25.03.1986
Sameinað þing: 65. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3343 í B-deild Alþingistíðinda. (2964)

354. mál, trjárækt í þéttbýli

Flm. (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. á þskj. 645 til þál. um trjárækt í þéttbýli. Auk mín eru flm. þáltill. þeir Friðjón Þórðarson, Friðrik Sophusson og Guðmundur H. Garðarsson. Ég les till., með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að eiga frumkvæði að samstarfi ríkisins, Sambands ísl. sveitarfélaga og Skógræktarfélags Íslands um gerð áætlunar til næstu fimm ára um trjárækt í og við þéttbýli um land allt. Verði það m.a. markmið skógræktaráætlunar þessarar að gróðursett verði árlega a.m.k. eitt tré fyrir hvern íbúa í sveitarfélögum landsins. Skal ríkisstjórnin skipa þrjá menn af sinni hálfu í samstarfsnefnd til að vinna að þessu verkefni í samvinnu við sveitarfélög landsins og Skógræktarfélag Íslands.“

Markmið þessarar till., herra forseti, er m.ö.o. að hvetja til aukinnar trjáræktar um land allt á næstu árum í og við þéttbýli.

Skógrækt hefur um langan aldur verið mörgum landsmönnum hugðarefni. Með skógrækt má segja að tvennt vinnist: Hún bætir landið og hún fegrar það jafnframt. Enn eigum við landinu mikla skuld að gjalda. Frá upphafi landnáms til þessa dags telja vísindamenn að um það bil helmingur gróðurlendis og jarðvegs landsins hafi tapast. Og enn á sér gífurleg eyðing stað á ári hverju. Þó hefur mikið áunnist við uppgræðslu lands á síðari árum og skógrækt hefur aukist allhröðum skrefum. En fjarri er því að landið beri nú þann svip og yfirbragð sem fyrr á öldum er skógar brugðu á það grænum blæ milli fjalls og fjöru.

Það er skoðun flm. þessarar till. að tímabært sé að hefja nú nýtt átak í skógrækt og beina því að þessu sinni fyrst og fremst að trjárækt í þéttbýli. Þar býr mikill meiri hluti þjóðarinnar og trjárækt þar er ein besta og ódýrasta aðferðin til þess að fegra og bæta umhverfi fólksins í landinu.

Þótt víða sé mikil trjárækt í görðum í íbúðarhverfum um land allt skortir þó mikið á að hið sama verði sagt um svæði sem ætluð eru til almenningsnota eða svæði við opinberar byggingar. Á það við um lóðir skóla, sjúkrahúsa og vistheimila m.a., en einnig er full ástæða til að efla skógrækt á iðnaðar-, íþrótta- og miðbæjarsvæðum og við vistgötur sem nú verða æ fleiri. Á slíkum svæðum er unnt að skapa skjól og vinalegt umhverfi með trjá- og runnagróðri.

Því hefur verið haldið fram að útivera og tengsl við óspillta náttúru sé félagsleg frumþörf. Og með því að fullnægja henni sé unnt að draga úr ýmsum vandkvæðum sem fyrir koma í þéttbýli nútímans. Þetta er ein af ástæðum þess að allar menningarþjóðir rækta tré við híbýli sín. Trjágróður veitir skjól, fegrar umhverfi, skapar öryggiskennd og dregur úr hávaða. Þannig er reynt að vinna gegn þeim ókostum sem fylgja vaxandi þéttbýli, auknum hraða og ópersónulegri samskiptum. Umhverfið þarf að móta að ólíkum þörfum og athöfnum. Í þeim efnum er þáttur trjáræktar mikilsverður eins og sjá má glöggt sums staðar hérlendis og víða erlendis.

Á því leikur ekki vafi að hér á landi er mikill og vaxandi áhugi á skógrækt. Mikilsvert er að beina þessum áhuga í réttan farveg og virkja hann eftir því sem kostur er. Þess er freistað með þessari þáltill. sem hér er fram borin. Hér er gert ráð fyrir að gerð verði áætlun til næstu fimm ára um trjárækt í og við þéttbýli um land allt. Markmið hennar er að gróðursett verði árlega a.m.k. eitt tré fyrir hvern íbúa í sveitarfélögum landsins. Hér er um raunhæft markmið að ræða og ekki of geyst af stað farið í upphafi, enda þarf þess að gæta. Hins vegar er ljóst að ef slík áætlun nær fram að ganga verður ólíkt fegurra um að litast í bæjum og kauptúnum hér á landi eftir nokkur ár, og er þá ótalið það skjól og sú landbót sem skógræktin ávallt skapar.

Gert er ráð fyrir því í þáltill. að framkvæmdaaðilarnir í þessum efnum verði fyrst og fremst sveitarfélög landsins, sem mörg hafa þegar sýnt mikinn áhuga á skógræktarmálum, og Skógræktarfélag Íslands. Hafi ríkisstjórnin forgöngu um þetta samstarf en af hennar hálfu mun þar ugglaust fyrst og fremst koma til kasta Skógræktar ríkisins.

Mjög æskilegt væri að tengja þetta trjáræktarátak starfi hinna mörgu áhugamannafélaga um land allt eftir því sem kostur er á hverjum stað, auk þess sem samtök ungs fólks munu tvímælalaust reiðubúin til að leggja hér hönd á plóginn.

Þess má geta hér að lokum að Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafa þegar beint þeim tilmælum til sveitarstjórna að gert verði átak í trjárækt þar í líkingu við það sem hér er fjallað um og lagt til að taki til landsins alls. Er með því skapaður góður grundvöllur fyrstu aðgerða á þessu sviði.

Ég hef lokið herra forseti, hér að gera grein fyrir þessari þáltill. Ég vil leyfa mér að leggja það til að að lokinni umræðu um hana hér í Sþ. nú verði henni vísað til atvmn.

Umr. (atkvgr.) frestað.