25.03.1986
Sameinað þing: 65. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3328 í B-deild Alþingistíðinda. (2951)

Framkvæmd framfærslulaga

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég skal taka undir það með hv. 10. landsk. þm. að þessi lýsing, sem hún hefur hér í frammi og hefur komið fram í sambandi við ástand þessara mála hér á landi, er alls ekki verjandi. Að sjálfsögðu er hér fjöldi fólks sem á við þetta vandamál að stríða og það er ekki eðlilegt ef ekki er hægt að bregðast þannig við að leysa úr þessu vandamáli. Ég vil segja í sambandi við það sem hún beindi til mín að ég hef einmitt núna undanfarið verið að undirbúa endurskoðun á framfærslulögum nr. 80/ 1947 og hef verið þessa dagana að velja fólk til þess að annast þá endurskoðun sem er vandamikið verk því að þetta eru viðkvæm lög sem hafa tekið ýmsum breytingum á undanförnum árum. En þörf á endurskoðun er æpandi og hefði átt að vera búið að gera hana fyrir mörgum árum.

Ég verð að segja eins og er að auðvitað eru félagsmálastofnanir, eins og hér í Reykjavík og víðar í þéttbýlinu sérstaklega, til þess settar að reyna að verja þetta fólk fyrir áföllum. Hins vegar er alveg ljóst eins og málin standa að það er allt of lítið fjármagn sem er veitt til þessara stofnana þannig að þær geta ekki veitt þá aðstoð sem þörf er á í nægjanlega ríkum mæli. Þess vegna þarf að vinna að því í fullri alvöru að reyna að fá á þessu breytingu.

Í raun og veru er undrunarefni að það skuli ekki hafa verið tekið fastari tökum í þeim sveitarstjórnum eða bæjarstjórnum sem hér eiga hlut að máli þar sem mest og stærst á brennur.

Í sambandi við skömmtunarseðlana get ég tekið undir það með hv. þm. að mér finnst það óhugnanleg staðreynd að það skuli vera gefnir út svona miðar. Þetta minnir mig á í gamla daga þegar ég var lítill drengur þegar var verið að láta okkur hafa ávísun á blautfisksseðlana í sambandi við innlegg á fiski og standa í biðröð til að fá út á þetta fyrir heimilið. Manni fannst þetta ekki vera í takt við tímann og ég get vel tekið undir að þetta er ekki gott form. Ég skal gera mitt með því að beina tilmælum til þeirra sem endurskoða þessi lög og eins til þeirra sem ráða í þéttbýlinu um að fá þessu breytt. Hins vegar hef ég ekki vald til þess.

Ég verð að segja það eins og er í sambandi við þessar umræður um fátækramörk að það verður að undrast og í raun og veru að harma að þegar víðtækt samstarf fer fram milli aðila vinnumarkaðarins um launakjör í landinu skuli ekki vera sterkari samstaða um að bæta lágu kjörin miklu meira en raun ber vitni. Á því er mikil þörf. Ef þetta vandamál er svo mikið sem sagt er, ég ætla ekki að vefengja það, getur komið til greina að athuga hvort ekki er orðið tímabært að setja upp kerfi sem heyrir undir láglaunabætur. Það yrði þá gert á opinberum vettvangi.