01.04.1986
Sameinað þing: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3347 í B-deild Alþingistíðinda. (2972)

306. mál, stofnun sendiráðs í Japan

Fyrirspyrjandi (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 570 leyft mér að bera fram eftirfarandi fsp. til utanrrh. um stofnun sendiráðs í Japan:

„Hvaða áform eru uppi um stofnun sendiráðs í Japan sem hefði það meginhlutverk að annast markaðsleit fyrir íslenskar afurðir í Austur-Asíulöndum?"

Það þarf í sjálfu sér ekki, herra forseti, að fara mörgum orðum um tilefni þessarar fsp. Íslenska lýðveldið hefur komið á stofn sendiráðum í meir en tug ríkja. Þau eru öll í Evrópulöndum, hinum gömlu hefðbundnu viðskipta- og vinalöndum Íslendinga, og vestan hafs í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Þróunin í viðskiptamálum og stjórnmálum í veröldinni hefur hins vegar tekið stórstígum breytingum á síðustu áratugum. M.a. er ein breytingin sú að mikilvægi Japans hefur farið mjög vaxandi fyrir okkur Íslendinga og íslenskan efnahag. Þá á ég bæði við innflutning frá því landi, en ekki síður útflutning íslenskra afurða til Japans.

Lítum á mikilvægi þeirra viðskipta. Ég nefni innflutninginn fyrst. Á árinu 1984 fluttum við inn vörur frá Japan fyrir um 1221 millj. kr. og á síðasta ári fyrir 1632 millj. kr. sem voru 4,4% af innflutningi. Til Japans fluttu Íslendingar 1984 fyrir 884 millj. kr. Á því varð mjög mikil aukning á síðasta ári. Þá voru fluttar íslenskar vörur til Japans fyrir 1672 millj. kr. Með því var Japan orðið eitt mesta viðskiptaland okkar og þangað fóru 5,3% af heildarútflutningi landsins.

Það er alveg ljós að mikilvægi markaðarins í Japan og raunar í Austur-Asíulöndum mun fara hraðvaxandi á næstu árum. Nú er málum svo háttað að við höfum ekkert sendiráð í Afríku né Asíu né Suður-Ameríku. Ég held, og það er tilefni þessarar fsp., að það sé kominn tími til þess að menn velti því af alvöru fyrir sér, bæði hér á Alþingi og ekki síður í ríkisstj. og þá fyrst og fremst í utanrrn., hvort ekki er orðið tímabært að opna sendiráð í Japan sem hyggi ekki aðeins að íslenskum viðskiptahagsmunum í því stóra landi, sem telur nokkuð á annað hundrað milljóna manna og er orðið mjög efnað land og ríkur markaður, heldur einnig í löndunum þar í kring.

Ég nefni mál sem er hér á dagskrá. Það er sala á hvalafurðum til Japans, umdeilt mál en sem hefur varðað okkur allmiklu. Útflutningur okkar á ýmsum fiskafurðum, svo sem loðnuhrognum, hefur og farið vaxandi. Einhver mesti markaður fyrir eldislax, sem er framtíðargrein Íslendinga ekki síður en Norðmanna, er einmitt Japan. Og þá eru ótaldir möguleikarnir á því að kanna markaði í nálægum löndum, eins og Kína sem nú er að opnast fyrir erlendum viðskiptum í mjög vaxandi mæli. Ég held að það væri því mjög tímabært að í það væri eytt því fjármagni sem þarf til þess að stofna sendiráð í Japan eða þá í einhverju nálægu landi, en vitanlega kemur þó það stóra land fyrst í hugann.