01.04.1986
Sameinað þing: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3351 í B-deild Alþingistíðinda. (2977)

309. mál, vandi vegna misgengis launa og lánskjara

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það er ekki miklu við það að bæta sem fram kom hjá hæstv. félmrh. í svari hans við þessari fsp.

Það er rétt að misgengi milli launa annars vegar og lánskjaravísitölu hins vegar hefur valdið mörgum húsbyggjendum verulegum erfiðleikum, en það er líka rétt að fram komi hvers vegna þetta misgengi varð og á hvaða tíma það varð. Hv. fyrirspyrjandi hafði greinilega, svo sem fram kom í máli hans, ekki gert sér grein fyrir því.

Ástæðan fyrir því að misgengi varð á milli lánskjara og launa er fyrst og fremst sú að í tíð fyrri ríkisstj. fór stjórn efnahagsmála úr böndum og verðbólga æddi upp á við svo sem alkunnugt er. Launavísitalan hækkaði frá því í júnímánuði 1979 þar til í júnímánuði 1983 um 458%, í tíð fyrri ríkisstj. Lánskjaravísitala hækkaði á sama tíma um 556%, þ.e. lánskjaravísitalan hækkaði um 17,6% meir en launin á þessu tímabili.

Ef við tökum svo aftur þann tíma sem liðinn er frá því að núv. ríkisstj. tók við völdum hefur launavísitalan hækkað úr 558 stigum í 1204 stig. Lánskjaravísitalan hefur hækkað úr 656 stigum í 1239 stig, þ.e. launavísitalan hefur hækkað um 116%, en lánskjaravísitalan um 117%. M.ö.o.: sú efnahagsstefna sem tekin var upp af núv. ríkisstj. hefur leiðrétt það misgengi sem varð í tíð fyrri ríkisstj. á milli launa og lánskjara. Það hefur á ný náðst jafnvægi á milli launa og lánskjara með þeim efnahagsráðstöfunum sem gerðar voru og þeirri efnahagsstefnu sem fylgt hefur verið. Það er jöfnuður á milli launa og lánskjara frá því að þessi ríkisstj. tók við og fram til dagsins í dag. Misgengið varð í tíð fyrri ríkisstj.

Það er nauðsynlegt að hv. fyrirspyrjandi og aðrir hv. þm. átti sig á því hvers vegna þetta misgengi varð og á hvaða tíma. Aðalatriðið er að það hefur verið snúið frá þeirri efnahagsstefnu sem leiddi til þessa misgengis og það skiptir auðvitað mestu máli fyrr húsbyggjendur í þessu landi að þetta hefur gerst. Þar að auki hafa verið gerðar margvíslegar ráðstafanir með afturvirkum áhrifum til að koma til móts við þá sem urðu fyrir barðinu á efnahags- og félagsmálastefnu fyrrv. ríkisstj., margvíslegar ráðstafanir sem hæstv. félmrh. hefur greint frá og ég ætla ekki að endurtaka.

Það eru ekki uppi önnur áform um breytingar í þessu efni en nú eru til umræðu og athugunar í sérstakri nefnd sem fjallar um húsnæðismálin í samráði og samstarfi við Alþýðusamband Íslands í framhaldi af nýgerðum kjarasamningum.