01.04.1986
Sameinað þing: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3348 í B-deild Alþingistíðinda. (2975)

309. mál, vandi vegna misgengis launa og lánskjara

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Nýlega var rennt í gegnum þingið frv. um tollalækkanir á bílum. Fyrirstöðulaust flaug það í gegnum hið háa Alþingi eins og um stimpilstofnun væri að ræða, vel smurða og afkastadrjúga stimpilstofnun. Þetta frv. var flutt til að leiðrétta reiknidæmi sem efnahagssérfræðingar ríkisstj. höfðu reiknað skakkt.

Herra forseti. Hafi einhver haldið að þeim vísu mönnum gæti ekki skjátlast höfum við það svart á hvítu sem lög frá Alþingi að þeir eru mannlegir og þeim getur skjátlast. Sömuleiðis að þeir sem þiggja ráð þeirra eru ekki alltaf færir um að leggja gagnrýninn dóm á útreikninga sérfræðinganna, hvað þá að sjá fyrir feril eða afleiðingar hinna ýmsu efnahagsáætlana.

Í september 1983 samþykkti ríkisstj. áætlanir um að afnema verðbætur á laun án þess að beita svipuðum áhrifum til verðstöðvunar eða vaxtalækkunar. Allir þekkja afleiðingar þessarar ákvörðunar og hæstv. forsrh. hefur sjálfur viðurkennt að þetta hafi verið pólitísk mistök. Getur það verið að stjórnvöld hafi ekki í raun séð fyrir það misgengi milli kaupgjaldsvísitölu og lánskjaravísitölu sem af mundi hljótast? Getur það verið að ekki hafi verið fyrir því séð í hvert óefni slík ráðstöfun mundi leiða þá sem höfðu tekið verðtryggð lán og höfðu ekki annað til að greiða þau með en laun sín? Ekki er okkur ætlað að trúa því að efnahagssérfræðingarnir og stjórnvöld hafi á kaldrifjaðan hátt reiknað með því að þessi ráðstöfun mundi því miður koma verr niður á sumum fremur en öðrum og þeim yrði að fórna til að dæmið gengi upp. Getur það verið?

Nei, ég hallast miklu fremur að því að þarna hafi verið gerð mistök. Að vísu eru þessi mistök afleit, en okkur verða öllum á mistök. Nú er spurningin: Hvernig ætla stjórnvöld að bæta fólki upp allt það tjón og þann persónulega vanda sem þau hafa bakað því? Við skulum ekki gleyma því að það hefur verið eindregin og afdráttarlaus stefna annars stjórnarflokksins, Sjálfstfl., að menn skyldu eignast eigið húsnæði. Þessi stefna hefur í reynd orðið að nauðsyn mjög margra vegna þess hve fárra annarra kosta er völ hérlendis varðandi húsnæðisöflun og henni hefur verið hampað og haldið fram af lánastofnunum. Það fólk sem gegndi þessari herkvaðningu reiknaði út greiðslugetu sína, sneið sér stakk eftir vexti, tók lán og hófst handa við byggingu eða húsnæðiskaup. Það sem fólk sá ekki fyrir voru aðgerðir ríkisstj. haustið 1983 og það eru þær ráðstafanir fyrst og fremst ásamt síðari ráðstöfunum eins og vaxtahækkunum sem hafa leitt og leiða enn eigur manna á nauðungaruppboð og þá sjálfa í örvæntingu til okurlánara eða gjaldþrots. Því hef ég leyft mér að bera fram fsp., bæði til hæstv. félmrh. og fjmrh., á þskj. 574, sem er í tengslum við tvær aðrar fsp. um húsnæðismál sem ég flutti hér fyrir skömmu til hæstv. félmrh., en þessi fsp. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Hefur ríkisstj. hugsað sér að koma til móts við fólk, sem á í vanda vegna misgengis launa og lánskjara, með öðrum hætti en viðbótarlánum og skuldbreytingu? Er í ráði að greiða fyrir þessu fólki t.d. með skattaívilnunum sem drægju úr þeim áföllum sem fólkið hefur orðið fyrir?"