01.04.1986
Sameinað þing: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3348 í B-deild Alþingistíðinda. (2973)

306. mál, stofnun sendiráðs í Japan

Utanrrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Það er skoðun mín að fjölgun sendiráða og starfsmanna í utanríkisþjónustunni eigi fyrst og fremst að taka mið af okkar viðskiptahagsmunum. Ég lét þess getið þegar ég tók við embætti utanrrh. að ég mundi beita mér fyrir athugun á þessu máli. Á næstu mánuðum verður kannað á hvern hátt sendiráðin verði best nýtt í þessu skyni og þá sérstaklega með eflingu þeirra þátta er snúa að viðskiptamálum fyrir augum. Þá kemur upp hvort og þá hvar æskilegt væri að setja á stofn ný sendiráð eða efla þau sem fyrir eru. Þá kemur Asía að sjálfsögðu mjög til greina, eins og hv. fyrirspyrjandi réttilega benti á, og það land, Japan, sem hann sérstaklega vék að, en þar höfum við mikla viðskiptahagsmuni bæði í sambandi við sjávarútveg svo og hitt, samskipti um hátækni og orku.

Það verður því á næstu mánuðum unnið að því í utanrrn. að komast að niðurstöðu um með hvaða hætti skynsamlegast er að standa að þeim hlutum sem m.a. fyrirspyrjandi hefur spurt um á þskj. 570.