25.03.1986
Sameinað þing: 65. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3335 í B-deild Alþingistíðinda. (2959)

Framkvæmd framfærslulaga

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil sérstaklega þakka hv. 4. þm. Norðurl. v. fyrir athyglisverða, ígrundaða ræðu sem hann flutti hér áðan og einkum og sérstaklega þann heiður sem hann gerði mér með því að nefna síðustu ríkisstjórn ríkisstjórn Svavars Gestssonar. En þannig var að sú ríkisstjórn var ríkisstjórn varaformanns Sjálfstfl., Gunnars Thoroddsens, og tveggja annarra ráðherra úr Sjálfstfl., Friðjóns Þórðarsonar og Pálma Jónssonar. Mér finnst það ævinlega sérkennilegt þegar þessi hv. þm. virðist finna hjá sér óstöðvandi þörf í hvert skipti sem ég kem í ræðustólinn til þess að rjúka upp á eftir mér til að skamma flokksbræður sína undir dulnefninu Svavar Gestsson. Innlegg hans í þessa umræðu að öðru leyti hér á undan breytir engu, herra forseti.

Það sem skiptir máli er það að alþm. taki á þessu vandamáli og viðurkenni að til þess liggja pólitískar röksemdir. Núverandi ríkisstj. og Sjálfstfl. geta ekki skotið sér á bak við eitt eða neitt í þeim efnum vegna þess að Sjálfstfl. hefur alræðisvald á Íslandi svo að segja um þessar mundir. Hvar er fátæktin hrikalegust á Íslandi? Í Reykjavík. Hvar er mismunurinn á lífskjörum manna mestur á Íslandi í dag? Í Reykjavík. Hvar eru greiddir út skömmtunarseðlar handa fátæku fólki? Í Reykjavík. Hver ræður í Reykjavík? Sjálfstæðisflokkurinn ræður í Reykjavík.

Herra forseti. Ég vil að lokum bera eina fsp. fram til hæstv. félmrh.: Hefur niðurstaða ráðstefnu félagsmálastjóra verið rædd í ríkisstjórn Íslands?