í lagatextanum. En ég vil beina máli mínu til hæstv. félmrh. Ég óska þess að þessi útgáfa skömmtunarseðla verði tafarlaust stöðvuð. Það mál þolir enga bið. Ég hélt að það væri ekki við lýði lengur að brennimerkja fólk. Þetta er litlu betra en það. Jafnframt vil ég fara fram á það við hæstv. félmrh. að framfærslulögin frá 1947 verði tafarlaust endurskoðuð.